Efnahagsmál - 

30. maí 2009

Óbreyttar launahækkanir ekki í myndinni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óbreyttar launahækkanir ekki í myndinni

SA og ASÍ funduðu í gær hjá ríkissáttasemjara ásamt samningsaðilum á opinberum vinnumarkaði. Til umræðu var tillaga SA um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA gerðum 17. febrúar 2008 og síðar. Um þessa tillögu hefur ekki náðst samkomulag en af hálfu SA var tekið skýrt fram að samningsbundnar hækkanir komi ekki til framkvæmda óbreyttar þann 1. júlí næstkomandi og 1. janúar 2010.

SA og ASÍ funduðu í gær hjá ríkissáttasemjara ásamt samningsaðilum á opinberum vinnumarkaði. Til umræðu var tillaga SA um breytingar á kjarasamningum milli aðildarfélaga ASÍ og SA gerðum 17. febrúar 2008 og síðar. Um þessa tillögu hefur ekki náðst samkomulag en af hálfu SA var tekið skýrt fram að samningsbundnar hækkanir komi ekki til framkvæmda óbreyttar þann 1. júlí næstkomandi og 1. janúar 2010.

Í Fréttablaðinu í dag segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, að atvinnurekendur geti og muni ekki mæta kröfu ASÍ um 13.500 króna hækkun 1. júlí. "Það liggur fyrir að við ráðum ekki við það. Það er ljóst að við erum á leiðinni á byrjunarreit." Hann segir að tilboði SA hafi verið ætlað að skapa sátt svo fólk og fyrirtæki geti horft til framtíðar af bjartsýni. "Það er ekki bara spurning um launin heldur efnahagsumgjörðina í heild sinni. Þetta snýst um að fyrirtækin þori að ráða fólk og fjárfesta," segir Vilhjálmur í Fréttablaðinu.

Í Morgunblaðinu í dag segir Vilhjálmur: "Við ætluðum að reyna, þrátt fyrir ástandið og þessa erfiðleika, að borga út þessar hækkanir. Ekki á þeim tímum sem um var samið en reyna að klára samninginn." Það hafi atvinnurekendur viljað gera í trausti þess að rekstrarumhverfið færi batnandi svo einhver glóra væri í því að hækka laun.

Í breytingartillögu SA felst að helmingur þeirra taxtahækkana sem áttu að koma til framkvæmda 1. mars síðastliðinn komi til framkvæmda 1. júlí og hinn helmingurinn 1. nóvember 2009. Launaþróunartrygging, 3,5%, komi til framkvæmda 1. nóvember. Þá felst í tillögunni frestun hækkana frá 1. janúar 2010 til 1. september 2010.

Aðildarfélög ASÍ munu fjalla um þá stöðu sem komin er upp eftir helgina. Ef ekki næst samkomulag um launaliðinn er SA heimilt að segja samningunum upp í júnímánuði og verða þá samningar lausir á almennum vinnumarkaði. Í fréttum RÚV í gær ítrekaði Vilhjálmur Egilsson að ekki komi til greina að hækka laun um 13.500 krónur 1. júlí.

Sjá nánar:

Horfa á frétt RÚV 29. maí 2009

Vefútgáfa Fréttablaðsins 30. maí 2009

Vefútgáfa Morgunblaðsins 30. maí 2009

Tillaga SA um breytingar á kjarasamningum lögð fram 20. maí

Samtök atvinnulífsins