Efnahagsmál - 

17. september 2002

Ódýr húsnæðislán, hærra húsnæðisverð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ódýr húsnæðislán, hærra húsnæðisverð

Íslensk heimili eru einhver þau skuldsettustu í heimi og um helmingur skuldanna eru húsnæðislán, sem m.a. má rekja til skuldhvetjandi húsnæðislánakerfis. Á sama tíma fer húsnæðisverð hækkandi, en vísitala neysluverðs án húsnæðis er sú sama nú og í janúar.

Íslensk heimili eru einhver þau skuldsettustu í heimi og um helmingur skuldanna eru húsnæðislán, sem m.a. má rekja til skuldhvetjandi húsnæðislánakerfis. Á sama tíma fer húsnæðisverð hækkandi, en vísitala neysluverðs án húsnæðis er sú sama nú og í janúar.

Í fréttabréfi SA í júní sl. var fjallað um hvernig ríkistryggð lán til húseigenda hafa aukist um rúm 50% frá 1995 (sjá frétt 6. júní sl.)  Sterk rök voru sögð hníga að því að útlán Íbúðalánasjóðs ættu mikinn þátt í þenslu undanfarinna ára, en auknar lánveitingar Íbúðalánasjóðs má rekja til þess að lánareglur hafa verið rýmkaðar og almenningur hefur óspart nýtt sér nýjar lánsheimildir. Auk lægri vaxta í skjóli ríkisábyrgðar koma svo vaxtabætur og því ljóst að húsnæðislánakerfið er mjög skuldhvetjandi kerfi. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans eru íslensk heimili einhver hin skuldsettustu í heimi, en skuldir þeirra námu um síðustu áramót 167% af ráðstöfunartekjum þeirra. Þar af eru húsnæðislán nú um helmingur.

Lágir vextir, hækkun vísitölu
Í síðustu viku kom ný mæling frá Hagstofunni  á vísitölu neysluverðs. Þar kemur í ljós að ef húsnæði er undanskilið er vísitalan nú sú sama og í janúar. Ætla má að tengsl séu þarna á milli, þ.e. milli stórlega niðurgreiddra vaxta á húsnæðislánum og mikillar raunverðshækkunar á húsnæði á undanförnum árum.

(smellið á myndina)

Samtök atvinnulífsins