Fréttir - 

03. Maí 2017

Ófullnægjandi fjármálaáætlun ríkisins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ófullnægjandi fjármálaáætlun ríkisins

Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsögn sína um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018 - 2022. Samtökin telja að áætlaður 1,5% afgangur að jafnaði af rekstri ríkisins sé engan veginn fullnægjandi.

Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsögn sína um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018 - 2022. Samtökin telja að áætlaður 1,5% afgangur að jafnaði af rekstri ríkisins sé engan veginn fullnægjandi.

Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir kröftugum hagvexti allt tímabilið, sem nú þegar er orðið hið lengsta í  Íslandssögunni. Ekki má mikið út af bregða svo halli verði á rekstri ríkissjóðs.

Afgangur ónógur og aðhald of lítið
Ísland er háskattaland og skattbyrðin einna hæst meðal ríkja OECD. Ef   hagvaxtarforsendur breytast til hins verra mun reynast erfitt að mæta tekjutapi hins opinbera, sem því fylgir, með auknum sköttum. Sagan sýnir að útgjöld ríkissjóðs breytast mun hægar en tekjurnar.

Nauðsynlegt er að ríkið haldi aftur af útgjaldaaukningu við núverandi þenslu- og spennustig í hagkerfinu. Aðhalds er þörf til að unnt sé að tekast á við bakslag í hagkerfinu. Aukinn agi í fjármálastjórn stuðlar að lægra vaxtastigi og hefur áhrif á vaxtakostnað ríkissjóðs á næstu árum.

SA leggja áherslu á að skuldir verði greiddar hraðar niður en áform eru um hvort sem er með frekari eignasölu eða auknum afgangi á ríkisrekstri og spari með því marga milljarða króna í árlegum vaxtakostnaði.

Stefnumörkun óljós
Samtökin segja áætlunina skorta stefnumarkandi sýn til framtíðar um lykilatriði.

Þannig er ekki ljóst hvort fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti séu liður í að taka upp eitt samræmt skattþrep. SA telja ámælisvert að ekkert formlegt samráð hafi átt sér stað við samtök eða fyrirtæki í ferðaþjónustu um hækkun á virðisaukaskatti.

Að auki þurfi fyrirtækin rýmri tíma til að undirbúa breytingarnar. Breytingarnar fela í sér að ferðaþjónustan mun búa við einna hæsta skattbyrði litið til samkeppnislandanna. Fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar er mikilvæg forsenda þess að byggja upp öfluga atvinnugrein til framtíðar.


Kallað eftir auknum einkarekstri
Að mati SA er nauðsynlegt að nýta kosti einkareksturs til að auka skilvirkni og nýtingu á opinberu fé. Víða má nýta verkefnafjármögnun til uppbyggingar innviða. Það blasir við að tvöfalda Hvalfjarðargöng og halda áfram gjaldtöku til að standa undir henni. Unnt er að byggja Sundabraut, hraðbraut austur fyrir fjall og ljúka við Reykjanesbraut þar sem notendur greiða fyrir betri þjónustu, tímasparnað og aukið öryggi. Ríkið semur þá um verkefnið við þá sem taka að sér fjármögnun, byggingu, viðhald og rekstur. Einnig er lagt til að ríkið dragi úr áhættu við uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli og kalli einkaaðila til verka þar.

Greiða á skuldir og lækka tryggingagjald
Í umsögninni er minnt á loforð um að lækkun tryggingagjaldsins sem þurfi að koma til framkvæmda eigi síðar en í upphafi árs 2018.

SA leggja áherslu á að skuldir verði greiddar hraðar niður en áform eru um hvort sem er með frekari eignasölu eða auknum afgangi á ríkisrekstri og spari með því marga milljarða króna í árlegum vaxtakostnaði.

Umsögn SA um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 (PDF)

 

 

Samtök atvinnulífsins