Efnahagsmál - 

09. febrúar 2006

Orka og ál: hátækni og góð störf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Orka og ál: hátækni og góð störf

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu:

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, í Morgunblaðinu:

Undanfarnar vikur hefur mikil umræða farið fram um ágæti frekari virkjunar vatns- og gufuafls og um ágæti áframhaldandi uppbyggingar áliðnaðar á Íslandi. Sýnist þar sitt hverjum eins og gengur þótt nýleg könnun IMG Gallup sýni að mikill meirihluti Íslendinga styður áframhaldandi nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda hérlendis, og að mun fleiri eru fylgjandi en mótfallnir áframhaldandi uppbyggingu áliðnaðar. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samorka héldu á dögunum ráðstefnu um gildi ál- og orkuframleiðslu á Íslandi undir heitinu Orkulindin Ísland. Þar var meðal annars fjallað um álitaefni í þessu sambandi á sviðum umhverfis- og efnahagsmála, en deilur um virkjanir og álver hafa einkum snúist um þessa tvo málaflokka. Þar komu hins vegar einnig fram ýmsar áhugaverðar upplýsingar, meðal annars um hátæknistörf í virkjunum og álverum, og almennt séð um góð og vel launuð störf í álverum. Af umræðunni mætti oft ætla að þessu væri þveröfugt farið.

Fyrsti hátækniiðnaðurinn

Í umræðum um virkjanir og álver er þessum greinum oft stillt upp andspænis hátækniiðnaði. Stafar það einkum af erfiðleikum þeirra fyrirtækja - líkt og fleiri útflutnings- og samkeppnisgreina - út af háu gengi krónunnar þessi misserin. Hágengið verður þó ekki nema að hluta rakið til mikilla virkjana- og álversframkvæmda en kerfisbreytingar á fjármálamarkaði, og mikil eignaaukning í kjölfarið, vega þar þyngra. Það sem gleymist hins vegar í þessari umræðu er sú staðreynd að virkjun raforku og álframleiðsla voru fyrstu hátæknigreinarnar í íslensku atvinnulífi, líkt og fram kom fram í erindi Ágústs Valfells, lektors við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, á fyrrnefndri ráðstefnu.

Ágúst fjallaði meðal annars um gríðarlegt mikilvægi orku- og álframleiðslu í þróun íslensks samfélags úr einföldu bændasamfélagi yfir í fjölbreytt þekkingarsamfélag. Hann lagði áherslu á að hátækni yrði ekki til í tómarúmi og nefndi meðal annars að virkjanir reistar á eftir Búrfellsvirkjun hafa verið hannaðar af Íslendingum, og að uppbyggingunni, viðhaldi og þjónustu hefur að mestu verið sinnt af íslenskum sérfræðingum. Þá hefur Landsvirkjun undanfarin ár varið um tveimur milljörðum árlega til kaupa á rannsóknar- og hönnunarþjónustu. Þetta eru dæmi um þau miklu umsvif í ýmsum hátækni- og rannsóknarstörfum sem fylgja framleiðslu orku og áls í íslensku atvinnulífi. Sumar af stærstu verkfræðistofum Íslands er að finna innanhúss í orku- og álfyrirtækjum. Margir þeirra sérfræðinga sem starfað hafa við framkvæmdir, rekstur og þjónustu við þessar greinar hafa síðar horfið til starfa í öðrum greinum, en eins og fyrr segir þá verður hátækni ekki til í tómarúmi.

Á ráðstefnunni fjallaði Gunnar Tryggvason, fjármálastjóri Enex, um starfsemi fyrirtækisins að útflutningi þekkingar og að verðmætasköpun víða um heim í krafti íslenskrar þekkingar á sviði virkjunar vatnsorku og jarðvarma. Virkjun orkuauðlinda og framleiðsla á áli eru hvoru tveggja dæmi um hátækni- og þekkingariðnað í íslensku atvinnulífi.

Góð og vel launuð störf

Oft er talað niðrandi um þá framtíðarsýn að börnin okkar eigi jafnvel eftir að vinna í álverum. Þannig er í raun iðulega talað með fullkominni lítilsvirðingu um störf og lífsviðurværi þúsunda Íslendinga. Í erindi Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, á títtnefndri ráðstefnu kom hins vegar fram að í álverum er boðið upp á góð og vel launuð störf. Þannig er meðalstarfsaldur í álverinu í Straumsvík með því lengsta sem gerist, eða yfir 15 ár í árslok 2005. Veltuhraði starfsmanna er einnig með því lægsta sem þekkist, eða 3,5 - 4% í áliðnaði árið 2004, þannig að menn láta nánast ekki af störfum í álfyrirtækjunum nema vegna aldurs. Í samanburði skiptir um þriðjungur félagsmanna í ASÍ um störf árlega. Þá sagði Gylfi álverin í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum og sýndi fram á að regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum væru mun hærri en meðallaun þessara hópa á landsvísu. Þetta er ekki beinlínis lýsing á störfum sem verðskulda þá neikvæðu umræðu sem þessi fyrirtæki og starfsfólk þeirra þurfa iðulega að sitja undir.

Mál að linni

Ljóst er að komi til stórra virkjana- og álversframkvæmda á næstu árum gerir það miklar kröfur til hagstjórnar, bæði ríkis og sveitarfélaga, og öflugar mótvægisaðgerðir á sviði opinberra fjármála gríðarlega mikilvægar. Jafnframt er ljóst að við hvers kyns framkvæmdir við virkjanir og álver verður að hafa lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi og ganga um íslenska náttúru af virðingu. Þessi mál þarf að ræða og vanda til verka. Hins vegar er mál að linni þeim ofurneikvæðu ummælum sem iðulega eru látin falla í þessu sambandi um eðli og ágæti starfa við virkjanir og áliðnað. Þarna eru á ferðinni mikill fjöldi hátæknistarfa og almennt séð góð og vel launuð störf sem óvenju langur starfsaldur ber vitni.

Erindin á sa.is

Framangreind erindi ráðstefnunnar og fjölmörg önnur áhugaverð erindi sem þar voru flutt er öll að finna á vef SA, sa.is, auk nefndrar könnunar IMG Gallup og umfjöllunar um fjörlegar pallborðsumræður.

Samtök atvinnulífsins