Efnahagsmál - 

13. Maí 2004

Olíugjaldsfrumvarpi mótmælt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Olíugjaldsfrumvarpi mótmælt

Einhugur ríkir meðal þeirra sem reka atvinnubíla um að frumvarp um olíugjald og kílómetragjald o.fl. sé meingallað og feli í sér bæði aukna og flóknari skattheimtu sem ekkert tengist markmiðum frumvarpsins um að gera rekstur smærri dísilbifreiða hagkvæmari. Frumvarpið gerir ráð fyrir tvöföldu kerfi skattheimtu vegna ökutækja 10 tonn eða meira að heildarþyngd, olíugjaldi og svokölluðum þungaskatti. Algeng niðurstaða útreikninga er sú að skattheimtan muni hækka um 20-40% á einstök ökutæki verði frumvarpið óbreytt að lögum. Fjöldi samtaka í atvinnulífi leggur til að tekið verði upp olíugjaldskerfi fyrir minni ökutæki en að ökutæki 10 tonn og þyngri verði áfram í óbreyttu þungaskattskerfi. Önnur leið sem bent er á er að taka upp löggildingu ökumæla en komin er til sögunnar ný tækni á því sviði sem gerir litun olíu óþarfa. Fyrst og fremst mótmæla samtökin þó þeirri auknu og flóknari skattheimtu sem frumvarpið felur í sér, skattheimtu sem neytendur munu á endanum greiða.

Einhugur ríkir meðal þeirra sem reka atvinnubíla um að frumvarp um olíugjald og kílómetragjald o.fl. sé meingallað og feli í sér bæði aukna og flóknari skattheimtu sem ekkert tengist markmiðum frumvarpsins um að gera rekstur smærri dísilbifreiða hagkvæmari. Frumvarpið gerir ráð fyrir tvöföldu kerfi skattheimtu vegna ökutækja 10 tonn eða meira að heildarþyngd, olíugjaldi og svokölluðum þungaskatti. Algeng niðurstaða útreikninga er sú að skattheimtan muni hækka um 20-40% á einstök ökutæki verði frumvarpið óbreytt að lögum. Fjöldi samtaka í atvinnulífi leggur til að tekið verði upp olíugjaldskerfi fyrir minni ökutæki en að ökutæki 10 tonn og þyngri verði áfram í óbreyttu þungaskattskerfi. Önnur leið sem bent er á er að taka upp löggildingu ökumæla en komin er til sögunnar ný tækni á því sviði sem gerir litun olíu óþarfa. Fyrst og fremst mótmæla samtökin þó þeirri auknu og flóknari skattheimtu sem frumvarpið felur í sér, skattheimtu sem neytendur munu á endanum greiða.

Blaðamannafundur

Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu boðuðu í dag til blaðamannafundar þar sem samtökin mótmæla frumvarpi til laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl., líkt og fram kemur hér að framan. Fulltrúar Olíudreifingar og Landssambands vörubifreiðastjóra mótmæltu frumvarpinu einnig á fundinum. Áður höfðu ofangreind samtök ásamt fleirum gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, sem ekki virðist eiga að taka tillit til við afgreiðslu þess.

Umsögn Olíudreifingar, Olíuverzlunar Íslands og Olíufélagsins

Olíudreifing metur kostnað vegna litunar gjaldfrjálsrar olíu, sem frumvarpið kveður á um, á um 220 - 230 milljónir króna á ári. Í sameiginlegri umsögn Olíudreifingar ehf., Olíuverzlunar Íslands hf. og Olíufélagsins ehf. er löggilding ökumæla í bifreiðum lögð til sem ódýrari leið til að ná fram markmiðum frumvarpsins.

Umsögn SA og fleiri samtaka í atvinnulífi

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og fleiri samtaka í atvinnulífi er framangreind leið sögð mjög áhugaverð. Verði sú leið ekki farin leggja samtökin til að frumvarpinu verði breytt á þann veg að núverandi þungaskattskerfi verði óbreytt fyrir bifreiðar 10 tonn og þyngri. Slíkar bifreiðar féllu þá undir ákvæði 4. gr. frumvarpsins og myndu nota litaða gjaldfrjálsa olíu. Léttari ökutæki en 10 tonn myndu hins vegar nota ólitaða olíu og greiða olíugjald. Samtökin taka hins vegar fram í umsögn sinni að þau skilja og virða þann vilja stjórnvalda að gera rekstur smærri dísilbifreiða hagkvæmari. Þau eru á hinn bóginn algerlega andvíg þeirri stefnu að taka upp tvöfalda gjaldtöku á bifreiðar með leyfilega heildarþyngd yfir 10 tonn.

Sjá frumvarp til laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Sjá umsögn SA og fleiri samtaka í atvinnulífi (pdf-skjal).

Sjá umsögn Olíudreifingar ehf., Olíuverzlunar Íslands hf. og Olíufélagsins ehf. (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins