Efnahagsmál - 

10. Ágúst 2009

Öflugur gjaldeyrisvarasjóður nauðsynlegur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Öflugur gjaldeyrisvarasjóður nauðsynlegur

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir nauðsynlegt fyrir Íslendinga að byggja upp öflugan gjaldeyrisvarasjóð. Án hans verði erlendir fjármagnsmarkaðir lokaðir fyrir Íslandi, jafnt fyrirtækjum sem hinu opinbera. Fréttastofa RÚV ræddi við Vilhjálm um málið.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir nauðsynlegt fyrir Íslendinga að byggja upp öflugan gjaldeyrisvarasjóð. Án hans verði erlendir fjármagnsmarkaðir lokaðir fyrir Íslandi, jafnt fyrirtækjum sem hinu opinbera. Fréttastofa RÚV ræddi við Vilhjálm um málið.

Í umfjöllun á vef RÚV 9. ágúst segir:

Fram hefur komið gagnrýni á þá áherslu sem stjórnvöld leggja á að afla lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum. Undanfarna daga hafa meðal annars Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskólann í Bandaríkjunum, og Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, gagnrýnt þetta. Þeir segja það ekki hafa tilgang að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð ef fyrirfram sé ákveðið að ekki megi eyða honum. Þar vísa þeir meðal annars til þess að stjórnvöld hafa sagt að ekki eigi að verja þessum fjármunum til reksturs ríkisins eða til að verja gengi krónunnar.

Þetta tengist umræðum um Icesave-samninginn en Alþingi ræðir nú ríkisábyrgð á skuldbindingum þess samnings og er haft á orði að lánafyrirgreiðsla, til uppbyggingar gjaldeyrisvarasjóðs, bíði þeirrar afgreiðslu þingsins.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og doktor í hagfræði er ekki sammála því að gjaldeyrisvarasjóður af þessu tagi sé óþarfur eða hafi ekki tilgang. "Menn þurfa að hafa gjaldeyrisvarasjóð til að hafa uppá að hlaupa ef eitthvað mikið kemur fyrir þannig að það þurfi að grípa til þessara peninga. Hugtakið varasjóður er þannig að það er varasjóður, það er ekki til að nota nema í nauð."

Vilhjálmur segir þetta skipta mjög miklu máli til að efla traust á landinu, hækka lánshæfismatið og styrkja aðgang okkar að öðru lánsfé sem við séum þá að nýta. "Við þurfum að hafa opinn aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og vera hluti af þeim og það gerist ekki nema við séum með öflugan gjaldeyrisvarasjóð og við séum með gott lánshæfismat og við sjáum þess vegna eitthvert flæði af fjármagni koma inn og út úr landinu, en þá þurfum við að vera með góðan varasjóð."

Sjá nánar:

Umfjöllun á vef RÚV 9. ágúst 2009

Smellið hér til að hlusta á frétt RÚV

Samtök atvinnulífsins