Ný löggjöf um útlendinga 1. janúar 2017

Aukin umsvif í efnahagslífinu að undanförnu hafa leitt til þess að atvinnuleysi er í lágmarki. Sívaxandi eftirspurn íslensks atvinnulífs eftir sérhæfðum sérfræðingum og öðru starfsfólki verður að mæta að hluta með komu fólks erlendis frá.

Á síðasta þingi var samþykkt ný löggjöf um útlendinga sem tekur gildi um áramót. Markmið lagasetningarinnar er m.a. að auka samkeppnishæfni landsins.

Tímabundið atvinnuleyfi veitt í allt að tvö ár
Heimilt verður að veita tímabundið atvinnuleyfi í allt að tvö ár en til þessa hefur það lengst verið veitt í eitt ár. 

Nánustu aðstandendur EES-borgara, sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, munu óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi. Þá verða makar íslenskra ríkisborgara undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

Skortur á starfsfólki
Einstaklingar sem fá tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki geta síðar öðlast rétt til ótímabundins dvalarleyfis. Einstaklingar sem myndað hafa tengsl við samfélagið og fyrirtækin sem þeir vinna hjá eiga því að geta sest hér að til frambúðar.

Útlendingur sem staddur er hér á landi, t.d. í tengslum við atvinnuviðtöl, getur sótt um tímabundið atvinnuleyfi án þess að þurfa að fara úr landi enda liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að honum sé heimil dvöl. Með þessu er stuðlað að auknum sveigjanleika fyrir atvinnurekendur við mannaráðningar.

Auðveldara að ráða erlenda sérfræðinga
Sérfræðingar munu geta með leyfi Vinnumálastofnunar hafið störf hér á landi meðan beðið er afgreiðslu umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi. Heimildin er sett „í því skyni að koma til móts við þarfir atvinnulífsins að starfsmenn með mikla sérfræðiþekkingu geti hafið störf hér sem fyrst“ enda oft mikil samkeppni á alþjóðum vettvangi um að fá hæft fólk til starfa.

Það nýmæli er einnig að finna í lögunum að heimilt verður að taka fyrir umsóknir um tímabundin atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings á undan öðrum umsóknum.

Erlendir námsmenn setjist hér að í ríkari mæli
Erlendir námsmenn munu geta fengið tímabundið dvalarleyfi í allt að 12 mánuði í senn í stað 6 mánaða áður. Þá munu nánustu aðstandendur þeirra geta fengið tímabundið atvinnuleyfi. Þegar útlendingar hafa lokið námsgráðu í samræmi við dvalarleyfi vegna náms geta þeir og nánustu aðstandendur leitað sér starfa á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar í allt að sex mánuði. Þannig er stuðlað að því að erlendir sérfræðingar setjist hér að í ríkari mæli en áður.

Þá verður fyrirtækjum heimilt að ráða útlendinga í starfsnám enda liggi fyrir staðfesting frá menntastofnun um að starfsnámið sé nauðsynlegur hluti af náminu.