Vinnumarkaður - 

10. september 2008

Öllum ber að kaupa slysatryggingu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Öllum ber að kaupa slysatryggingu

Samkvæmt kjarasamningum SA ber öllum atvinnurekendum að kaupa tryggingu til handa launþegum sínum er uppfyllir skilyrði kjarasamninga. Ef slíkt ferst fyrir af einhverjum ástæðum getur bótaskylda vegna vinnuslyss fallið á atvinnurekandann sjálfan. Ef um er að ræða slys sem veldur varanlegri örorku launþega getur verið um verulegar fjárhæðir að ræða sem lagst geta þungt á reksturinn.

Samkvæmt kjarasamningum SA ber öllum atvinnurekendum að kaupa tryggingu til handa launþegum sínum er uppfyllir skilyrði kjarasamninga. Ef slíkt ferst fyrir af einhverjum ástæðum getur bótaskylda vegna vinnuslyss fallið á atvinnurekandann sjálfan. Ef um er að ræða slys sem veldur varanlegri örorku launþega getur verið um verulegar fjárhæðir að ræða sem lagst geta þungt á reksturinn.

Í síðustu kjarasamningum var ákvæðum um slysatryggingu launþega breytt verulega. Fjárhæðir dánarbóta, dagpeningar og bætur vegna varanlegrar örorku voru hækkaðar verulega og þær verðtryggðar miðað við greiðsludag bóta svo og að gildissvið trygginganna var nokkuð víkkað út. Þannig á trygging að gilda nú á ferðum starfsmanns bæði innan- og utanlands á vegum vinnuveitanda og á það einnig við um starfsmannaferðir sem farnar eru utan hefðbundins vinnutíma.

Tilkynning vinnuslysa

Samtök atvinnulífsins vilja um leið minna atvinnurekendur á hversu mikilvægt það er að tilkynna um öll vinnuslys án tafar til Vinnueftirlits ríkisins. Ef líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings frá því að slys varð svo vettvangsrannsókn geti farið fram. Auk þess skulu slysin tilkynnt Vinnueftirlitinu skriflega innan viku á sérstöku eyðublaði sem Vinnueftirlitið gefur út og hægt er að nálgast á vef Samtaka atvinnulífsins. Vanræksla tilkynningar getur haft í för með sér refsiábyrgð í formi sektar svo og sönnunarörðugleika í hugsanlegu skaðabótamáli en sönnunarbyrði um ástæður og atvik kringum vinnuslysið er í slíkum tilvikum gjarnan lögð á vinnuveitandann.

Endurkröfuréttur vinnuveitanda

Greiði atvinnurekandi starfsmanni sínum laun í forföllum vegna vinnuslyss getur atvinnurekandinn fengið greitt upp í þann kostnað með slysadagpeningum Tryggingastofnunar. Slysadagpeningar greiðast frá og með áttunda degi eftir að bótaskylt slys á sér stað. Þá á vinnuveitandi einnig rétt á dagpeningum á grundvelli slysatryggingar launþega á meðan starfsmaðurinn er á launaskrá fyrirtækisins. Dagpeningar eru greiddir frá og með fimmtu viku eftir að slys átti sér stað og þar til starfsmaður verður vinnufær eftir slysið eða þar til örorkumat hefur farið fram, þó ekki lengur en í 37 vikur. Ef vinnuslys verður rakið til sakar annars manns getur atvinnurekandi átt endurkröfurétt á tjónvald vegna þess fjártjóns sem hann hefur orðið fyrir. Það á einnig við um kröfur á hendur tryggingafélagi tjónvalds, t.d. ef starfsmaður verður fyrir tjóni vegna umferðarslyss.

Samtök atvinnulífsins