Vinnumarkaður - 

19. apríl 2011

Nýr kjarasamningur SA og verkalýðsfélaganna vegna Elkem

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýr kjarasamningur SA og verkalýðsfélaganna vegna Elkem

Í morgun var skrifað undir nýjan kjarasamning SA og fimm verkalýðsfélaga vegna Elkem. Samningurinn gildir til þriggja ára. Samtals geta laun starfsmanna hækkað um tæp 8% á þessu ári, að teknu tilliti til desember- og orlofsuppbóta, og um 14,7% á samningstímanum ef sami árangur næst í bónusmálum og síðustu ár. Í gær féll VLFA frá fyrri kröfum og lagði til að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára, með öðrum orðum lagði VLFA það til að atvinnuleiðin sem SA hafa unnið að yrði farin gagnvart VLFA, þ.e. stöðugleiki til þriggja ára yrði tryggður á félagssvæði þess.

Í morgun var skrifað undir nýjan kjarasamning SA og fimm verkalýðsfélaga vegna Elkem. Samningurinn gildir til þriggja ára. Samtals geta laun starfsmanna hækkað um tæp 8% á þessu ári, að teknu tilliti til desember- og orlofsuppbóta, og um 14,7% á samningstímanum ef sami árangur næst í bónusmálum og síðustu ár. Í gær féll VLFA frá fyrri kröfum og lagði til að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára, með öðrum orðum lagði VLFA það til að atvinnuleiðin sem SA hafa unnið að yrði farin gagnvart VLFA, þ.e. stöðugleiki til þriggja ára yrði tryggður á félagssvæði þess.

Vinnustaðarsamningur SA og fimm stéttarfélaga

Kjarasamningurinn sem gildir um störf félagsbundinna starfsmanna hjá Elkem Ísland ehf. er svonefndur vinnustaðarsamningur milli SA f.h. fyrirtækisins og fimm verkalýðsfélaga. Þetta er einn og sami samningurinn fyrir öll félögin og skv. vinnulöggjöfinni ber öllum félagsmönnum stéttarfélaganna fimm að greiða atkvæði um breytingar á kjarasamningnum í einum potti. Félögin fimm eru Verkalýðsfélag Akraness (VLFA), með 75% starfsmanna, VR, FIT, RSÍ og Stéttarfélag Vesturlands.

Kröfur VLFA og vísun til sáttasemjara

VLFA vísaði deilunni til ríkissáttasemjara í febrúar sl. en það gerðu hin félögin ekki. Viðræður fóru því fram þannig ríkissáttasemjari boðaði SA og VLFA til funda og samhliða því funduðu SA og hin félögin fjögur sérstaklega án atbeina sáttasemjara. Þann 16. febrúar boðaði ríkissáttasemjari til fyrsta fundar með SA og VLFA þar sem félagið krafðist samnings til nokkurra mánaða og 13,5% launahækkunar. Sama dag lögðu hin félögin fram sérkröfur sínar án þess að tiltaka samningstíma en kröfðust verulegra launahækkana.

Tillögur SA í febrúar 2011

SA/Elkem lögðu sama dag fram tillögu um að kjarasamningurinn breyttist í takt við þær launabreytingar sem um semdist í samningum milli heildarsamtakanna á vinnumarkaðnum, þ.e. í samræmi við sameiginlega launastefnu ASÍ og SA. Jafnframt var gerð tillaga um tilteknar breytingar á bónuskerfinu í fyrirtækinu. Bónuskerfið er tvíþætt, annars vegar er framleiðslutengdur bónus og hins vegar öryggis- og umgengnisbónus. Tillaga SA/Elkem fólst í því að hámark bónusanna samtals yrði hækkað um 5% gegn breytingum á þeim sem fyrirtækið mat að skilaði ávinningi sem réttlætti auknar launagreiðslur. Þessu tilboði um breytingar á bónusum hafnaði VLFA og lagði fram gagnkröfu á fundi þann 24. febrúar um óbreytt bónuskerfi en hækkun hámarksbónusa um 8%. Á fundi með ríkissáttasemjara þann 11. mars var ákveðið að fara betur yfir bónusmálin og skoða reynslutölur vegna þeirra nýju bónusþátta sem SA/Elkem höfðu gert tillögur um.

