Efnahagsmál - 

07. nóvember 2019

Nýr vaxtaveruleiki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýr vaxtaveruleiki

Fyrir örfáum árum töldu flestir ómögulegt að vextir gætu orðið neikvæðir. Í dag eru stýrivextir engu að síður neikvæðir á evrusvæðinu, í Danmörku, Svíþjóð, Sviss og í Japan og bendir ekki til annars en að svo verði áfram. Þó það sé ekki eftirsóknarvert að vera með neikvæða stýrivexti þá getur Seðlabankinn ekki horft framhjá þessari þróun vitandi hvaða áhrif það getur haft á fjármálastöðugleika ef vaxtastefnan hérlendis er á skjön við stefnu annarra ríkja.

Fyrir örfáum árum töldu flestir ómögulegt að vextir gætu orðið neikvæðir. Í dag eru stýrivextir engu að síður neikvæðir á evrusvæðinu, í Danmörku, Svíþjóð, Sviss og í Japan og bendir ekki til annars en að svo verði áfram. Þó það sé ekki eftirsóknarvert að vera með neikvæða stýrivexti þá getur Seðlabankinn ekki horft framhjá þessari þróun vitandi hvaða áhrif það getur haft á fjármálastöðugleika ef vaxtastefnan hérlendis er á skjön við stefnu annarra ríkja.

Stýrivextir eru í dag 3% og hafa lækkað á fimm síðustu vaxtaákvörðunarfundum. Illskiljanleg umræða hefur nú sprottið fram um að frekari lækkun stýrivaxta muni hafa lítil áhrif hér heima. Stýrivextir eru vissulega lágir í sögulegum samanburði en það segir þó ekkert um aðhald peningastefnunnar – það ræðst af verðbólguhorfum og öðrum stjórntækjum Seðlabankans. Væntingar skipa þungan sess í þessu samhengi. Þegar skýr væntingastjórnun er um frekari stýrivaxtalækkanir ætti að óbreyttu munur á skammtíma og langtímavöxtum að aukast. Skiptir það máli fyrir banka sem fjármagna sig til skamms tíma en lána til langs tíma. Stýrivaxtalækkanir Seðlabankans færa þá fjármagn úr áhættulausum innlánum í áhættusamari fjárfestingar, lækka útlánavexti og auka þar með svigrúm til neyslu og fjárfestinga svo dæmi sé tekið. Miðað við fallandi hagvöxt, aukið atvinnuleysi og lítinn verðbólguþrýsting þá er ekki ástæða til að ætla annað en að stýrivextir hér heima lækki áfram.

Með nýju hlutverki Seðlabankans á sviði fjármálastöðugleika bætast þó fleiri stjórntæki við. Kröfur um eiginfjárauka bankanna er eitt þeirra. Eiginfjáraukarnir eru settir til að auka viðnámsþrótt bankanna og tryggja að þeir geti staðist áföll. Kostnaðurinn er minni útlánageta og hærri útlánavextir en ella. Áformað er að hækka einn þessara eiginfjárauka í febrúar, en hann er nú þegar hár miðað við önnur iðnríki. Það skýtur skökku við í miðri niðursveiflu.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, 7. nóvember 2019

Samtök atvinnulífsins