Efnahagsmál - 

10. Nóvember 2009

Óraunhæfar hugmyndir um stóraukna skatta

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óraunhæfar hugmyndir um stóraukna skatta

Í fréttum RÚV í gærkvöld var greint frá hugmyndum í stjórnkerfinu um stórfelldar skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki. Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, líst illa á margar þessara hugmynda og segir þær óraunhæfar. Í samtali við Morgunblaðið segir Vilhjálmur að tölurnar sem vitnað er til virðist hafa verið teknar úr vinnuplöggum en ekkert liggi í raun fyrir - það sé allt á floti.

Í fréttum RÚV í gærkvöld var greint frá hugmyndum í stjórnkerfinu um stórfelldar skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki. Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, líst illa á margar þessara hugmynda og segir þær óraunhæfar. Í samtali við Morgunblaðið segir Vilhjálmur að tölurnar sem vitnað er til virðist hafa verið teknar úr vinnuplöggum en ekkert liggi í raun fyrir - það sé allt á floti.

Meðal hugmynda sem nefndar voru í frétt RÚV var innleiðing á nýju fjölþrepa skattkerfi og að tekjuskattur á launatekjur yfir500 þúsund krónur á mánuð verði 47% en hann er nú 37,2% og persónuafsláttur 42.205 krónur á mánuði. Þá var nefnt að fjármagnstekjuskattur og tekjuskattur fyrirtækja verði hækkaður, einnig virðisaukaskattur og kolefnisgjald lagt á eldsneyti. Samkvæmt heimildum RÚV hyggst ríkisstjórnin sækja sér 118 til 120 milljarða króna í tekjuskatt á komandi ári sem er hækkun um 15-17 milljarða króna á milli ára.

Í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur ríkið stefna að því að afla 8 milljarða króna með breytingum á virðisaukaskatti. Í fjárlagafrumvarpinu sé miðað við að hækkun á tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti skili 40 milljörðum króna í viðbótartekjur á árinu 2010 miðað við fyrri hluta ársins 2009. "Við höfum alltaf sagt að þetta sé algjörlega óraunhæft. Skattaprósentan þyrfti að vera svo gífurlega há. Það er ekki nokkur leið að ná þeirri tekjuöflun fram með eðlilegu móti í gegnum skattahækkanir. Við hjá Samtökum atvinnulífsins erum ekki tilbúin að fallast á að þörf sé fyrir svona mikla skattahækkun."

Vilhjálmur bendir á að með því að taka upp margþrepa tekjuskatt sé verið að mismuna á milli hjóna með sömu heimilistekjur. Heimili þar sem tekjurnar séu jafnar milli hjóna borgi þá lægri skatta heldur en þar sem tekjuöflun hjóna sé mismunandi.

Einnig var rætt við Vilhjálm Egilsson í morgunfréttum RÚV. Þar undirstrikar hann þá skoðun SA að atvinnutryggingargjald verði hækkað til að mæta auknum útgjöldum vegna atvinnuleysis sem fyrirtækin komist ekki hjá því að borga. Hins vegar verði horfið frá hugmyndum um að leggja á 16 milljarða orkuskatt, umhverfis- og kolefnisgjöld sem komi illa við atvinnulífið og fjárfestingaráform. Við gerð stöðugleikasáttmálans í sumar hafð komið í ljós að ráðast þyrfti í skattahækkanir upp á 50-60 milljarða króna á þremur árum. Þessar hækkanir hafi svo verið auknar til muna í fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í haust.

"Atvinnulífið hefur ekkert verið að flýja það að það þyrfti að hækka skatta á atvinnulífið og við höfum verið í viðræðum við stjórnvöld um með hvaða hætti það gæti orðið," sagði Vilhjálmur við fréttastofu RÚV en einnig var rætt við hann í hádegisfréttum RÚV. Þar kallaði Vilhjálmur eftir skynsamlegum útfærslum á þeim skattahækkunum sem ráðist verði í.

Sjá nánar:

Hlusta á frétt RÚV í  8 fréttum 10.11.2009

Hlusta á frétt RÚV í hádegisfréttum 10.11. 2009

Horfa á frétt RÚV 9.11. 2009

Vefútgáfa Morgunblaðsins 

Sjá einnig:

Viðtal við Vilhjálm Egilsson á Sprengisandi 8.11.2009

Samtök atvinnulífsins