Nýr taktur á mörgum vígstöðvum

Efnahagsþróun á Íslandi hefur verið einstaklega hagfelld undanfarin ár. Efnahagslífið hefur vaxið jafnt og þétt frá árinu 2010 og vöxtur síðasta árs var ævintýralegur, 7,4%. Þrátt fyrir mikla kaupmáttaraukningu og styrkingu krónunnar er enn mikill afgangur í viðskiptum við útlönd og landið að verða skuldlaust í útlöndum. Neysla heimilanna og framkvæmdir einka- og opinberra aðila hafa tekið hraustlega við sér og atvinnuleysi er hverfandi.

Um þessar mundir hægir á miklum hagvexti undanfarinna missera. Hagvaxtarspá Seðlabanka Íslands hefur nýverið verið lækkuð enda eðlilegt í ljósi kröftugrar uppsveiflu undanfarinna ára. Verkefnið framundan er að standa vörð um ávinninginn, þ.e. mikinn lífskjarabata landsmanna.

Skýringa lítillar verðbólgu er fremur að rekja til heppni en ráðvendni. 

Árangur ekki sjálfgefinn
Það er ekki sjálfgefið að þessari ákjósanlegu stöðu verði viðhaldið. Undanfarin ár hefur verið teflt djarft á vinnumarkaði. Þrátt fyrir miklar launahækkanir, langt umfram það sem gerist í nágrannaríkjum og eins umfram framleiðniaukningu, hefur verðbólga verið lítil og stöðug. Skýringa lítillar verðbólgu er fremur að rekja til heppni en ráðvendni. Ytri skilyrði hafa verið einkar hagstæð, einkum mikil styrking krónu og bætt viðskiptakjör, innkaupsverð erlendra neysluvara hefur lækkað og haldið aftur af verðbólgu. Það svigrúm er uppurið.  

Skattahækkanir eftirhrunsáranna hafa að mestu fengið að standa og skyldi því engan undra að ríkissjóður hafi bólgnað með vexti efnahagslífsins. 

Tekjuaukning hins opinbera
Hið opinbera hefur ekki farið varhluta af tekjuaukningu landsmanna. Skattahækkanir eftirhrunsáranna hafa að mestu fengið að standa og skyldi því engan undra að ríkissjóður hafi bólgnað með vexti efnahagslífsins. Hagstæðar aðstæður hafa þó ekki verið fullnýttar. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað mikið en því miður hafa ríkisútgjöld vaxið hratt á sama tíma. Útgjaldaloforðin í fjárlagafrumvarpi 2018 hvíla á því að uppsveiflan taki ekki enda. Núverandi uppsveifla, líkt og allar sem á undan, mun því miður taka enda. Það kemur alltaf að skuldadögum.

Fjárlagafrumvarp 2018 byggir á áframhaldandi aukningu ríkisútgjalda og óverulegum afgangi af rekstri ríkisins. Líkt og undanfarin ár má ekki mikið út af bregða svo rekstrarafgangur snúist í halla. Með hægari hagvexti verður ekki treyst á uppfærslu tekjuáætlana ríkissjóðs sem haldið hafa rekstri ríkissjóðs ofan við núllið undanfarin ár.

Laun á Íslandi eru nú í hæstu hæðum, bæði í alþjóðlegum og sögulegum samanburði.

Vísir menn þekkja sín takmörk. Lukka er ekki óþrjótandi auðlind og mikilvægasta verkefnið nú er að standa vörð um það sem áskotnast hefur. Það er vel að kaupmáttur Íslendinga á erlendri grundu sé í sögulegum hæðum en hin hliðin á þeim peningi er að Ísland er orðið mjög dýrt land, bæði fyrir ferðamenn og fyrirtæki. Nauðsynlegt er að Íslendingar skilji að velmegunin hvílir á samkeppnishæfni í samanburði við aðrar þjóðir. Íslendingar þekkja of vel þær miklu búsifjar sem fylgja því að fara of geyst fram í sókn til bættra lífskjara. Framúrkeyrslur á því sviði leiðréttast ávallt að lokum með gengisfalli, kaupmáttarlækkun og lífskjaraskerðingu. Slíkar leiðréttingar ættu að vera flestum í fersku minni. Það bil sem myndast hefur á síðustu árum milli framleiðniaukningar og launahækkana er áhyggjuefni og verði bakslag í efnahagslífinu er ómögulegt annað en að það bitni á lífskjörunum. Framleiðni, þ.e. góð og sífellt batnandi frammistaða í atvinnulífinu, er grunnurinn sem velmegunin hvílir á til lengri tíma.

Hagvöxtur undanfarinna ára hefur einkum verið knúinn áfram af útflutningsatvinnugreinunum. Slíkur hagvöxtur er heilbrigður, enda byggir hann á verðmætasköpun en ekki skuldsetningu eins og stundum áður. Samkeppnishæfni landsins er lykilatriði í áframhaldandi vegferð til bættra lífskjara. Laun á Íslandi eru nú í hæstu hæðum, bæði í alþjóðlegum og sögulegum samanburði, en augljós takmörk eru fyrir því hversu vel launaðir Íslendingar geta verið miðað við viðskiptaþjóðirnar. Áframhald mikilla launahækkana undanfarinna ára er ekki sjálfbær þróun því þá er treyst á jákvæða þróun ytri þátta sem Íslendingar hafa litla stjórn á. Treyst yrði á heppni og efnahagslegur stöðugleiki lagður að veði. Við munum öll tapa því veðmáli.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14.9. 2017