Efnahagsmál - 

18. Júní 2009

Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ný útgáfa leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og NASDAQ OMX Iceland gáfu út í dag endurskoðaðar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Í þessari 3. útgáfu leiðbeininganna er sérstaklega horft til sambærilegra leiðbeininga frá öðrum löndum og forskriftar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Fleiri og ítarlegri ákvæði eru í nýju leiðbeiningunum og gerðar eru ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja en áður á nær öllum sviðum.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð Íslands og NASDAQ OMX Iceland gáfu út í dag endurskoðaðar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Í þessari 3. útgáfu leiðbeininganna er sérstaklega horft til sambærilegra leiðbeininga frá öðrum löndum og forskriftar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Fleiri og ítarlegri ákvæði eru í nýju leiðbeiningunum og gerðar eru ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja en áður á nær öllum sviðum.

Leiðbeiningarnar voru kynntar á blaðamannafundi í Háskólanum í Reykjavík í morgun. Þórður Friðjónsson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland og formaður starfshóps um stjórnarhætti fyrirtækja, kynnti útgáfuna og afhenti Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, fyrsta eintak þeirra.

Frá blaðamannafundi 18. júní í HR

Í kynningu sinni sagði Þórður að þörf væri á að bæta stjórnarhætti í íslensku viðskiptalífi og það væri markmiðið með útgáfu nýrra leiðbeininga. Jafnframt að hvetja til aukinnar upplýsingagjafar til viðskiptalífsins og opnari og öflugari samskipta á milli fyrirtækja, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila. "Leiðbeiningunum er þannig ætlað að vera þáttur í uppbyggingu trausts og gagnsæis í íslensku viðskiptalífi. Við köllum eftir víðtæku samstarfi við fyrirtæki, fjárfesta, fjölmiðla, menntastofnanir og rannsóknaraðila um fylgni við leiðbeiningarnar, en virk þátttaka allra  leggur grunninn að betri stjórnarháttum," sagði Þórður.

Í ávarpi sínu sagði Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, m.a. afar mikilvægt að samstaða myndist um að draga lærdóm af því sem miður fór. Að hans mati er íslenskt atvinnulíf á langri vegferð til bata og endurreisnar. Gylfi sagði leiðbeiningarnar geta verið fyrsta skrefið á þeirri vegferð og tilvist þeirra væri jafnframt mikilvæg í ljósi þess að ekki væri unnt að setja lög um alla hluti og álitamál.

Nýjar leiðbeiningar hafa víðtækara gildissvið en áður, þeim er ekki einungis beint að skráðum félögum heldur öllum félögum sem tengjast almannahagsmunum. Helstu nýjungar leiðbeininganna eru eftirfarandi:

 • Nýr kafli um hluthafafundi.

 • Hlutverk stjórnar skýrð og útfærð nánar.

 • Hnykkt er á mikilvægi samstarfs og markmiðasetningar.

 • Nýr kafli um innra eftirlit og áhættustýringu.

 • Nýr kafli um siðareglur og samfélagslega ábyrgð.

 • Nýr kafli um samskipti stjórnar við hluthafa.

 • Nýr kafli um stjórnarformann, helstu skyldur.

 • Nýr kafli um framkvæmdastjóra, helstu skyldur.

 • Kaflinn um endurskoðunarnefnd er færður til samræmis við nýlega lagasetningu.

 • Hlutverk starfskjaranefndar skýrt nánar og nýr kafli um grundvallaratriði starfskjarastefnu.

 • Nýr kafli um tilnefningarnefnd.

 • Upplýsingagjöf er bætt til muna, bæði til hluthafa og annarra hagsmunaaðila, í ársreikningum og á vefsíðu.

Fjöldi fyrirtækja hefur sýnt endurskoðuðum leiðbeiningum áhuga og telja mikilvægt að til staðar séu skýr tilmæli af þessu tagi. Meðal þeirra eru fjölbreytt fyrirtæki úr flestum atvinnugreinum, t.a.m. Lýsi, Össur, CCP, Alcoa, Auður Capital, Grandi, N1, Veritas, Icelandair Group, Mannvit, Ölgerðin og Marel. Eins og gefur að skilja er þessi listi fjarri því að vera tæmandi.

Til að auka líkur á markvissri eftirfylgni munu útgáfuaðilar fá til liðs við sig nýtt rannsóknarsetur um stjórnarhætti fyrirtækja sem mun framkvæma útttekt á innleiðingu leiðbeininganna.

Sjá nánar:

Leiðbeiningar um stjórnarhætti - 3. útgáfa (PDF)

Samtök atvinnulífsins