Efnahagsmál - 

22. september 2009

Of snemmt að flauta kreppuna af

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Of snemmt að flauta kreppuna af

Aljóðasamtök atvinnurekenda (IOE), sem Samtök atvinnulífsins eiga aðild að, hafa sent leiðtogum G-20 ríkjanna opið bréf þar sem þeir eru hvattir til þess að bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Samtökin segja of snemmt að fagna lokum kreppunnar þó svo jákvæð teikn hafi sést á mörkuðum og vöxtur látið á sér kræla á ný. IOE segja aukin opinber útgjöld skýra þróunina en einkageirinn eigi enn í töluverðum vandræðum. Endurreisn efnahagslífsins byggi hins vegar á því að fyrirtækin nái sér á strik ekki útþenslu hins opinbera.

Aljóðasamtök atvinnurekenda (IOE), sem Samtök atvinnulífsins eiga aðild að, hafa sent leiðtogum G-20 ríkjanna opið bréf þar sem þeir eru hvattir til þess að bæta starfsumhverfi fyrirtækja. Samtökin segja of snemmt að fagna lokum kreppunnar þó svo jákvæð teikn hafi sést á mörkuðum og vöxtur látið á sér kræla á ný. IOE segja aukin opinber útgjöld skýra þróunina en einkageirinn eigi enn í töluverðum vandræðum. Endurreisn efnahagslífsins byggi hins vegar á því að fyrirtækin nái sér á strik ekki útþenslu hins opinbera.

Bréfið er skrifað vegna fundar G-20 ríkjanna sem fram fer í Pittsburgh í Bandaríkjunum 24.-25. september. Í bréfinu segja IOE að framtíðarhorfur í atvinnulífinu muni ráðast af þeim ákvörðunum sem leiðtogar öflugustu ríkja heims muni taka á næstunni og þær beri að vanda. IOE setja fram fimm áherslupunkta í bréfinu sem þau segja mikilvægt að leiðtogar ríkanna hugi vel að.

Alþjóðasamtök atvinnurekenda leggja áherslu á að ráðist verði í nauðsynlegar umbætur á fjármálamörkuðum þannig að tryggt verði að fyrirtæki í venjulegum rekstri fái aðgang að nauðsynlegri fjármálaþjónustu. IOE hvetja til þess að reglubyrði verði ekki aukin þó svo gripið verði til viðeigandi ráðstafana.

IOE hvetja jafnframt til þess að starfsumhverfi fyrirtækja verði bætt þannig að fólki verði gert auðveldara að stofna og reka fyrirtæki. Ekki megi draga úr athafnasemi með aukinni reglubyrði og hvetja verði til nýsköpunar með markvissum hætti.

Lítil og meðalstór fyrirtæki (SME's: Með 200 starfsmenn eða færri) verða að vera í forgrunni endurreisnar atvinnulífsins að mati IOE og telja samtökin að þau gegni lykilhlutverki. Við þær aðstæður sem nú ríki séu lítil og meðalstór fyrirtæki hins vegar sérstaklega viðkvæm og leita verði allra leiða til að tryggja þeim samkeppnishæft rekstrarumhverfi.

Alþjóðleg verslun hefur dregist verulega saman frá því kreppan skall á og vara IOE við því að haftastefna og einangrunarhyggja nái að grafa um sig. Endurreisn alþjóðlegs efnahagslífs sé háð því að milliríkjaverslun nái sér aftur á strik.

Síðast en ekki síst hvetja IOE til þess að sveigjanleiki á vinnumarkaði verði tryggður. Án hans verði leiðin til endurreisnar þyrnum stráð. IOE hvetja til þess að aðilar vinnumarkaðarins einbeiti sér að því að halda uppi atvinnustigi í stað þess að verja tiltekin störf.

Sjá nánar:

Bréf forseta IOE til leiðtoga G-20 ríkjanna 21. september 2009 (PDF)

Alþjóðasamtök atvinnurekenda (IOE) eru stærstu atvinnurekendasamtök heims og samanstanda af 148 samtökum atvinnurekenda víðs vegar um heiminn.

Samtök atvinnulífsins