Efnahagsmál - 

09. janúar 2007

Óheftri og órökstuddri skattheimtu mótmælt í umsögn til Alþingis

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óheftri og órökstuddri skattheimtu mótmælt í umsögn til Alþingis

Samtök atvinnulífsins hafa sent landbúnaðarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Samtök atvinnulífsins hafa sent landbúnaðarnefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Upplýsingar skortir um eftirlitsgjald

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa á undan förnum tveimur þingum sent Alþingi umsagnir um sams konar lagafrumvörp sem þá lágu fyrir Alþingi til breytinga á lögum nr. 96/1997. Vakin var athygli landbúnaðarnefndar á þeirri dapurlegu staðreynd að upplýsingar skortir um ráðstöfun núverandi eftirlitsgjalds, sem er lögbundið og er mismunandi hátt eftir búgreinum. Ársreikningar svokallaðs eftirlitssjóðs sem var í vörslu Landbúnaðarráðuneytisins frá árinu 2002 til 1. janúar 2006, liggja ekki enn fyrir þó eftir þeim hafi ítrekað verið leitað. Landbúnaðarráðuneytið og forveri Landbúnaðarstofnunar, þ.e. embætti yfirdýralæknis, hafa ekki svarað bréfum um raunkostnað við eftirlit við slátrun dýra og ráðstöfun fjármuna sjóðsins í rúm tvö ár. Af þessum sökum sáu SA og fyrirtækið Reykjagarður hf. sig knúin til að kæra stjórnsýslu landbúnaðarráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis þann 26. október 2006.

Vinnubrögðum ráðuneytis mótmælt

Í umsögn SA er vinnubröðum ráðuneytisins mótmælt en landbúnaðarráðuneytið hefur virt að vettugi allar óskir samtakanna um að ganga til samstarfs við hagsmunaaðila í atvinnugreininni. Það virðist ekki vilja semja nútímalega eftirlitslöggjöf, þar sem fyrirtækin bera megin ábyrgð á eftirlitinu og þar sem eftirlitið er falið sjálfstæðum einkareknum og faggiltum skoðunarstofum, sem fylgjast með því að reglum sé fylgt. Í stað þess leggur ráðuneytið nú fram í þriðja sinn lagafrumvarp án þess að neinar fjárhagslegar forsendur liggi fyrir um núverandi kostnað eða væntanlega gjaldtöku vegna eftirlits Landbúnaðarstofnunar.

Áfram er ætlunin að innheimta svokallað kílógjald af kjöti sláturdýra í stað þess að greiða fyrir raunveruleg unnin og nauðsynleg eftirlitsverkefni. Engin takmörk verða á þessari gjaldtöku á kjöti eins og nú er í lögum. Þá eru engar skýringar eða áætlanir sem liggja fyrir um það hverjar verða væntanlegar fjárhæðir í nýrri "gjaldskrá" eða hvert gjald verður á einstakar kjöttegundir. Því verður vart trúað að Alþingi framselji á þennan hátt skattlagningarvald til ráðherra og veiti honum sjálfdæmi um ákvörðun gjalds á einstakar kjöttegundir.

Sanngjarnt gjald fyrir nauðsynlegt eftirlit

Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að haft verði samráð við hagsmunaaðila svo sátt megi nást um málið. Ekki er lagst gegn því að greitt verði sanngjarnt gjald fyrir nauðsynlegt opinbert eftirlit. Samtökin vilja hins vegar koma í veg fyrir eftirlitslausa og ótakmarkaða gjaldtöku hins opinbera af atvinnufyrirtækjum undir því yfirskyni að um sé að ræða innheimtu á svokölluðum "raunkostnaði við eftirlit". Það stenst ekki að Landbúnaðarstofnun reki áfram beint eftirlit með atvinnurekstri án þess að nokkur tilraun sé gerð til að skilgreina umfang eftirlitsins, takmarka það eða veita því neitt aðhald. Enginn hvati er í frumvarpinu til hagræðingar og til að umbuna vel reknum fyrirtækjum fyrir öflugt innra eftirlit.  

Eindregin andstaða SA

Samtök atvinnulífsins lýsa því eindreginni andstöðu við frumvarpið og líta svo á að hér verði í raun um skattlagningu á fyrirtækin að ræða í formi kílógjalds á innvegið kjötmagn sláturleyfishafa. Fyrirhugaðar breytingar á lögunum fela í sér að heimilt verður að innheimta hjá atvinnufyrir­tækjum sem undir hana falla afar vítt skilgreindan kostnað Landbúnaðarstofnunar án þess að nokkur tilraun sé gerð til að leggja á hann bönd.

Sjá umsögn SA (PDF-skjal).

Samtök atvinnulífsins