Efnahagsmál - 

03. maí 2001

Órói á gjaldeyrismarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Órói á gjaldeyrismarkaði

Gengi krónunnar hefur lækkað ört undanfarna daga og vikur. Gengi krónunnar lækkaði um 6,4% í gær og var orðið 13% lægra en um sl. áramót og 24% lægra en þegar það varð hæst á síðasta ári. Ljóst er að þessi þróun skapar mikinn þrýsting á verðlag næstu mánuði ef hún helst.

Gengi krónunnar hefur lækkað ört undanfarna daga og vikur.  Gengi krónunnar lækkaði um 6,4% í gær og var orðið 13% lægra en um sl. áramót og 24% lægra en þegar það varð hæst á síðasta ári.  Ljóst er að þessi þróun skapar mikinn þrýsting á verðlag næstu mánuði ef hún helst.

Tímabundnar ástæður
Gengi krónunnar hefur verið mjög stöðugt undanfarin ár og eru landsmenn teknir að venjast því.  Við því mátti hins vegar búast að aukið gengisflökt myndi fylgja þeirri nýju gengisskipan sem tekin var upp í lok mars.  Hins vegar óraði engan fyrir því mikla falli krónunnar sem orðið hefur í kjölfarið.  Þróunin hefur verið öfgakennd og líkur eru á því að hún gangi til baka að nokkru leyti, þótt því sé ekki haldið fram að hún gangi öll til baka.  Skýringar lækkunarinnar virðast vera sértækar og tímabundnar og má að því er virðist rekja til sjómannaverkfallsins.  Mikilvægt er að allir aðilar haldi ró sinni gagnvart því ástandi sem upp er komið.

Bætt starfsskilyrði atvinnulífs
Mikilvægast nú er að endurvekja trú á íslenskt efnahagslíf, en þá fara markaðsaðilar á ný að taka stöðu með krónunni.  Í fyrsta lagi þurfa samningsaðilar að finna lausn á sjómannadeilunni, en það hefði mikil áhrif til skamms tíma.  Annað nærtækt viðfangsefni er að jákvæð niðurstaða fáist fljótt í samningum Norðuráls og stjórnvalda. Þá er mikilvægt að metnaðarfullum áformum stjórnvalda um einkavæðingu verði hraðað eins og kostur er.  Síðast en ekki síst skiptir miklu máli að stjórnvöld kynni með skýrum hætti áform sín um aðgerðir til að bæta starfsskilyrði íslensk atvinnulífs.

Engum ætti að dyljast að mikill halli í viðskiptum við útlönd á sinn þátt í lækkun gengis krónunnar.  Viðskiptahallinn á að hluta rót sína í gríðarlegri kaupmáttaraukningu launa síðustu ár, en hún hefur leitt til þess að hlutur launa í þjóðartekjum er nú óvenju hár í sögulegu ljósi.  Spegilmyndin af því er að hlutur fyrirtækja hefur rýrnað sem er enn ein ástæðan fyrir því að gera þarf umbætur í starfsumhverfi fyrirtækjanna.

Næstu umbætur í skattamálum hljóta að beinast að fyrirtækjasköttum.  Á fyrri hluta síðasta áratugar voru ýmsar lagfæringar gerðar á fyrirtækjasköttum, en á síðari hluta áratugarins fengu launamenn verulegar lækkanir á tekjuskatti.  Þá hefur verið ákveðið að tekjuskattshlutfall ríkisins verði lækkað um 0,33%  um næstu áramót til þess að vega upp heimild sveitarfélaga til hækkunar útsvars.

Ástæða er því til að óttast að kjarasamningarnir, sem gilda til ársloka 2003 og fram eftir árinu 2004, hafi fest efnahagslífið inni í hækkunarferli sem það rísi ekki fyllilega  undir.  Þrátt fyrir langan samningstíma er útlit fyrir að launakostnaðarhækkanir verði meiri hér en almennt gerist hjá erlendum keppinautum okkar.   

Eitt mikilvægasta framlagið til að vinna gegn þeim aðstæðum sem upp eru komnar í gjaldeyrismálum þjóðarinnar er að allir aðilar sýni aukna ráðdeild; heimilin, fyrirtækin og hið opinbera.  Það veldur áhyggjum að innlendur sparnaður hefur farið hraðminnkandi undanfarin tvö ár, eins og fram kemur í þessu fréttabréfi. Árið 2000 var hreinn sparnaður landsmanna innan við hálft prósent af landsframleiðslu, en á árunum 1990-1998 var hlutfallið oftast nær á bilinu 3-5%. Þetta gerist þrátt fyrir að þátttaka í frjálsum lífeyrissparnaði hafi stóraukist á liðnu ári því gera má ráð fyrir að um 40% launþega spari með þessum hætti um þessar mundir.

Erfitt er að spá fyrir um gengisþróun næstu daga og vikna.  Nái framangreindar  breytingar fram að ganga má hins vegar búast við því að gengi krónunnar styrkist þegar til lengri tíma er litið.

Hannes G. Sigurðsson
 

Samtök atvinnulífsins