Efnahagsmál - 

26. febrúar 2008

Nýjar reglur ESB um virðisaukaskatt auðvelda þjónustuviðskipti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nýjar reglur ESB um virðisaukaskatt auðvelda þjónustuviðskipti

Fjármálaráðherrar ESB ríkja hafa samþykkt nýjar reglur um virðisaukaskatt við sölu á þjónustu milli aðildarlanda. Samkvæmt þeim verður virðisaukaskattur af flestum tegundum þjónustu innheimtur í því landi þar sem kaupandinn býr en ekki í staðfestulandi seljandans. Um leið er fyrirtækjum gert kleift að ljúka uppgjöri virðisaukaskatts vegna sölu til annarra ESB ríkja í heimalandi sínu. Markmið reglnanna er að minnka samkeppnisröskum milli landa vegna mishárra skatthlutfalla, draga úr reglubyrði á fyrirtæki og auðvelda þjónustuviðskipti milli ESB landa. Af reglunum leiðir að kaupendur á þjónustu í hverju ESB ríki greiða allir sama skatthlutfall óháð staðfesturíki seljandans. Reglurnar hafa mesta þýðingu fyrir þjónustu sem veita má úr fjarlægð og seld er yfir landamæri óháð staðsetningu, svo sem rafræna þjónustu, fjarskipti og fjölmiðlun.

Fjármálaráðherrar ESB ríkja hafa samþykkt nýjar reglur um virðisaukaskatt við sölu á þjónustu milli aðildarlanda. Samkvæmt þeim verður virðisaukaskattur af flestum tegundum þjónustu innheimtur í því landi þar sem kaupandinn býr en ekki í staðfestulandi seljandans. Um leið er fyrirtækjum gert kleift að ljúka uppgjöri virðisaukaskatts vegna sölu til annarra ESB ríkja í heimalandi sínu. Markmið reglnanna er að minnka samkeppnisröskum milli landa vegna mishárra skatthlutfalla, draga úr reglubyrði á fyrirtæki og auðvelda þjónustuviðskipti milli ESB landa. Af reglunum leiðir að kaupendur á þjónustu í hverju ESB ríki greiða allir sama skatthlutfall óháð staðfesturíki seljandans. Reglurnar hafa mesta þýðingu fyrir þjónustu sem veita má úr fjarlægð og seld er yfir landamæri óháð staðsetningu, svo sem rafræna þjónustu, fjarskipti og fjölmiðlun.

Áhrif á skatttekjur einstakra ríkja

Langan tíma hefur tekið að ná sátt um þessar reglur enda málið viðkvæmt þar sem það varðar skatttekjur og sjálfsforræði einstakra ríkja í skattamálum. Voru stjórnvöld í Lúxemborg lengst af mótfallin breytingunni af ótta við skertar skatttekjur. Að sama skapi hafa lönd með hærri skatta kvartað undan því að skatttekjur hafi rýrnað sökum flótta fyrirtækja til landa með lægst skatthlutföll. Helstu áhyggjur stjórnvalda í Lúxemborg vörðuðu skatttekjur vegna rafrænna þjónustufyrirtækja, svo sem Amazon.com, Skype og PayPal, sem öll hafa flutt aðsetur sitt til Lúxemborgar, en almennt skatthlutfall virðisaukaskatts þar er aðeins 15% eða það lægsta sem reglur ESB heimila.

Áhrif á fyrirtæki og neytendur

Samkvæmt nýju reglunum verður sala fyrirtækja á þjónustu til annarra fyrirtækja (business-to-business) framvegis skattlögð í heimalandi kaupandans en ekki seljandans eins og nú er. Reglur um sölu til neytenda (business-to-consumer) eru tvíþættar. Almenna reglan verður áfram sú að skattlagning fer fram í heimalandi seljandans. Til þess að hindra röskun á samkeppni vegna mismunandi skatthlutfalla skal skattlagning þó fara fram í heimalandi kaupandans vegna sölu á þessum sviðum: veitingar, leiga flutningatækja, þjónusta á sviði menningar, íþrótta, vísinda og mennta, fjarskiptaþjónusta, sjónvarpsþjónusta og rafræn þjónusta.

Dregið úr reglubyrði

Með reglunum er jafnframt reynt að einfalda uppgjör og skil á virðisaukaskatti og létta þar með reglubyrði af fyrirtækjum sem stunda viðskipti milli landa. Er þetta gert með því að heimila fyrirtækjum sem selja fjarskipta-, sjónvarps- og rafræna þjónustu til annarra landa innan ESB að ganga frá öllum skuldbindingum sínum á virðisaukaskatti í heimalandinu. Þá verður tekið upp rafrænt kerfi til að tryggja hraðvirkt uppgjör á endurgreiðslu virðisaukaskatts sem fyrirtæki greiða utan heimalands síns og þurfa ríki sem tefja slíkar endurgreiðslur að greiða vexti.

Innleiðing í áföngum

Nýju reglurnar taka almennt gildi í ársbyrjun 2010, en með hliðsjón af neikvæðum áhrifum þeirra á skatttekjur landa með lægst skatthlutföll var ákveðið að þær taki ekki gildi fyrr en í áföngum á árunum 2015-2019 varðandi sölu á fjarskipta-, sjónvarps- og rafrænni þjónustu. Frá árinu 2015 verður þeim löndum sem hafa skatttekjur af sölu fyrirtækja á slíkri þjónustu áfram heimilt að halda eftir 30% virðisaukaskatts af sölu slíkra fyrirtækja. Þessi heimild lækkar síðan í áföngum og fellur niður árið 2019, þegar allar skatttekjur falla til þess ríkis þar sem kaupandinn býr.

Frekari umbætur í skoðun hjá ESB

Ýmsar aðrar umbætur á virðisaukaskatti hafa verið til skoðunar hjá ESB án þess að niðurstaða liggi fyrir. Má þar sérstaklega nefna virðisaukaskatt á fjármálaþjónustu og tryggingar. Eins og hér á landi er slík þjónusta almennt undanþegin virðisaukaskatti í ESB löndum. Geta fyrirtækin því ekki nýtt sér innskatt við kaup á aðföngum til frádráttar. Margir líta svo á að þetta skerði alþjóðlega samkeppnishæfni evrópskra fjármála- og tryggingafyrirtækja og feli í sér dulda skattlagningu. Framkvæmdastjórn ESB hefur undirbúið tillögur um breytingar sem fela m.a. í sér að fjármálafyrirtækjum gefist kostur á svonefndri frjálsri skráningu og gefist þar með færi á að losna undan virðisaukaskatti á aðföngum. Niðurstaða um þessar tillögur liggur hins vegar ekki ennþá fyrir.

Engin bein áhrif hér á landi

Tekið skal fram að breytingar á reglum ESB um virðisaukaskatt hafa engin bein áhrif hér á landi, þar sem EES-samningurinn tekur almennt ekki til samræmingar í skattamálum. Reglurnar hafa hins vegar áhrif á fyrirtæki í eigu íslenskra aðila með starfsemi í aðildarríki ESB sem selja þjónustu til annarra aðildarríkja.

Fréttatilkynning ráðherraráðs ESB um nýjar reglur um virðisaukaskatt 

Samtök atvinnulífsins