Vinnumarkaður - 

14. Maí 2009

Óraunhæfar hugmyndir um styttingu vinnuviku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óraunhæfar hugmyndir um styttingu vinnuviku

Í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er ákvæði um aðgerðir til þess að sporna gegn atvinnuleysi og þess getið í því samhengi að metnir verði kostir þess að stytta vinnuvikuna. Þetta kemur nokkuð á óvart því vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga og meðal samningsaðila hafa undanfarin ár ekki farið fram neinar umræður um styttingu vinnuvikunnar. Orlof er töluvert lengra á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum og sérstakir frídagar sömuleiðis fleiri. Ársvinnutími í dagvinnu er hvergi lægri nema í Þýskalandi og Frakklandi og hvorki eru tilefni né aðstæður til þess nú að eyða miklum tíma í skoðun á því hvort stytta eigi vinnuvikuna á Íslandi.

Í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er ákvæði um aðgerðir til þess að sporna gegn atvinnuleysi og þess getið í því samhengi að metnir verði kostir þess að stytta vinnuvikuna. Þetta kemur nokkuð á óvart því vinnutími er viðfangsefni kjarasamninga og meðal samningsaðila hafa undanfarin ár ekki farið fram neinar umræður um styttingu vinnuvikunnar. Orlof er töluvert lengra á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum og sérstakir frídagar sömuleiðis fleiri. Ársvinnutími í dagvinnu er hvergi lægri nema í Þýskalandi og Frakklandi og hvorki eru tilefni né aðstæður til þess nú að eyða miklum tíma í skoðun á því hvort stytta eigi vinnuvikuna á Íslandi.

Stjórnvöld höfðu síðast afskipti af vikulegum vinnutíma hér á landi árið 1972 þegar lög um 40 stunda vinnuviku voru lögfest, en áður var vinnuvikan 44 stundir. Lagabreytingin fól í sér 10% hækkun tímakaups í dagvinnu og ef 44 stundir voru unnar áfram ( frá 8-13 á laugardögum) þá fól hún í sér 18% hækkun vikukaups. Þá er í gildi vinnutímatilskipun ESB um 48 stunda hámarksvinnutíma að meðaltali.

Víða um lönd eru í gildi lög um 40 stunda vinnuviku á dagvinnutaxta eins og hér á landi. Aðilar á vinnumarkaði semja síðan sín á milli á þeim grundvelli um útfærslu á vinnutímanum eftir þörfum atvinnugreina eða fyrirtækja. Almennt ríkir sátt um að vinnutímamál séu viðfangsefni kjarasamninga á grundvelli þeirra lágmarka sem löggjafinn hefur sett með sama hætti og t.d. orlofsmál.

Í raun er vinnuvika á dagvinnutaxta styttri en 40 stundir hér á landi vegna þess að neysluhlé teljast til vinnutíma. Þannig er virkur vinnutími verkafólks og iðnaðarmanna 37:05 stundir á viku, afgreiðslufólks 36:35 og skrifstofufólks 36:15 stundir. Vinnutími vaktavinnufólks er jafnan styttri en dagvinnufólks og má nefna að í stóriðjufyrirtækjunum er algengt að meðalvinnutími á viku sé tæpar 34 stundir hjá starfsmönnum á þrískiptum vöktum. Að sama skapi er vaktavinnufólk í starfi hjá ríkinu, t.d. í heilbrigðiskerfinu, með styttri vinnuskyldu en dagvinnufólk.

Í yfirstandandi efnahagsþrengingum hefur meðalvinnutími verið að styttast, bæði með minnkandi yfirvinnu og lækkun starfshlutfalla fullvinnandi fólks tímabundið í 80-90% og í sumum tilfellum enn meira. Þær aðgerðir sem vinnuveitendur, bæði í einka- og opinbera geiranum hafa gripið til, hafa beinlínis haft það að markmiði að standa vörð um störfin og forðast uppsagnir. Vandséð er að miðstýrðar ákvarðanir um vinnutíma geti gegnt neinu hlutverki í þessu samhengi. Þvert á móti mætti ætla að miðstýrðar ákvarðanir á þessu sviði myndu valda auknum launakostnaði og það er ekki  svigrúm til þess við núverandi aðstæður.

Ákvæði um vikulegan vinnutíma á dagvinnukaupi, hvort sem um er að ræða lögbundin eða samningsbundin lágmörk, hafa verið óbreytt svo áratugum skiptir í þeim löndum sem við berum okkur við, að Frakklandi undanskildu. Síðustu breytingarnar á Norðurlöndunum áttu sér stað fyrir tveimur áratugum og færðust þá flest löndin nálægt þeim virka vinnutíma sem í gildi er á Íslandi.

Árið 2000 tóku gildi lög í Frakklandi um 35 stunda vinnuviku sem ollu miklum deilum. Hugsun þeirra sem stóðu að lagasetningunni var að með því að stytta vinnutíma hvers og eins mætti draga úr atvinnuleysi. Að baki slíkum hugmyndum er sú sýn að vinnumagnið sé eins konar ytri stærð sem unnt sé að deila á milli fólks. Rannsóknir á áhrifum lagasetningarinnar hafa leitt í ljós að þau stuðluðu ekki að minnkandi atvinnuleysi og má þvert á móti leiða að því líkur að slíkar aðgerðir auki atvinnuleysi vegna aukins kostnaðar fyrirtækja og minni sveigjanleika.

Lögunum var breytt árið 2008 í þá veru að möguleikar voru opnaðir fyrir kjarasamninga eða fyrirtækjasamninga um sveigjanlegan vinnutíma. Samkvæmt nýju lögunum mynda 35 stundirnar enn hámarkið fyrir dagvinnustundir að meðaltali á viku á ári en yfirvinnu umfram það má greiða með 10% álagi upp að vissu marki. Með þessari breytingu hefur 35 stunda reglunni í raun verið kippt úr sambandi, þó óformlega sé.

37 stunda vinnuvikan á Íslandi er stutt í alþjóðlegum samanburði, en einungis Frakkar og Þjóðverjar eru með styttri vinnuviku. Danmörk, Belgía og Bretland eru einnig með 37 stunda vinnuviku en flest þau ríki sem við berum okkur saman við eru með lög- eða samningsbundna vinnuviku á bilinu 38-40 stundir.

Umsaminn vinnutími á viku árið 2004

Raunhæfur samanburður á vinnutíma (á dagvinnutímakaupi) milli landa verður ekki gerður nema á ársgrundvelli vegna þess hversu mismunandi orlofsdagar, helgidagar og aðrir sérstakir frídagar eru á milli landa. Ársvinnutími var t.d. styttur um allt að tvo daga í núgildandi samningum á almennum vinnumarkaði með lengingu hámarksorlofs í 30 daga hjá flestum stéttum. Það jafngildir styttingu vinnuvikunnar um 20 mínútur að meðaltali.

Orlof er töluvert lengra á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum og sérstakir frídagar sömuleiðis fleiri. Samkvæmt þeim frídögum sem eru lög- og samningsbundnir hér á landi er ársvinnutíminn (á dagvinnukaupi) 1.660 stundir og hvergi lægri nema í Þýskalandi og Frakklandi, skv. yfirliti frá sænsku samtökum atvinnulífsins. Samkvæmt þessu er hvorki tilefni né aðstæður til þess að eyða miklum tíma í skoðun á því hvort stytta eigi vinnuvikuna á Íslandi.

Umsaminn ársvinnutími árið 2004

Sjá nánar:

Viðtal við Hannes G. Sigurðsson, í síðdegisútvarpi Rásar 2

Samtök atvinnulífsins