Sameiginleg launastefna ASÍ og SA

Í viðræðum um kjarasamninginn í Elkem hafnaði VLFA því allan tímann þeirri tillögu SA að launabreytingar yrðu þær sömu og í þeirri sameiginlegu launastefnu sem SA og ASÍ hafa unnið að síðustu mánuði. Upp úr miðri síðustu viku stefndi í gerð kjarasamninga til þriggja ára milli SA og aðildarsamtaka ASÍ. Fyrir lágu drög að kjarasamningi með tölum um launahækkanir sem þó voru ekki endanlega frágengnar. Svo fór að samkomulag tókst ekki um þriggja ára samninga vegna þess að ekki tókst að ná sátt um efni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við samningana og á föstudagskvöldið 15.4 tókst ekki heldur að ná samkomulagi um skammtímasamninga milli samtakanna.

VLFA óskar eftir því að atvinnuleiðin sé farin

Á fundi með ríkissáttasemjara þann 18. apríl féll VLFA frá fyrri kröfum og lagði til að gerður yrði kjarasamningur til þriggja ára með þeim breytingum sem lágu á borðinu í viðræðunum milli ASÍ og SA í síðustu viku og þeim breytingum á bónusum sem SA/Elkem höfðu lagt til í febrúar sl. Með öðrum orðum lagði VLFA það til að atvinnuleiðin sem SA hafa unnið að yrði farin gagnvart VLFA, þ.e. stöðugleiki til þriggja ára yrði tryggður á félagssvæði þess. Óskaði félagið eftir því að gengið yrði til undirritunar slíks samnings um morguninn þann 19. apríl og boðaði ríkissáttasemjari til þess fundar. Í framhaldinu var fundað með hinum stéttarfélögunum, farið yfir drög að kjarasamningnum og þau boðuð til fundar á sama tíma og VLFA þann 19. apríl.

Efni kjarasamningsins

Kjarasamningur sem gildir til 31. janúar 2014 var síðan undirritaður um morguninn þann 19. apríl. Í honum felast almennar launahækkanir sem eru 4,0% á þessu ári, 3,3% árið 2012 og 3,0% árið 2013. Auk þess eru gerðar þrjár breytingar á bónuskerfinu.

  • 1. Framleiðslutengdur bónusþáttur, svonefndur FSM-bónus að hámarki 1,5%, sem um var samið árið 2008 en virkaði ekki sem skyldi og hafði verið festur, var felldur inn í launatöfluna þannig að hún hækkaði um 5,5%.

  • 2. Kísiljárnbónusinn, sem var að hámarki 3,5% og miðaðist við 2 af 3 ofnum, er nú að hámarki 6% miðað við að framleidd séu 300 tonn á sólarhring í öllum þremur ofnunum. Fyrirtækinu er mikilvægt að engar truflanir eða stöðvanir verði á framleiðslu ofnanna og árverkni starfsmanna skilar fyrirtækinu ávinningi sem þeim er umbunað fyrir með bónusgreiðslum sem eru breytilegar eftir árangri.

  • 3. Öryggis- og umgengnisbónus var að hámarki 5% í fyrri samningi og byggði á þremur þáttum (tveir varða umgengni og byggja á skoðunarferðum á vettvangi, á þriðji er slysatíðni). Inn í bónusinn bætist fjórði þátturinn, "skráningar öryggisatvika eða aðstæðna í ÖHU-vef", sem gefur að hámarki 2,5%. Samtals geta þessir fjórir þættir nú skilað að hámarki 7,5%. Skráningar á ÖHU-vefinn eru fyrirtækinu mjög mikilvægar til að geta komið í veg fyrir slys, munatjón og önnur óhöpp.

Bónuskerfið er mjög virkt og með því er starfsmönnum umbunað fyrir þann árangur sem næst á þeim sviðum sem bónusarnir taka til. Bónushámarkið var áður samtals 10%. Miðað við 74% árangur skilaði hann 7,4% í launaauka á síðasta samningstímabili. Nú var samið um að hámarkið verði samtals 13,5% og m.v. 74% árangur gæti hann skilað 10,0%. Samtals geta laun starfsmanna hækkað um tæp 8% á þessu ári, að teknu tilliti til desember- og orlofsuppbóta, og um 14,7% á samningstímanum ef sami árangur næst í bónusmálum og síðustu ár. Þessu til viðbótar ákvað fyrirtækið að greiða starfsmönnum sérstaka eingreiðslu sem ekki er hluti kjarasamningsins. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að í árslok 2008, í kjölfar fjármálahrunsins hér á landi greiddu önnur stóriðjufyrirtæki en Elkem sambærilega eingreiðslur til starfsmanna sinna.

Samtök atvinnulífsins