Nýr skattur bitnar á almennu lífeyrissjóðunum

Nýr skattur gæti orðið til þess að lífeyrir þeirra sem fá greitt úr almennum lífeyrissjóðum lækki. Ríkisábyrgð tryggir hinsvegar að skatturinn hefur engin áhrif á þá sem fá greitt úr opinberum sjóðum. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttastofu RÚV um áform ríkisstjórnarinnar að skattleggja lífeyrissjóðina til að fjármagna tímabundna vaxtaniðurgreiðslu. Áformin hafa verið gagnrýnd harðlega.

 "Þetta er skattlagning á eignir lífeyrissjóðanna, en í rauninni er þetta skattlagning á lífeyrisgreiðslurnar sjálfar og lífeyrisréttindin. Lífeyrissjóðirnir eru ekkert annað heldur en lífeyrisréttindi og væntanlegar lífeyrisgreiðslur," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

"Í lífeyrissjóðnum Gildi, til að mynda, þá eru þetta 2,5% af lífeyrisgreiðslunum."

Vilhjálmur segir að svo hár skattur geti þýtt að lífeyrissjóðirnir verði að bregðast við.

"Lífeyrissjóðirnir munu á sínum ársfundum næsta vor skoða hvernig eða með hvaða hætti lífeyrir verður skertur á grundvelli þessa skatts."

Vilhjálmur segir almennu og opinberu sjóðina ekki sitja við sama borð hvað skattheimtuna varðar.

"Þetta bitnar í raun eingöngu á almennu lífeyrissjóðunum vegna þess að opinberu lífeyrissjóðirnir eru allir með ábyrgð ríkisins eða launagreiðandans á bak við og þess vegna verða réttindin þar ekkert skert þó að það sé skattlagt. Það er bara spurning um það hvað ríkið þarf þá að setja inn í þá sjóði með einhverjum hætti."

Sjá nánar:

Horfa á frétt RÚV 10. desember 2011

Tengt efni:

Ný umsögn SA til Alþingis (12. desember 2011) um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Umsögn SA um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Í umsögninni segir m.a. um fjármögnun sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu:

Lífeyrissjóðum er ætlað að fjármagna 1,4 ma.kr. af vaxtaniðurgreiðslunni á árinu 2012. Þessi skattlagningaráform eru fyrirhuguð í fullkominni ósátt við lífeyrissjóðina og aðila almenna vinnumarkaðarins. Verði af þessari skattheimtu mun hún leiða til skerðingar á kjörum lífeyrisþega í almennum lífeyrissjóðum sem ekki njóta afkomutryggingar líkt og lífeyrisþegar í sjóðum hins opinbera. Slík skattlagning á lífeyrissjóðina er í ósamræmi við þá almennu stefnumörkun sem mótað hefur verið að samræma lífeyrisréttindi milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.