Efnahagsmál - 

12. apríl 2013

Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar: Lítill hagvöxtur og mikil verðbólga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ný þjóðhagsspá Hagstofunnar: Lítill hagvöxtur og mikil verðbólga

Ný þjóðhagsspá er ekki uppörvandi fyrir atvinnulífið og almenning í landinu. Fjárfestingar eru allt of litlar og hagvöxturinn gefur ekki tilefni til bætts hags atvinnulífs og heimila. Spár um launabreytingar, gengi og verðbólgu fela í sér að óstöðugleiki muni áfram einkenna efnahagsumhverfið. Brýnt er að koma í veg fyrir að þessar spár verði að veruleika. Þá er vandséð að spá Hagstofunnar um aukinn kaupmátt launa eigi sér efnahagslegar forsendur í þeirri lægð sem er og verður næstu misseri.

Ný þjóðhagsspá er ekki uppörvandi fyrir atvinnulífið og almenning í landinu. Fjárfestingar eru allt of litlar og hagvöxturinn gefur ekki tilefni til bætts hags atvinnulífs og heimila. Spár um launabreytingar, gengi og verðbólgu fela í sér að óstöðugleiki muni áfram einkenna efnahagsumhverfið. Brýnt er að koma í veg fyrir að þessar spár verði að veruleika. Þá er vandséð að spá Hagstofunnar um aukinn kaupmátt launa eigi sér efnahagslegar forsendur í þeirri lægð sem er og verður næstu misseri.

Hagstofan spáir nú 0,6% minni hagvexti en í síðustu spá stofnunarinnar í nóvember sl. Spáð er 1,9% hagvexti á þessu ári samanborið við spá um 2,5% vöxt síðast.  Þá er áætlað að hagvöxtur á árinu 2012 hafi verið 1,6% sem er 1,1% minna í fyrri spá. Meginskýringin á lækkun hagvaxtarspár þessa árs liggur í minni fjárfestingum atvinnuveganna. Minni fjárfestingar en áður var gert ráð fyrir og minni vöxtur einkaneyslu skýra áætlanir um minni hagvöxt árið 2012. Þá eru spár um útflutning lakari en í síðustu spá.

Hagvaxtarspáin fyrir árið 2014 lækkar einnig, úr 2,9% í 2,7%, en hún byggir annars vegar á mikilli aukningu atvinnuvegafjárfestinga, einkum í orkufrekum iðnaði, sem óvíst er að verði af á næstunni, og hins vegar talsverðri aukningu kaupmáttar launa sem spáð er að aukist um 1,5% á þessu og næsta ári.

Hagstofan spáir því að launahækkanir og verðbólga verði áfram margfalt meiri en í viðskiptalöndum okkar á þessu og næsta ári. Þannig er því spáð að laun hækki um 5,5-6,0% samanborið við 2,5% í viðskiptalöndunum og  að verðbólgan verði 4,2% á þessu ári og 3,4% á því næsta, samanborið við 1-2% alþjóðlega. Þá er því spáð að gengi krónunnar haldi áfram að veikjast á næstu árum.

Þjóðhagsspáin varpar skýru ljósi á að brýnasta viðfangsefni stjórnvalda er að örva og bæta skilyrði fyrir auknum fjárfestingum, einkum í útflutningsgreinunum. Að öðrum kosti verður engin verðmætaaukning sem getur stuðlað að bættum lífskjörum og fjölgun starfa. Ekki síður mikilvægt er afnám gjaldeyrishafta á næstu misserum sem er forsenda fyrir auknum fjárfestingum og að Ísland öðlist á ný traust erlendra fjárfesta.

Einnig er aukinn stöðugleiki gengis krónunnar og stöðugt verðlag mikilvæg forsenda fyrir aukinni samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og bættum lífskjörum á næstu árum. En það er meðal annars háð því að komandi kjarasamningar taki mið af verðmætasköpun samfélagsins og markmiðum um jöfnuð í rekstri hins opinbera.

Samtök atvinnulífsins