Ólíkt hafast þeir að

Í Danmörku er þverpólitísk samstaða um að þeir sem stjórna landinu á hverjum tíma leggi sitt af mörkum til að gera landið aðeins betra en þegar þeir tóku við. Það er ekki gert með kollsteypum og kerfisbreytingum heldur markvissum umbótum og samstarfi ólíkra flokka og stjórnmálamanna.

Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, vék að þessu í ræðu sinni á Ársfundi atvinnulífsins í Danmörku sem fram fór í liðinni viku í Kaupmannahöfn. Á fundi hans með fjórum fyrrverandi forsætisráðherrum landsins í Marenborg í sumar kom skýrt í ljós að þrátt fyrir ólíkar pólitískar áherslur og aðstæður á hverjum tíma stefndu þessir leiðtogar þriggja mismunandi flokka í raun allir að sama markmiði. Að gera Danmörku að sífellt betra landi. Það er rauði þráðurinn í danskri pólitík.

Sá óstöðugleiki sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum er skaðlegur. 

Ólíkt hafast þeir að dönsku og íslensku stjórnmálamennirnir kynni einhver að segja. En leiðtogi sósíaldemókrata Mette Fredriksen þakkaði á sama fundi stjórnendum fyrirtækjanna fyrir hugkvæmni sína og framkvæmdagleði, verðmæta framleiðslu sem renndi styrkum stoðum undir norræna velferðarríkið Danmörku. Stöðugt starfsumhverfi og skýrar leikreglur væri það sem stjórnmálamenn gætu boðið atvinnulífinu, það væri stjórnenda fyrirtækjanna að grípa þau fjölmörgu tækifæri sem væru til staðar.

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu og tækifærin mörg ef rétt er á málum haldið.

Sá óstöðugleiki sem nú ríkir í íslenskum stjórnmálum er skaðlegur. Áætlanagerð fyrirtækja verður erfiðari og rekstarkostnaður hærri. Vextir verða einnig mun hærri en þeir þyrftu að vera. Fjárfestingar verða minni en ella og það sama á við um markaðssókn, vöruþróun og nýsköpun. Allir tapa á endanum, bæði fólk og fyrirtæki. Með öðrum orðum gætu lífskjör orðið enn betri en þau eru í dag með stöðugra stjórnarfari og meiri framsýni. Í dag ber mest á yfirlýsingum íslenskra stjórnmálamanna um hverjum þeir vilji ekki vinna með og hvað þeir vilji ekki gera fremur að þeir leggi fram uppbyggilegar lausnir til umræðu. Á þessu eru vitanlega undantekningar og vonandi munu málefnin ráða í kosningabaráttunni.

Það er tekið hægja á vexti íslenska hagkerfisins og eftir góð ár í kjölfar hrunsins 2008 eru blikur á lofti. Niðurstöður kjarasamninga í vetur munu til að mynda ráða miklu um lífskjör Íslendinga á næstu misserum. Svigrúm til mikilla launahækkana er ekki til staðar og ljóst að ekki verður gengið mikið lengra í hagræðingu innan margra fyrirtækja eftir miklar launahækkanir síðustu misserin. Að auki hefur styrking gengis krónunnar dregið úr samkeppnishæfni fyrirtækja sem afla gjaldeyris.

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu og tækifærin mörg ef rétt er á málum haldið. Til að standa undir 3% hagvexti á Íslandi þarf að tvöfalda útflutning á næstu tuttugu árum. Það er aukning um 1.000 milljarða króna til 2037. En hvar verður þessu útflutningur til? Í hvaða fyrirtækjum og hvaða atvinnugreinum? Það er þúsund milljarða spurningin sem stjórnmálamenn og atvinnulífið þurfa að svara í sameiningu. Auglýst er eftir framtíðarsýn og hugmyndum um hvernig hægt er að efla atvinnulífið og bæta lífskjör á Íslandi næstu tvo áratugina.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi.