Efnahagsmál - 

19. janúar 2011

Nýjar vegaframkvæmdir geta skapað hundruð starfa

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýjar vegaframkvæmdir geta skapað hundruð starfa

Nýjar arðbærar vegabætur munu bæta innviði landsins og skapa hundruð starfa. Þá auka framkvæmdirnar öryggi í umferðinni og spara þar með þjóðfélaginu stórfé á ári hverju. Umfangsmiklar vegaframkvæmdir eru eitt þeirra stóru og mikilvægu mála sem eru uppi á borðum samningsaðila í yfirstandandi kjaraviðræðum og kalla á aðkomu ríkisstjórnarinnar. Samtök atvinnulífsins leggja á það höfuðáherslu að stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu verði komið á skrið og í nýlegri aðgerðaáætlun ASÍ er lagt til að stórum framkvæmdum í samgöngumálum verði hrint í framkvæmd með stofnun félags í eigu ríkissjóðs sem taki lán hjá langtímafjárfestum til langs tíma.

Nýjar arðbærar vegabætur munu bæta innviði landsins og skapa hundruð starfa. Þá auka framkvæmdirnar öryggi í umferðinni og spara þar með þjóðfélaginu stórfé á ári hverju.  Umfangsmiklar vegaframkvæmdir eru eitt þeirra stóru og mikilvægu mála sem eru uppi á borðum samningsaðila í yfirstandandi kjaraviðræðum og kalla á aðkomu ríkisstjórnarinnar. Samtök atvinnulífsins leggja á það höfuðáherslu að stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu verði komið á skrið  og í nýlegri aðgerðaáætlun ASÍ er lagt til að stórum framkvæmdum í samgöngumálum verði hrint í framkvæmd með stofnun félags í eigu ríkissjóðs sem taki lán hjá langtímafjárfestum til langs tíma.

Í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar í desember sl. er fjallað um þessi mál  en þar segir að ríkissjóður muni bjóða út skuldabréfaflokk og afla þar með lánsfjár til að standa undir framkvæmdum næstu 5 ár fyrir andvirði allt að 40 milljörðum króna. Þungi framkvæmdanna verði á árunum 2012, 2013 og 2014, en á árinu 2011 er reiknað með framkvæmdum fyrir allt að 6 milljarða króna. Hin árin yrði upphæðin nær 10 milljörðum, en töluvert lægri árið 2015.

Alþingi hefur nú þegar veitt heimild til stofnunar hlutafélaga annars vegar um framkvæmdir á Suðvesturhorninu og hins vegar um Vaðlaheiðargöng. Ríkið mun veita báðum þessum félögum sérleyfi til framkvæmda og gjaldtöku. Í ljósi þessa er mikilvægt að hefja framkvæmdir sem allra fyrst eða undirbúning þeirra.

Ítarlega hefur verið fjallað vegaframkvæmdir í tengslum við gerð kjarasamninga á vinnumarkaði undanfarin misseri, t.d. í stöðugleikasáttmálanum sem skrifað var undir í júní 2009. Þar segir m.a. að með nýrri og sérstakri fjármögnun megi hrinda af stað arðbærum vegaframkvæmdum sem annars verði ekki að veruleika um fyrirsjáanlega framtíð. Þess vegna var það samþykkt af öllum aðilum að sáttmálanum að ríkisstjórnin skyldi leita eftir þátttöku ýmissa fjárfesta um tilteknar framkvæmdir. Allir helstu samningsaðilar á vinnumarkaði auk ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga áttu aðild að sáttmálanum.

Ljóst er að ríkissjóður mun ekki geta tekið á sig umtalsverð útgjöld til vegamála á næstu árum og ef ekki tekst að fjármagna þessar framkvæmdir þannig að notendur mannvirkjanna greiði fyrir notkunina verður ekki af þeim.  Til þess að af framkvæmdum verði þarf að skapa um þær víðtæka sátt sem nær til þeirra sveitarfélaga sem málin varða og fjalla um framtíðarskipan fjármögnunar á vegaframkvæmdum og að hvaða marki megi nýta notkunargjöld á vegum í þeim tilgangi.

Samtök atvinnulífsins