Vinnumarkaður - 

13. Maí 2017

Orð skulu standa um lækkun tryggingagjalds

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Orð skulu standa um lækkun tryggingagjalds

Fjármálaráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær að tryggingagjaldið yrði ekki lækkað í bráð heldur síðar á kjörtímabilinu.

Fjármálaráðherra lýsti því yfir í fjölmiðlum í gær að tryggingagjaldið yrði ekki lækkað í bráð heldur síðar á kjörtímabilinu.

Tryggingagjaldið bitnar sérstaklega á litlum fyrirtækjum þar sem laun eru yfirgnæfandi hluti rekstrargjalda, en lítil fyrirtæki eru meginuppspretta nýrra starfa í efnahagslífinu. Lækkun tryggingagjalds styrkir nýsköpun og stuðlar að bættum hag landsmanna.

Samkomulag handsalað
Í ársbyrjun 2016 gerðu SA og ASÍ kjarasamning um hækkun framlaga atvinnurekenda í lífeyrissjóði um 3,5% í þremur áföngum. Forsenda SA var að stjórnvöld lækkuðu tryggingagjaldið og byggði það á handsali við forystumenn þáverandi ríkisstjórnar um 1,5 % lækkun gjaldsins í þremur áföngum á árunum 2016-2018. Einungis fyrsti áfangi lækkunarinnar hefur komið til framkvæmda.

Stjórnvöld virðast hafa markað óopinbera stefnu um stöðuga hækkun tryggingagjalds. Vaxi atvinnuleysi þá hækki tryggingagjaldið og minnki það þá hækki almenna tryggingagjaldið.

Áhugi  stjórnmálamanna á skattkerfisbreytingum með jákvæð langtímaáhrif virðist mun minni en á aukningu ríkisútgjalda og hækkun skatta. Enda eru skattar á Íslandi meðal þeirra hæstu í heimi.

Tryggingagjaldið hækkaði mikið í kjölfar bankahrunsins. Þrátt fyrir mikla erfiðleika í rekstri fyrirtækja studdu SA hækkun þess enda myndi atvinnulífið síðar njóta góðs af lækkun gjaldsins þegar betur áraði.

Stöðug hækkun
Tryggingagjaldið er tvískipt, þ.e. atvinnutryggingagjald sem stendur undir atvinnuleysisbótum og almennt tryggingagjald sem að hluta fjármagnar lífeyrisgreiðslur TR. Stjórnvöld virðast hafa markað  óopinbera stefnu um stöðuga hækkun tryggingagjalds. Vaxi atvinnuleysi þá hækki tryggingagjaldið og minnki það þá hækki almenna tryggingagjaldið. Hækki greiðslur í fæðingarorlofi þá hækki gjaldið líka.

Um þessa óopinberu stefnu er engin sátt enda fjármagna atvinnurekendur sívaxandi hluta lífeyristrygginga landsmanna á grundvelli kjarasamninga um iðgjöld í lífeyrissjóði. Ákvarðanir um hækkun ríkisútgjalda til almannatrygginga eru á ábyrgð stjórnvalda og því er óeðlilegt að þeim fylgi sérstakar álögur á fyrirtækin í landinu. Lífeyrisþegum mun fjölga mikið á komandi árum. Hyggist stjórnvöld fjármagna auknar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga með hækkun tryggingagjalds mun það stöðugt hækka. Samtök atvinnulífsins leggjast alfarið gegn slíkri stefnumörkun enda mun það leiða til mikils ófarnaðar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2017

Samtök atvinnulífsins