Efnahagsmál - 

07. maí 2002

Opinberir aðilar mega ekki leiða launaþróunina

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Opinberir aðilar mega ekki leiða launaþróunina

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins gagnrýndi Finnur Geirsson, nýendurkjörinn formaður samtakanna, hvernig hið opinbera hefur um margra ára skeið leitt launaþróun í landinu. "Hið opinbera, sem byggir á skattlagningu atvinnulífs og almennings, hefur tekið forystu um kostnaðarhækkanir í launum og öðrum starfskjörum, sem atvinnulífið getur ekki fylgt eftir. Slíkt getur ekki endað nema með ósköpum", sagði Finnur. Hann sagði auðsætt að opinberar stofnanir hefðu ekki ráðið við þá valddreifingu sem reynd hefði verið í launamálum hins opinbera á undanförnum árum.

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins gagnrýndi Finnur Geirsson, nýendurkjörinn formaður samtakanna, hvernig hið opinbera hefur um margra ára skeið leitt launaþróun í landinu. "Hið opinbera, sem byggir á skattlagningu  atvinnulífs og almennings, hefur tekið forystu um kostnaðarhækkanir í launum og öðrum starfskjörum, sem atvinnulífið getur ekki fylgt eftir. Slíkt getur ekki endað nema með ósköpum", sagði Finnur. Hann sagði auðsætt að opinberar stofnanir hefðu ekki ráðið við þá valddreifingu sem reynd hefði verið í launamálum hins opinbera á undanförnum árum.

Einkavæðing raunhæfasta lausnin
Finnur sagði það að mörgu leyti flókið viðfangsefni að samhæfa betur þróunina á vinnumarkaðnum, en að raunhæfasta leiðin hlyti þó að vera að fjölga vinnuveitendum á þeim sviðum sem í hlut ættu, með einkavæðingu og með útboði á rekstrarverkefnum.

Evran kallar á samkeppnishæf starfsskilyrði
Þá sagði Finnur menn innan Samtaka atvinnulífsins ekki á eitt sátta um kosti aðildar að ESB. Hins vegar væri ljóst að sameiginleg mynt fæli í sér umtalsvert hagræði fyrir þau lönd sem tekið hefðu upp evruna. Jafnframt væri ekki um það deilt að því fylgdi töluverður kostnaður að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil í litlu hagkerfi. Þessi staða gerir að sögn Finns enn ríkari kröfur til okkar Íslendinga um að sjá svo til, að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja á heildina litið liði ekki fyrir að hér sé lítill og hlutfallslega dýr gjaldmiðill. Nefndi Finnur m.a. frekari skattalækkanir í því sambandi.

Þá fjallaði Finnur m.a. um nauðsyn endurskoðunar samkeppnislaga, rauða strikið í samkomulagi SA og ASÍ, mikilvægi stöðugs verðlags, glímuna við sveiflur í íslensku efnahagslífi, þörf á lagabreytingu um Atvinnuleysis-tryggingasjóð, mikilvægi sveigjanleika á vinnumarkaði, stöðu og rekstrarfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs og fleira.


 

Sjá ræðu Finns Geirssonar (pdf-snið)

Samtök atvinnulífsins