Efnahagsmál - 

16. júlí 2003

Óhagkvæmt fyrirkomulag frítöku

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óhagkvæmt fyrirkomulag frítöku

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, ritar grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallar um þá röskun sem fylgir löngum sumarleyfistíma á Íslandi, fimmtudagsfrídaga o.fl. Hann hvetur til fækkunar skólaára og lengingar skólaársins, sem m.a. myndi stuðla að hagkvæmara fyrirkomulagi orlofstöku hérlendis. Greinina er að finna hér að neðan.

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, ritar grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallar um þá röskun sem fylgir löngum sumarleyfistíma á Íslandi, fimmtudagsfrídaga o.fl. Hann hvetur til fækkunar skólaára og lengingar skólaársins, sem m.a. myndi stuðla að hagkvæmara fyrirkomulagi orlofstöku hérlendis. Greinina er að finna hér að neðan.

Óhagkvæmt fyrirkomulag frítöku

Þegar þetta ritað er sumarleyfistíminn að ná hámarki. Ýmiss konar félagsstarf leggst niður, nefndir og ráð fresta fundum fram á haust og mörg fyrirtæki og stofnanir starfa á hálfum hraða eða þaðan af minna. Þetta er þekkt fyrirbæri í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við og ekkert nema gott um það að segja að fólk taki sér gott sumarfrí og mæti síðan endurnært til starfa á ný. Ísland hefur hins vegar þá sérstöðu að hér spannar þessi sumarleyfistími næstum því þrjá mánuði, í stað nokkurra vikna víðast hvar í Evrópu. Í stað þess að flestir fari í frí á svipuðum tíma eru Íslendingar gjarnan að taka daga hér og viku þar frá og með hvítasunnuhelgi og út ágústmánuð. Flestir taka svo kannski þrjár vikur samfleytt í síðari hluta júlí og fyrri hluta ágúst. Fyrir vikið er ýmis starfsemi á hálfum hraða eða minna samtals í næstum þrjá mánuði, sem nefna má sumarleyfistímann.

Síðastliðið vor átti sér stað töluverð umræða um svokallaða "fimmtudagsfrídaga" en þeir voru að þessu sinni fjórir á sjö vikna tímabili, þar sem 1. maí bar niður á fimmtudag. Hvers vegna sumardagurinn fyrsti þarf hins vegar alltaf að vera á fimmtudegi er engan veginn auðskilið og sama má í raun segja um uppstigningardag. Á dögunum könnuðu Samtök atvinnulífsins hug aðildarfyrirtækja til þess hvort tilfærsla einhverra þessara fimmtudagsfrídaga yfir á heppilegri tíma myndi stuðla að hagræði í rekstri. Mikill meirihluti svaraði því játandi, eða 82% þeirra sem afstöðu tóku.

Sundurslitnar vinnulotur
Staðan er því sú að eftir páskafrí, sem eru með lengra móti á Íslandi, koma nokkrar slitróttar vinnuvikur þar sem mikið er um frídaga, gjarnan á fimmtudögum. Að þeim tíma loknum tekur svo við þessi langi sumarleyfistími. Því má segja að á tímabilinu frá páskum og út ágústmánuð séu menn sífellt að byrja og stoppa, setja aftur í gang og gera hlé. Þetta er býsna langur tími þar sem röskun verður á starfsemi fyrirtækja og stofnana. Þessi röskun dregur úr viðskiptum, afköstum og framleiðslu og þar með úr lífskjörum landsmanna allra. Milli sumarleyfistímans og jóla eru hins vegar engir slíkir frídagar, þótt röskun verði oft á þeim tíma á högum foreldra, vinnustaða og barna vegna starfs- og námskeiðsdaga í skólum, að ógleymdum vetrarfríunum sem sumir skólar taka og komu til sögunnar án nokkurs samráðs við t.d. atvinnulífið í landinu.

Langt skólafrí
Annað séreinkenni íslensks samfélags eru þessi gríðarlega löngu sumarfrí í skólum. Þau eru augljósega ein helsta orsök þessa langa sumarleyfistíma, enda eiga margir foreldrar barna á grunnskólaaldri engin einföld úrræði á þessum tíma, önnur en að vera til skiptis í sumarfríi eða að annað foreldrið einfaldlega hverfi af vinnumarkaði. Reynslan kennir að oftar eru það mæðurnar sem hverfa af vinnumarkaði vegna þessa og þannig hefur þessi langi sumarleyfistími skólanna óbein áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, truflar framgöngu þeirra í starfi og þar með tekjumöguleika.

Fækkun skólaára
Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað bent á ýmsa kosti þess að fækka árum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi þannig að nemendur útskrifist t.d. með stúdentspróf átján ára en ekki tvítugir. Þannig yrði íslenskt menntakerfi sambærilegra menntakerfum bæði austan hafs og vestan, tími nemenda yrði betur nýttur og íslenska menntakerfið yrði allt samkeppnishæfara. Þjóðhagslegur ávinningur af slíkri breytingu hefur verið metinn á níunda milljarð króna fyrst í stað, m.a. í formi aukinna ævitekna nemendanna, sem síðan færi vaxandi (skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ fyrir Verslunarmannafélag Íslands, janúar 2002). Fyrir rúmu ári síðan kom það í ljós með könnun SA að hagsmunir atvinnulífsins af sumarvinnu skólafólks standa ekki í vegi þess að skólaárið sé lengt um einn mánuð eða svo, sé það gert fyrri hluta sumars.

Miklir möguleikar til hagræðingar
Ljóst er af ofangreindu að miklir möguleikar eru til staðar í því skyni að koma á hagkvæmara fyrirkomulagi frítöku hér á landi. Með því að lengja skólaárið (og fækka árunum) mætti stytta þennan langa sumarleyfistíma í t.d. sex vikur í júlí og ágúst. Á þeim tíma væri þá almennt gert ráð fyrir að ýmis þjónusta gæti verið á hálfum hraða eða jafnvel legið niðri að einhverju leyti, á svipuðum tíma og slík staða er uppi víða í viðskiptalöndunum, en í staðinn kæmu fleiri vikur þar sem öll starfsemi væri með eðlilegum hætti. Fimmtudagsfrídagana svokölluðu, a.m.k. sumardaginn fyrsta og uppstigningardag, mætti t.d. færa saman við sumarfrí eða tengja þá starfs- og námskeiðsdögum og vetrarfríum skólanna með einhverjum hætti (best væri þó að afnema þau síðastnefndu). Með samráði væri þannig hægt að koma á því fyrirkomulagi að þjóðfélagið væri einfaldlega undir það búið að tiltekna daga í t.d. nóvember væru vetrarlokanir í skólum og ýmis þjónusta því skert umrædda daga.

Með slíkum breytingum mætti ná fram aukinn framleiðslu, auknum afköstum og auknum viðskiptum, og þar með bættum lífskjörum landsmanna allra. Þar að auki myndu slíkar breytingar draga úr röskun fyrir foreldra og börn, auk fyrirtækja og stofnana, og styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði. Ljóst er að margir aðilar þyrftu að koma að slíkum breytingum, svo sem stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri hagsmunaaðilar. Fyrsta og mikilvægasta skrefið er hins vegar að fækka skólaárunum og stytta þetta langa sumarfrí skólanna og eru stjórnvöld hvött til að hefjast þegar handa við það verkefni.

Samtök atvinnulífsins