Orð skulu standa

Tryggingagjaldið er vondur skattur sem leggst á öll laun og dregur úr nýsköpun í atvinnulífinu. Það bitnar sérstaklega á litlum fyrirtækjum þar sem launagjöld eru yfirgnæfandi hluti rekstargjalda, en lítil fyrirtæki eru meginuppspretta nýrra starfa í efnahagslífinu. Lækkun þess er því til þess fallin að stuðla að aukinni nýsköpun og bættum hag landsmanna þegar fram í sækir.

Í upphafi þessa árs gerðu SA og ASÍ kjarasamning sem felur í sér að framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði hækka um 3,5% í þremur áföngum á árunum 2016-2018. Í aðdraganda samningsins samþykkti stjórn SA að ganga til þeirra samninga á þeirri forsendu að stjórnvöld mættu kröfu atvinnulífsins um verulega lækkun á tryggingagjaldinu.

Handsal um lækkun tryggingagjalds
Áður en kjarasamningarnir voru undirritaðir var handsalað samkomulag við stjórnvöld um að tryggingagjaldið myndi lækka um 0,5% um mitt ár 2016 og um sama hlutfall árin 2017 og 2018 að gefnum forsendum um lækkun skulda ríkisins. Þannig yrði gjaldið orðið svipað og það var fyrir efnahagshrunið 2008. Þetta handsal dugði SA til þess að ganga til samninga við ASÍ.

Á opnum fundum SA með forystumönnum stjórnmálaflokkanna hefur ítrekað komið fram þverpólitískur vilji til þess að lækka tryggingagjaldið. En áhugi stjórnmálamanna á skattkerfisbreytingum með jákvæð langtímaáhrif eða aukinni skilvirkni í rekstri hins opinbera er minni en á aukningu ríkisútgjalda og hækkun skatta. Enda eru skattar á Íslandi meðal þeirra hæstu í heiminum.

Hvað er tryggingagjald?
Tryggingagjald er skattur á atvinnurekstur sem lagður er á heildarlaun að viðbættum framlögum atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Tryggingagjaldið er samsett af almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi. Tryggingagjaldið í heild var 5,19% fyrir hrunið 2008, þar af var almennt tryggingagjald 4,54% og atvinnutryggingagjald 0,65%. Vegna vaxandi atvinnuleysis á árunum 2009 og 2010 var atvinnutryggingagjaldið hækkað í 3,81% og var sú hækkun í samræmi við gildandi lög sem kveða á um að gjaldið skuli ákveða ár hvert með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Tryggingagjaldið í heild varð hæst 8,35% árið 2011. Þrátt fyrir mikla erfiðleika í rekstri fyrirtækja studdu Samtök atvinnulífsins hækkun atvinnutryggingagjaldsins á þessum árum enda myndi  atvinnulífið ávallt bera kostnað af atvinnuleysi. Stuðningur SA við hækkun gjaldsins var mjög umdeildur meðal stjórnenda fyrirtækja en gagnrýni þeirra var mætt með þeim rökum að atvinnulífið myndi síðar njóta góðs af lækkun gjaldsins þegar atvinnuleysi minnkaði á ný.

Þegar atvinnuleysi tók að minnka og atvinnutryggingagjald lækkaði í samræmi við reglu laganna sáu  stjórnvöld færi á því að hækka almenna tryggingagjaldið. Almenna tryggingagjaldið hækkaði um 1,5% á árunum  2011-2014 og varð 6,04% en atvinnutryggingagjaldið lækkaði um 2,36% og varð 1,45%. Tryggingagjaldið í heild er nú á árinu 2016 6,75% og þar af er almenna tryggingagjaldið 5,40% og atvinnutryggingagjaldið 1,35%. Það hefur því lækkað um 1,6% frá því sem það var hæst en á sama tíma hefur atvinnutryggingagjald lækkað um 2,46%. Atvinnulífið telur sig því eiga inni tæplega 1% lækkun tryggingagjalds í heild.

Tryggingagjaldið hækki stöðugt
Stjórnvöld hafa fallið í þá freistingu að marka stefnu sem felur í sér stöðuga hækkun tryggingagjalds. Það felur í sér að vaxi atvinnuleysi þá hækki tryggingagjaldið. Þegar atvinnuleysi minnkar og atvinnutryggingagjaldið þar með þá hækki almenna tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið í heild lækkar ekki, alla vega minna en tilefni er til. Hækki greiðslur í fæðingarorlofi eða það lengist þá skuli tryggingagjald hækka. Þar til viðbótar eru uppi kenningar um að almenna tryggingagjaldið eigi að fjármagna tiltekið hlutfall útgjalda Tryggingastofnunar sem felur í sér að tryggingagjaldið mun þurfa að hækka árlega næstu áratugina vegna fjölgunar eftirlaunaþega. 

Um þessa stefnu er engin sátt enda fjármagna atvinnurekendur sívaxandi hluta lífeyristrygginga landsmanna á grundvelli kjarasamninga um iðgjöld í lífeyrissjóði. Ákvarðanir um hækkun útgjalda ríkisins til almannatrygginga eru á ábyrgð stjórnvalda, án aðkomu aðila vinnumarkaðarins, og því er óeðlilegt að þær ákvarðanir leiði tilsérstakra álaga á fyrirtækin í landinu. Fyrir liggur að lífeyrisþegum mun fjölga mikið á komandi árum, eða yfir 3% árlega. Ef stjórnvöld hyggjast fjármagna auknar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga af þeim sökum með hækkun tryggingagjalds má gróflega ætla að hækkunin þyrfti að vera 0,2% árlega að jafnaði. Samtök atvinnulífsins leggjast alfarið gegn slíkri stefnumörkun.

Hannes G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í desember 2016.