Öflugt atvinnulíf forsenda aukins kaupmáttar
Þróun launa og kaupmáttar byggist vexti og viðgangi atvinnulífsins.Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, m.a. á Íslenska þekkingardeginum sem fram fór í síðustu viku en Félag viðskipta- og hagfræðinga stóð að deginum í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. Leitað var svara um áhrif mögulegrar aðildar Evrópusambandsins á vinnumarkaðinn og atvinnulíf á Íslandi. Vilhjálmur birti m.a. yfirlit yfir þróun hagvaxtar og kaupmáttar á Íslandi og í nágrannalöndunum en mesta kaupmáttaraukningin á Íslandi frá 1990 varð á árunum 1996-2000 að undangengnum miklum kerfisbreytingum.
Á töflunni hér að neðan má sjá þróun kaupmáttar á Íslandi og hagvöxt frá 1990 en sveiflur á tímabilinu hafa verið miklar. Spár gera ráð fyrir hógværum hagvexti til ársins 2015 en hvernig kaupmáttur mun þróast næstu misserin ræðst m.a. af niðurstöðu kjaraviðræðna sem nú standa yfir og aðstæðum í atvinnulífinu.
Hér getur síðan að líta sambærilegar tölur frá nágrannalöndum okkar síðastliðin áratug en sveiflur þar hafa verið miklu minni en hér.
Varðandi ESB og vinnumarkaðinn benti Vilhjálmur á að Ísland hafi nú þegar innleitt stóran hluta af regluverki ESB varðandi vinnumarkaðinn vegna EES-samningsins og lítil breyting yrði á þessu sviði þó Ísland gangi í ESB. Það sé þó mikilvægt að halda í sveigjanleika íslenska vinnumarkaðarins.
Vilhjálmur sagði aðila vinnumarkaðarins hafa sterka stöðu á Íslandi og hér hafi viðfangsefni verið leyst með kjarasamningum fremur en löggjöf en þó sé það ákveðið sérkenni hér á landi hvað litlum hópum eru veitt mikil völd, sérstaklega þegar kemur að því að boða verkföll.

Mikil umræða átti sér stað á þekkingardeginum um framtíð íslensku krónunnar og sýndist sitt hverjum en Vilhjálmur sagði meginspurninguna vera hvort evran skapi betri starfsskilyrði fyrir íslenskt atvinnulíf með lægri verðbólgu og meiri meiri aga eða hvort agaleysið flytjist aðeins í annan farveg? Vilhjálmur sagði upptöku evru ekki leysa sjálfkrafa nein vandamál því á endanum sé það góð hagstjórn sem skipti meginmáli. Í umræðu um kosti og galla upptöku evru verði menn að velta fyrir sér göllum lélegrar hagstjórnar með krónu og evru á móti góðri hagstjórn með krónu og evru. Vilhjálmur sagði upptöku evru á Íslandi með góðri hagstjórn skapa vissulega tækifæri en vöxtur og viðgangur atvinnulífsins fari eftir starfsskilyrðum hans á mörgum sviðum. Þróun kaupmáttar og launa ráðist af árangri atvinnulífsins og því sé framtíðin í okkar höndum.
Varðandi mögulega innöngu Íslands í ESB sagði Vilhjálmur evruna skipta mestu máli fyrir Ísland en saga íslensku krónunnar sem gjaldmiðils til þessa væri ekki uppörvandi. Áður en kæmi til upptöku evru þyrfti krónan þó að ná jafnvægi. Vilhjálmur sagði jafnframt að taki landsmenn þá ákvörðun að ganga í ESB hljóti eitt af stærstu viðfangsefnunum að felast í að Seðlabanki Evrópu hjálpi Íslandi að komast út úr krónunni og yfir í evru.

Fjölmargir fyrirlesarar fjölluðu á þekkingardeginum um
líkleg áhrif aðildar á kaupmátt, launaþróun og gerð kjarasamninga
ásamt því að taka þátt í umræðum um Ísland og ESB.
M.a. Björgólfur Jóhannsson,
forstjóri Icelandair Group, Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur
ASÍ, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka
álframleiðenda, María Bragadóttir, fjármálastjóri Iceland
Healthcare, Hanna Katrín Friðriksson, hjá viðskiptaþróun
Icepharma, Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Frosti
Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og Loftur Árnason,
stjórnarformaður Ístaks.
Sjá nánar: