Olíureikningur hækkar um fimm milljarða

Verð á hráolíu er hærra en nokkru sinni fyrr í bandaríkjadollurum reiknað. Undanfarnar vikur hefur olíutunnan selst á um eða yfir 40 dollara en viðlíka verð hefur ekki sést frá því á árinu 1977. Á níunda og fyrra hluta tíunda áratugarins var meðalverð á olíutunnunni rúmir 20 dollarar, en síðan hefur olíuverð farið hækkandi. Olíuverð í dollurum á föstu verði er nú tæpum fimmtungi hærra en í byrjun síðasta áratugar þegar olíuverðshækkanir steyptu heimsbúskapnum í alvarlega lægð og rúmum fjórðungi hærra en á árinu 2000 þegar OPEC, samtök olíuútflytjenda ákváðu að draga verulega úr olíuframboði. Í fyrra var meðalverð á olíutunnunni um 30 dollarar og spár standa nú til þess að verðið haldist yfir 40 dollurum út árið og fari jafnvel yfir 50 dollara. Ástæður þessara verðhækkana nú eru fyrst og fremst raktar til aukinnar eftirspurnar, ekki síst frá Kína og Indlandi ásamt ótryggu ástandi í Miðausturlöndum.

Áhrif á verðlag og hagvöxt
Fyrr á árinu var útlit í alþjóðaefnahagsmálum bjartara en um árabil en nú hefur hækkun olíuverðs dregið úr henni aftur og magnað upp ótta við vaxandi verðbólgu. 

Hvað er olíureikningur Íslendinga hár?
Þrátt fyrir að innlendir orkugjafar gegni veigamiklu hlutverki í íslenskum þjóðarbúskap er hann nokkuð næmur fyrir breytingum á verði olíu. T.a.m. fluttu Íslendingar inn eldsneyti og olíur fyrir rúma 15,4 milljarða króna í fyrra en vegna gengishækkunar krónunnar hækkaði innflutningsverð óverulega, þrátt fyrir hækkun olíuverðs á heimsmarkaði vegna gengishækkunar krónunnar.


Haldist olíuverð óbreytt út árið má búast við að olíureikningurinn hækki um allt að þriðjung frá síðasta ári eða um fimm milljarða króna. Slíkar verðshækkanir hafa veruleg áhrif á atvinnulífið, ekki síst á rekstur sjávarútvegsfyrirtækja sem að undanförnu hafa glímt við lágt fiskverð og hátt gengi krónunnar. Olíukostnaður er stór rekstrarliður hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en hlutfall fiskiskipa í heildarolíunotkun Íslendinga hefur verið rúmlega 40% undanfarin ár. Kaup Íslendinga á gasolíu, sem að stærstum hluta er notuð á fiskiskipum, námu tæpum 8 milljörðum króna á síðasta ári og svartolíu um 900 m.kr.  Kaup á þotueldsneyti nam 2,4 milljörðum króna en þá eru ótalin kaup erlendis.


Áhrif á viðskiptakjör
Verðbreytingar á erlendum mörkuðum hafa þannig áhrif bæði á innflutnings- og útflutningshlið íslensks þjóðarbúaskapar og leiða af sér sveiflur á viðskiptakjörum. Í fyrra versnuðu viðskiptakjör um rúmlega 4% milli ára sem stafaði fyrst og fremst af lækkun á verðlagi sjávarafurða, en meðalverð sjávarafurða í íslenskum krónum lækkaði um 9% milli áranna 2003 og 2002. Nú í mars var verðlag sjávarafurða tæplega 5% lægra en á sama tíma í fyrra. Gera má ráð fyrir að viðskiptakjörin  eigi eftir að versna verulega, verði olíuverð áfram hátt og verð á sjávarafurðum áfram lágt.

Vægi olíu í landsframleiðslu
Hins vegar er vert að hafa það í huga að olíuverðshækkanir hafa ekki eins mikil áhrif og áður fyrr. Í olíukreppunum tveimur á áttunda áratugnum þrefaldaðist hráolíuverð á heimsmarkaði og hafði sú hækkun víðtæk áhrif á efnahagslíf landsins, enda var verðmæti innfluttra olíuafurða á bilinu 4-6% af landsframleiðslu þess tíma.

Undanfarin tíu ár hefur þetta hlutfall verið í kringum 2% og var í fyrra 1,9%. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun var hlutfall olíu í frumorkunotkun Íslendinga um 55% á árinu 1974 en í fyrra var það rúmlega 25%. Olíuverðshækkanir hafa því ekki eins neikvæð áhrif á efnahagslífið í dag og áður fyrr m.a. vegna betri orkunýtingar, tilfærslu yfir í aðra orkugjafa og aukins vægis þjónustu í þjóðarbúskapnum.