Efnahagsmál - 

03. desember 2009

Opinber embættismaður með dylgjur um tiltekið fyrirtæki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Opinber embættismaður með dylgjur um tiltekið fyrirtæki

Í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi var viðtal við Aðalstein Hákonarson, forstöðumann eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, þar sem hann gerði málefni eins fyrirtækis að umtalsefni og fjallaði um það með niðrandi hætti. Ef þessi málsmeðferð er ný stefna af hálfu embættisins markar það þáttaskil í opinberri umræðu hér á landi.

Í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi var viðtal við Aðalstein Hákonarson, forstöðumann eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, þar sem hann gerði málefni eins fyrirtækis að umtalsefni og fjallaði um það með niðrandi hætti. Ef þessi málsmeðferð er ný stefna af hálfu embættisins markar það þáttaskil í opinberri umræðu hér á landi.

Tilefni viðtalsins var umfjöllun um ákvæði í stjórnarfrumvarpi um tekjuöflun ríkisins þar sem lagt er til að við samruna félaga falli niður réttur sameinaðs félags til að telja vexti af lánum, sem eitt af hinum sameinuðu félögum hefur tekið til fjármögnunar kaupa á hlutum í öðru félagi, til frádráttarbærra vaxtagjalda. Af viðtalinu mátti skila að ef ákvæðið yrði að lögum hefði það áhrif sex ár aftur í tímann. Slík afturvirkni laga fær augljóslega ekki staðist. Hins vegar liggur fyrir ágreiningur um túlkun gildandi laga og hefur hann ekki verið útkljáður fyrir yfirskattanefnd eða dómstólum.

Í viðtalinu ýjaði forstöðumaðurinn að ólöglegu athæfi fyrirtækisins og dró ályktanir um stöðu þess. Hann dró einnig í efa ástæður þess fyrir boðuðum aðhaldsaðgerðum sem er samdráttur í eftirspurn eftir framleiðslu- og söluvörum þess, m.a. af völdum vörugjalda og hækkunar á virðisaukaskatti.

Það getur ekki samræmst hlutverki opinbers embættismanns að fjalla um málefni einstakra fyrirtækja og varpa rýrð á þau. Samtök atvinnulífsins fordæma þessi vinnubrögð og treysta því að þau verði ekki endurtekin.

Samtök atvinnulífsins