Efnahagsmál - 

23. janúar 2008

Orkuverð hækkar vegna útstreymiskvóta í Evrópu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Orkuverð hækkar vegna útstreymiskvóta í Evrópu

Framkvæmdastjórn ESB kynnir í dag tillögur um aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og um aðgerðir til að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku í Evrópusambandinu. Ætlunin er að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% til ársins 2020 miðað við 1990. Eins er ætlunin að hlutur endurnýjanlegrar orku í sambandinu verði um 20% árið 2020. Samkvæmt tillögunum munu fleiri atvinnugreinar en áður falla undir viðskiptakerfi með útstreymisheimildir þar á meðal ál- og járnblendiiðnaður. Ætlunin er að sífellt stærri hluti heimilda verði boðinn upp en ekki úthlutað án endurgjalds. Orkuverð mun því halda áfram að hækka í ESB vegna þessarar skattlagningar og verð á vörum og þjónustu mun jafnframt hækka. Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir hugsanlegum aðflutningsgjöldum á vörur sem framleiddar eru utan ESB en falla undir viðskiptakerfið ef framleiðslan á sér stað innan ESB.

Framkvæmdastjórn ESB kynnir í dag tillögur um aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og um aðgerðir til að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku í Evrópusambandinu. Ætlunin er að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% til ársins 2020 miðað við 1990. Eins er ætlunin að hlutur endurnýjanlegrar orku í sambandinu verði um 20% árið 2020. Samkvæmt tillögunum munu fleiri atvinnugreinar en áður falla undir viðskiptakerfi með útstreymisheimildir þar á meðal ál- og járnblendiiðnaður. Ætlunin er að sífellt stærri hluti heimilda verði boðinn upp en ekki úthlutað án endurgjalds. Orkuverð mun því halda áfram að hækka í ESB vegna þessarar skattlagningar og verð á vörum og þjónustu mun jafnframt hækka. Í tillögum framkvæmdastjórnarinnar er einnig gert ráð fyrir hugsanlegum aðflutningsgjöldum á vörur sem framleiddar eru utan ESB en falla undir viðskiptakerfið ef framleiðslan á sér stað innan ESB.

Viðskiptakerfi með útstreymisheimildir

Framkvæmdastjórn ESB kynnir í dag tillögur sínar um breytingar á tilskipun um viðskiptakerfi með útstreymisheimildir gróðurhúsalofttegunda. Fram að þessu hefur tilskipunin einkum fjallað um útstreymi frá orkuverum sem nota kol, olíu og jarðgas og nokkrum tegundum fyrirtækja eins og olíuhreinsistöðvum. Fyrsta tímabil tilskipunarinnar náði til áranna 2005 til 2007 og nú er nýhafið annað tímabilið sem nær til 2008 - 2012. Í desember 2006 lagði framkvæmdastjórnin til að flugsamgöngur falli undir tilskipunina og má búast við að þær tillögur fái lokaafgreiðslu á þessu ári og að flugið komi undir tilskipunina 2012.

Í október á síðasta ári var samþykkt að tilskipunin heyrði undir EES-samninginn en þannig frá málum gengið að engin starfsemi hér á landi fellur undir viðskiptakerfið á árunum 2008 til 12. Þó má gera ráð fyrir því að íslensk flugfélög muni falla undir kerfið á svipuðum tíma og önnur flugfélög sem stunda flug í ESB og til og frá sambandinu. Íslensk stjórnvöld þurfa þó að tryggja að skráningarkerfi og viðskiptakerfið verði hér til staðar. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað bent á mikilvægi flugsamgangna fyrir landið og að aðrir kostir eins og lestarsamgöngur séu ekki til staðar og að kostnaður við tilskipunina leggist því hlutfallslega þungt á íslenskt samfélag.

Áhrif á ál- og járnblendiframleiðslu á Íslandi

Í grófum dráttum má segja að kerfið virki þannig að fyrirtæki fái úthlutað útstreymisheimildum eftir ákveðnum reglum frá aðildarríkjunum þar sem þeim eru sett markmið til að draga úr útstreymi. Þeim sem tekst að draga úr útstreymi þannig að heimildir verða afgangs geta selt þær á markaði en þeim sem ekki tekst að ná markmiðum sínum verða að kaupa þær. Að auki er heimilt upp að vissu marki að nýta sér heimildir sem aflað er með verkefnum í þróunarríkjum eða þeim ríkjum öðrum þar sem slíkar heimildir geta orðið til samkvæmt sveigjanleikaákvæðum Kyoto-bókunarinnar við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna.

