18. ágúst 2025

Öflugt atvinnulíf, öflug samfélög

Jón Ólafur Halldórsson

1 MIN

Öflugt atvinnulíf, öflug samfélög

Það er óhætt að segja að síðustu mánuðir hafi einkennst af breytingum og óvissu sem hefur lagst ofan á það ástand sem hefur ríkt í heimsmálunum vegna stríðsátaka í Úkraínu, fyrir botni Miðjarðarhafs og á fleiri svæðum í heiminum. Það var alltaf vitað að endurkoma Donalds Trump í forsetastól í Bandaríkjunum yrði ekki hljóðlát. Ekki bjuggust þó allir við tollastríðinu sem nú stendur yfir. Það er ekki síst óvissan sem fylgir óljósum yfirlýsingum sem hefur haft slæm áhrif á viðskipti milli landa. Sú niðurstaða að Ísland falli í flokk ríkja sem fá á sig 15% toll en ekki 10% eins og áður var boðað er alvarleg fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Nú ríður á að hagsmunagæsla stjórnvalda sýni hvað í henni býr. Það er þó ekki aðeins við Bandaríkin að etja þegar kemur að tollamálum. Það er óvænt og óforsvaranlegt að Evrópusambandið ætli sér að skella á verndartollum gagnvart Íslandi og Noregi og virði þannig samninginn um evrópska efnahagssvæðið að vettugi. Nú er mikilvægt að stjórnvöld standi í lappirnar.

Nauðsyn fyrirsjáanleika

Nýrri ríkisstjórn fylgja nýir straumar, ekki síst þegar um hrein stjórnarskipti er að ræða. Samtök atvinnulífsins fagna áformum ríkisstjórnar Íslands um mótun atvinnustefnu og ég vænti þess að hún verði mótuð í nánu samstarfi við atvinnulífið. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa þannig umgjörð að atvinnulífið búi við fyrirsjáanleika og langtímastefnu. Við fundum vel fyrir því ákalli á Hringferð SA sem farin var í júní síðastliðnum. Í þessu sambandi er vert að minna á að atvinnulífið er undirstaða allrar velferðar og undirstaða lífsgæða á Íslandi.

Fyrirtæki og fjölskyldur eru hornsteinar

Okkur hættir stundum til að falla í einfalda og óholla tvíhyggju þegar við hugsum um samfélagið okkar. Hluti af því er að við horfum á almenning og atvinnulíf sem andstæður þótt við séum flest, á einn eða annan hátt, þátttakendur í atvinnulífinu sem starfsfólk, stjórnendur, eigendur eða viðskiptavinir. Og öll njótum við góðs af öflugu atvinnulífi.

Fyrirtæki og fjölskyldur eru hornsteinar samfélaga. Þetta sést best á smærri samfélögum um allt land. Einstaka svæði hafa fengið þann stimpil að vera brothættar byggðir eftir að hafa komist á þann stað að fáir hafa haft trú á framtíðarmöguleikum á þeim. Við höfum á síðustu árum séð ótrúlegan viðsnúning í sumum þessara byggða. Ástæðan fyrir þessum viðsnúningi er að fólk hefur séð ný tækifæri til að nýta sérstöðu svæðanna. Það hafa verið stofnuð fyrirtæki eða fyrirtæki hafa byggt upp starfsemi á svæðunum, starfsemi sem skapar verðmæti, býr til störf. Þannig hefur fólki, eftir áratugalangt skeið brottflutninga, fjölgað að nýju. Þessa jákvæðu þróun sjáum við í kringum ferðaþjónustuna, fiskeldið, sjávarútveg og fleiri greinar. Ef það er atvinna, ef það eru tækifæri til verðmætasköpunar, þá blómstra samfélög. Því er mikilvægt að stjórnvöld hafi það í huga við mótun nýrrar atvinnustefnu að fólkið, fyrirtækin og samfélögin eru það afl sem býr til ný tækifæri sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar.

Framsýni aðila vinnumarkaðarins

Þegar horft er yfir alþjóðlega sviðið þá eru mörg ríki að berjast við breytta aldursdreifingu, við erum að eldast og það er vel en öldrun þjóða hefur það í för með sér að hlutfall vinnandi lækkar. Það felur það í sér að færri vinnandi hendur standa undir samneyslunni og útgjöld til heilbrigðismála aukast. Þessi þróun er fyrirséð hér á landi þótt hún sé ekki komin jafn langt og í öðrum ríkjum. Það sem mun hjálpa okkur í framtíðinni er að við höfðum framsýni og hugrekki til að byggja upp einstakt lífeyriskerfi sem er eitt það besta í heimi samkvæmt flestum mælikvörðum. Og þegar ég segi við þá meina ég aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launafólk, því um lífeyrissjóðakerfið var samið í kjarasamningum árið 1969. Það varð ekki til fyrir tilstuðlan ríkisins. Sama má segja um fleiri grundvallaratriði íslensks velferðarkerfis, líkt og fæðingarorlof, sjúkrasjóði, starfsendurhæfingu, fræðslusjóði og margt, margt fleira.

