Fréttir - 

02. desember 2015

Ofalin stofnun vill meira fé

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ofalin stofnun vill meira fé

Í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 lögðu Samtök atvinnulífsins til að atvinnutryggingagjald yrði hækkað til að standa undir fyrirsjáanlegu auknu atvinnuleysi. Samtökin viðurkenndu þannig ábyrgð atvinnulífsins við að standa undir kostnaði við greiðslu atvinnuleysisbóta. Á sama hátt krefjast samtökin þess nú að gjaldið verði lækkað til samræmis við minnkandi atvinnuleysi.

Í kjölfar efnahagsáfallsins 2008 lögðu Samtök atvinnulífsins til að atvinnutryggingagjald yrði hækkað til að standa undir fyrirsjáanlegu auknu atvinnuleysi. Samtökin viðurkenndu þannig ábyrgð atvinnulífsins við að standa undir kostnaði við greiðslu atvinnuleysisbóta. Á sama hátt krefjast samtökin þess nú að gjaldið verði lækkað til samræmis við minnkandi atvinnuleysi.

Tryggingagjaldið er nú miklu hærra en það þyrfti að vera til að fjármagna bætur til þeirra sem nú eru atvinnulausir eða verða það á næstu árum. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs verði rúmir 11 milljarðar um áramótin. Forstjóri Vinnumálastofnunar lýsir því þar yfir að honum finnist nauðsynlegt að atvinnulífið greiði áfram hærra gjald en þarf til að fjármagna bæturnar. Í raun er Atvinnuleysistryggingasjóður ekki sjálfstæður sjóður þar sem hann heyrir undir A-hluta ríkissjóðs og tekjur hans og gjöld þar með hluti ríkisfjármálanna.

Samtök atvinnulífsins telja hins vegar nauðsynlegt að lækka tryggingagjaldið sem allra fyrst. Hátt gjald kemur harðast niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem flest ný störf verða til. Fyrirtæki sem er með tíu starfsmenn í vinnu greiðir í raun laun þess ellefta sem fær ekki að koma í vinnuna.  Hátt tryggingagjald minnkar getu fyrirtækja til að hækka laun eða ráða fleiri í vinnu og takmarkar svigrúm fyrirtækja til að stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun.

Það er mikill misskilningur hjá forstjóra Vinnumálastofnunar að fjármunum atvinnulífsins sé betur komið undir hans stjórn. Það má sjá af því að þjónustutekjur stofnunarinnar hafa farið sívaxandi undanfarin ár og miklu meira en sem nemur verðbólgu. Stjórnunarkostnaður sem hlutfall iðgjalda til Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa vaxið stöðugt frá árinu 2009 og sama á við um hlutfall stjórnunarkostnaðar sem hlutfall af heildargreiðslu atvinnuleysisbóta.

Atvinnuleysistryggingar eru mikilvæg réttindi fólks á vinnumarkaði og eiga uppruna sinn í kjarasamningum. Oft hafa þessi réttindi verið umfjöllunarefni kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í SALEK samkomulaginu sem kynnt var fyrir nokkru var fjallað um rekstur Atvinnuleysistryggingasjóðs og þar segir:

„Í tengslum við þróun nýs samningalíkans þarf að nást sameiginlegur skilningur á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um eftirfarandi: Stöðu, stjórnun og fjármögnun lykilstofnana vinnumarkaðarins, þ.e. Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa og Fæðingarorlofssjóðs.“ Ætlunin er að sjóðirnir verði sjálfstæðir og ekki hluti af almennum rekstri ríkissjóðs.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á að aðilar á vinnumarkaði taki yfir stjórn og rekstur atvinnuleysistrygginga og telja að með því megi ná mun meiri skilvirkni, auknu eftirliti og betri þjónustu við atvinnuleitendur en með núverandi fyrirkomulag þar sem Vinnumálastofnun virðist mylja undir sig sífellt stærri hluta framlags atvinnurekenda til greiðslu atvinnuleysisbóta til eigin reksturs.

Samtök atvinnulífsins