Þær breytingar á tilskipuninni sem framkvæmdastjórn ESB kynnir í dag felast aðallega í nokkrum þáttum: Í fyrsta lagi er lagt til að næsta tímabil taki til áranna 2013 - 2020. Í öðru lagi er lagt til að fleiri atvinnugreinar falli undir tilskipunina á næsta tímabili þar með talið útstreymi koldíoxíðs og svokallaðra PFC efna frá álframleiðslu og einnig koldíoxíð frá járnblendiframleiðslu. Þetta þýðir væntanlega að ál- og járnblendiframleiðsla hér á landi munu falla undir reglurnar þegar fram líða stundir. Í þriðja lagi er lagt til að sífellt stærri hluti útstreymisheimilda verði boðinn upp þannig að fyrirtækin þurfi að greiða fyrir heimildirnar. Gert er ráð fyrir að sá hluti heimilda sem boðinn verður upp vaxi jafnt og þétt á tímabilinu 2013 til 2020.  

Verð á vörum og þjónustu hækkar

Tekjur af uppboðum útstreymisheimilda verða gríðarlega miklar og munu meðal annars leiða til hærra orkuverðs í ESB, hækkunar á verði fjölmargra vöruflokka og margs konar þjónustu. Tekjurnar falla til aðildarríkjanna eftir reglum sem munu taka mið af heildarútstreymi í ríkjunum, efnahag þeirra og öðrum aðstæðum. Með þær verður farið eins og hverjar aðrar skatttekjur nema hvað hluta þeirra á að verja til að draga úr útstreymi meðal annars með umfangsmiklu styrkjakerfi til að hvetja til aukinnar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa.  

Þó er gert ráð fyrir að þær atvinnugreinar sem ekki geta velt kostnaði yfir á kaupendur afurðanna fái stærstan hluta heimildanna án endurgjalds. Þetta á við um orkufrekan iðnað eins og til dæmis álframleiðslu þar sem verð afurða ræðst á alþjóðlegum markaði og fyrirtækin hafa enga möguleika á að velta sértækum sköttum út í afurðaverðið. Afleiðingar gætu enda einungis orðið þær að framleiðslan flytjist þangað sem kröfurnar eru minni og aðstæður til rekstrar þannig hagstæðari. Samkeppnisstöðu fyrirtækja innan ESB yrði raskað og þau ekki samkeppnishæf við fyrirtæki utan sambandsins.

Þetta sjónarmið virðast forystumenn ESB viðurkenna. Haft er eftir forseta framkvæmdastjórnarinnar José Mario Barroso á vef Euobserver "að það hafi engan tilgang að hvetja fyrirtæki í ESB til að draga úr útstreymi ef eina afleiðingin verði sú að framleiðslan og útstreymið flytjist til landa þar sem ekki er að finna reglur um kolefnisútstreymi". "Ef þörf krefur mun orkufrekur iðnaður áfram fá sínar útstreymisheimildir án endurgjalds." Gert er ráð fyrir samráði við atvinnulíf og að niðurstöður í þessum efnum liggi fyrir um mitt ár 2011.

Umdeildar tillögur ESB

Sá þáttur tillagna ESB sem vekur einna mestar deilur eru hugmyndir um að leggja aðflutningsgjöld eða tolla á þær vörur sem framleiddar eru utan sambandsins en falla undir viðskiptakerfið ef þær eru framleiddar innan sambandsins. Erfitt er að sjá fyrir hvernig slíkt kerfi getur samræmst reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) auk þess að það hlýtur að verða óhemju dýrt og flókið í framkvæmd og bjóða heim hættu á mismunun. Á vef EurActiv kemur fram að bæði bresk og bandarík stjórnvöld telja þessar tillögur bjóða heim hættu á víðtækum viðskiptahindrunum.

Þessar tillögur eru liður í áformum ESB um að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í sambandinu um 20% til ársins 2020 miðað við grunnárið 1990.

Samkvæmt Kyoto-bókuninni ber að draga úr útstreymi í ESB um 8% að meðaltali á árunum 2008-12 miðað við 1990. Þess ber þó að geta að einungis 15 fyrri aðildarríki ESB falla undir þær kvaðir. Undir 20% samdráttarmarkið falla hins vegar öll aðildarríkin 27 þar með talin fyrrum austantjaldsríki þar sem verulegur samdráttur varð í útstreymi eftir 1990 vegna breytinga á efnahagsstarfseminni. Framkvæmdastjórnin kynnir einnig í dag tillögur sínar um hvernig auka eigi hlut endurnýjanlegrar orku í ESB í 20% árið 2020 og hvernig skipta eigi markmiðum milli aðildarríkjanna.

Tillögur ESB fara til umfjöllunar Evrópuþingsins og aðildarríkjanna og geta tekið breytingum en búast má við að þær verði samþykktar 2009 eða 2010.

Vefur EUObserver: http://www.euobserver.com/

Vefur EurActiv: http://www.euractiv.com/

Samtök atvinnulífsins