Það eru hagsmunir atvinnulífsins að lífskjör á Íslandi séu góð, ekki aðeins lífskjör eigenda fyrirtækjanna, heldur alls almennings. Á sama hátt eru það hagsmunir almennings að þannig sé búið að fyrirtækjunum að þau skapi verðmæti, blómstri.

Öflugt atvinnulíf er grunnur að blómlegum samfélögum um allt land, grunnur að lífsgæðum Íslendinga.

Samhengi verðmætasköpunar og lífsgæða almennings

Síðustu árin, mögulega áratugina, virðist tilfinning margra fyrir samhengi verðmætasköpunar og kaupmáttar almennings hafa dofnað. Það sést ekki síst í þeim ótrúlega hægagangi og skorti á framtíðarsýn í orkumálum. Ég vil ganga svo langt að tala um einfeldningshátt þegar einstaka hagsmunaöfl fullyrða að ekki þurfi að virkja meira, heldur þurfi atvinnulífið að aðlaga sig að breyttu umhverfi. Það er augljóst að framtíðarsýn þessara afla felur í sér veikara atvinnulíf og lakari lífskjör almennings. Orka er undirstaða hagsældar, maður skapar engin verðmæti án orku og það er því gott að sjá nýjan kúrs í orkumálum hjá nýrri ríkisstjórn.

Sársaukafullum aðgerðum velt yfir á atvinnulífið

Tvöföldun veiðigjalda sýndi að atvinnulífið þarf að stíga fastar til jarðar þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir fyrirtækin í landinu. Aukin skattheimta á fyrirtækin í landinu bitnar á endanum á almenningi á einn eða annan hátt. Það hvernig ríkisstjórnin gekk fram gegn einni af burðargrein íslensks atvinnulífs er ekki til eftirbreytni og margt í þeirri umræðu markaðist af skilningsleysi á rekstri fyrirtækja. „Skammtímagróði“ ríkisins sem felst í tvöföldun veiðigjalda kemur einfaldlega niður á fyrirtækjunum sjálfum, starfsfólki og nærsamfélögum fyrirtækjanna.

Á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar óskaði hún eftir tillögum um hagræðingu í rekstri hins opinbera. Fjöldamargar tillögur bárust og þar á meðal ítarlegar tillögur Samtaka atvinnulífsins. Því miður virðist hugur ekki hafa fylgt máli þegar ríkisstjórnin talaði um að ná tökum á útgjöldum ríkisins. Þess í stað virðist hún ætla að feta í fótspor alltof margra fyrri ríkisstjórna sem þora ekki í sársaukafullar aðgerðir til að bæta afkomu ríkissjóðs en velta verkefninu á fyrirtækin með auknum álögum sem þurfa að bregðast við með hagræðingu í rekstri sínum.

Stjórnvöld virðast hafa misst sjónar á stærsta hagsmunamálinu

Hallarekstur ríkissjóðs er áskorun sem á sinn þátt í þeirri verðbólgu sem við höfum lifað við síðustu misserin. Á sama tíma og gerðir voru tímamóta kjarasamningar á almennum vinnumarkaði til að halda aftur af verðbólgu ákvað ríkisstjórnin að eitt skyldi ekki yfir alla ganga, gerði samninga við eina starfsstétt sem var í hróplegu ósamræmi við þá ábyrgð sem sýnd var í stöðugleikasamningnum og beit síðan höfuðið af skömminni með því að taka sjálf ríflega helmingi hærri launahækkun en aðrir höfðu samið um. Það að stjórnvöld virðist hafa misst sjónar af því sem er augljóslega stærsta hagsmunamál atvinnulífs og almennings, minnkun verðbólgu og lækkun vaxta, er verulegt áhyggjuefni.

Íslenskt atvinnulíf er eins og íslenskt samfélag, kraftmikið og lifandi. Samtök atvinnulífsins standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna, af ábyrgð, af festu og með skynsemi að leiðarljósi. Öflugt atvinnulíf er grunnur að blómlegum samfélögum um allt land, grunnur að lífsgæðum Íslendinga. Velgengni fyrirtækjanna er velgengni þjóðarinnar.

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 16. ágúst.

Jón Ólafur Halldórsson

Formaður Samtaka atvinnulífsins