Efnahagsmál - 

12. nóvember 2009

Orð skulu standa (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Orð skulu standa (1)

Þegar stjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað framlengja kjarasamninga við Alþýðusambandið til nóvemberloka 2010 stóð út af eitt mikilvægt atriði í viðræðum við ríkisstjórnina um framkvæmd stöðugleikasáttmálans. Þetta voru skattamálin, fyrst og fremst skattamál atvinnulífsins.

Þegar stjórn Samtaka atvinnulífsins ákvað framlengja kjarasamninga við Alþýðusambandið til nóvemberloka 2010 stóð út af eitt mikilvægt atriði í viðræðum við ríkisstjórnina um framkvæmd stöðugleikasáttmálans. Þetta voru skattamálin, fyrst og fremst skattamál atvinnulífsins.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er miðað við hátt í 90 milljarða króna skattahækkanir á þessu ári og því næsta miðað við fyrri hluta þessa árs. Við gerð stöðugleikasáttmálans var gert ráð fyrir 54 milljarða skattahækkunum á þremur árum, þ.e.a.s. 2009 - 2011. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið telja ekki vera forsendur fyrir þessum 90 milljarða skattahækkunum og gerðu athugasemdir við svokallaða aðlögunarþörf í ríkisfjármálum eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu þótt aðstæður geti hugsanlega að einhverju leyti hafa breyst. Jafnframt var lögð áhersla á að minni skattahækkanir ættu fyrst og fremst að koma fram í minni hækkun tekjuskatts einstaklinga.

Samtök atvinnulífsins mótmæltu harðlega áformum í fjárlagafrumvarpinu um nýja orku-, kolefnis- og umhverfisskatta enda settu þau fjárfestingaráform í orkufrekri starfsemi í hreint uppnám. Samtökin hafa bent á að skynsamlegra væri að hækka atvinnutryggingargjald sem atvinnulífið þarf alltaf að borga en það stendur undir kostnaði við atvinnuleysistryggingarnar. Með því að safna upp halla á atvinnuleysistryggingum er verið að ávísa á framtíðarskattlagningu á atvinnulífið en hallinn er ennfremur vaxtareiknaður með íslenskum vöxtum.

Útgerðin og flugreksturinn yrðu hæstu greiðendur kolefnisgjalds á fljótandi eldsneyti samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar. Útgerðin á líka að taka á sig hækkað veiðigjald og hækkun atvinnutryggingagjalds er stór póstur vegna hás launahlutfalls. Þegar kolefnisgjaldið kemur svo þar til viðbótar eru skattahækkanirnar á útgerðina og sjávarútveginn í heild orðnar alltof háar en fyrirtækin geta ekki velt þeim út í verðlag á erlendum mörkuðum. Þar til viðbótar hefur sjávarútvegsráðherra nú lagt fram frumvarp um afar skaðlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða þvert á samkomulag sem gert var við ríkisstjórnina í stöðugleikasáttmálanum um að þessi mál færu í vinnslu í breiðum starfshópi, samkomulag sem jafnframt var endurnýjað fyrir tveimur vikum.

Flugreksturinn og ferðaþjónustan eru ennfremur að fá á sig hækkanir vegna áforma um ný komugjöld og hugsanlegra umframhækkana á virðisaukaskatti á gistingu og veitingarekstur. Allar þessar hækkanir samanlagðar veikja um of samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda ferðamenn og eru því óskynsamlegar vegna þess að ferðamönnum fækkar og ríkissjóður verður af meiri tekjum en ætlað er að afla.

Í þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu að undanförnu hefur m.a. verið gert ráð fyrir nýju milliþrepi í virðisaukaskatti vegna t.d einkarekinna fjölmiðla, gistingar og veitinga sem skattlagt hefur verið í neðra þrepinu. Jafnframt hefur verið rætt um að flytja drykkjarvörur, sælgæti, kex og kökur úr matvælaþrepinu í almenna þrepið og hækka þessar vörur mikið til viðbótar við vörugjaldshækkunina sl. haust. Nýtt milliþrep og flutningur á milli þrepa er ekki ásættanlegt að mati Samtaka atvinnulífsins enda verið að raska óeðlilega rekstrarskilyrðum viðkomandi fyrirtækja og atvinnugreina. Mun nærtækara er að hækka bæði lægra og hærra þrepið almennt og halda skiptingunni milli þrepanna en ekki taka einstaka vöru- og þjónustuflokka út og hækka sérstaklega.

Samtök atvinnulífsins hafa verið til viðræðu um skattahækkanir á atvinnulífið og ekki í sjálfu sér gert athugasemdir við það meginmarkmið að ná inn 16 milljörðum meira í ríkissjóð eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að hin nýju orku-, kolefnis- og umhverfisgjöld skili. Ekki hefur heldur verið gerð athugasemd við hækkun virðisaukaskatts um 8 milljarða króna. Allar skattahækkanir bitna á fyrirtækjum og almenningi og meginatriðið er að ganga ekki harðar fram heldur en skattþolið leyfir og samkomulag hafði náðst um í stöðugleikasáttmálanum sl. sumar.

Samtök atvinnulífsins hafa átt samstarf við ríkisstjórnina og reynt að ná friði við hana um skattamálin og hafa nálgast viðfangsefnið af fullri ábyrgð með hliðsjón af nauðsyn þess að ná niður halla ríkissjóðs. Samtökin hafa bent á leiðir til þess að ná inn því sem áformað er að atvinnulífið beri og lagt áherslu á að minni heildarskattheimta verði nýtt til að draga úr áformum um hækkun á tekjuskatti einstaklinga sem voru algjörlega óraunhæf eins og þau birtust í fjárlagafrumvarpinu.

Nú er boltinn hjá ríkisstjórninni og vonandi næst niðurstaða sem atvinnulífið getur unað við. Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins er að binda enda á kreppuna og koma fjárfestingum og uppbyggingu nýrra starfa af stað. Um þetta hefur ríkisstjórnin sagst vera sammála SA og um þetta var samstaða í stöðugleikasáttmálanum.

Samtök atvinnulífsins munu aldrei una skattahækkunum sem eru til þess fallnar að dýpka og lengja kreppuna og geta heldur ekki unað því að gengið sé þvert á það sem búið er að semja um. Verði það niðurstaða ríkisstjórnarinnar skilja leiðir.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins