19. september 2024

Ný skýrsla SA: Tvöfalda þarf græna orkuframleiðslu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ný skýrsla SA: Tvöfalda þarf græna orkuframleiðslu

Samtök atvinnulífsins hafa gefið út skýrslu um stöðuna í orku- og loftslagsmálum í tengslum við Ársfund atvinnulífsins og sem veganesti fyrir komandi starfsár samtakanna sem helgað er grænum lausnum.

Ísland hefur sett sér markmið í loftslagsmálum og stefnir að kolefnishlutleysi. Tvöfalda þarf græna orkuframleiðslu á Íslandi til að þess að ljúka orkuskiptum að fullu. Bæði atvinnulífið og stjórnvöld hafa sett fram metnaðarfullar aðgerðaráætlanir til þess að ná þeim markmiðum. Þetta og fleira kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins í tengslum við Ársfund atvinnulífsins: Orka er undirstaða hagsældar.

Leiðarstefið á vegferðinni að kolefnishlutleysi þarf að vera að slíkar aðgerðir komi ekki niður á lífskjörum fólks og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Orka er undirstaða hagsældar – sterkt samhengi er á milli orkunotkunar þjóða og þeirra verðmæta sem þær skapa. Lífskjör á Íslandi eru góð og það endurspeglast í mikilli orkunotkun á Íslandi,” segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Á heimsvísu er orkunotkun langstærsti orsakavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda, hún skýrir hátt í þrjá fjórðu af allri losun. Þess vegna eru orkuskipti stærsta loftslagsverkefnið á heimsvísu.

„Ísland var á undan sinni samtíð að slíta í sundur sambandið á milli orkunotkunar og kolefnislosunar. Það er staðreynd sem við getum verið stolt af en hún gerir okkur jafnframt erfiðara fyrir að ná sama hlutfallslega árangri í samdrætti losunar og önnur lönd,“ segir Sigríður Margrét.

Gögnin sýni okkur að við þurfum að tvöfalda græna orkuframleiðslu á Íslandi til að þess að ljúka orkuskiptum að fullu.

„Það er því ánægjulegt að sjá orkuverkefni í Búrfellslundi og Hvammsvirkjun, Suðurnesjalínu og jarðhitaleitarátak en mikilvægt er að varðveita áfram samstöðu um græna orkuframleiðslu,“ segir hún.

Þrátt fyrir góðan vilja þá sýna gögnin að til þess að standast loftslagsmarkmið Íslands árið 2030 þá þarf íslenska þjóðin að margfalda hraða losunarsamdráttar.

„Með hliðsjón af tæknisþroska í lykilgeirum þá er markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040, sem fest hefur verið í lög, utan seilingar.“

Sigríður Margrét segir atvinnulífið hafa tvíþætt markmið; bætt lífsgæði samhliða árangri í loftslagsmálum.

„Við viljum fullnýta græna verðmætasköpun, í hvort tveggja nýsköpun og rótgrónum iðnaði, lágmarka kostnað, ígrunda réttar tímasetningar og hvata til fjárfestinga í grænni umbreytingu fyrir fólk og fyrirtæki.“

Hér má lesa skýrsluna í heild.

Samtök atvinnulífsins