Covid-19 - 

05. apríl 2020

Ný könnun: Tekjufall og varnarviðbrögð

Efnahagsmál

Efnahagsmál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ný könnun: Tekjufall og varnarviðbrögð

Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð tæplega 50 prósent. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, fyrir Samtök atvinnulífsins.

Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár, vegna áhrifa COVID 19 á íslenskt atvinnulíf. Minnkun tekna er að meðaltali áætluð tæplega 50 prósent. 80 prósent forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja að tekjur muni minnka í marsmánuði á milli ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu, fyrir Samtök atvinnulífsins.

Tæplega 80 prósent fyrirtækja höfðu gripið til hagræðingaraðgerða vegna ástandsins og þar af var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin. Þar á eftir kom niðurskurður annars rekstarkostnaðar.

Uppsagnir voru tæplega 6 þúsund vegna COVID 19 og langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum. Um 24 þúsund eru komnir í skert starfshlutfall af sömu ástæðum. Sú tala er nokkuð lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær nema um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars.

Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru spurðir um hversu lengi þeir teldu að áhrif COVID-19 muni vara á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin vara í þrjá til fjóra mánuði og fjórðungur taldi áhrifin standa í fimm til sjö mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin vara lengur en tíu mánuði og að meðaltími áhrifanna er áætlaður 8 mánuðir.

Tekjur fyrirtækja í mars 2020 samanborið við mars 2019
Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir um mat þeirra á breytingu tekna fyrirtækjanna milli mars 2019 og mars 2020. Niðurstaðan er sú að 80 prósent telja að þær minnki, 15 prósent að þær standi í stað og 5 prósent að þær aukist. Minnkun tekna er að 36 prósent að meðaltali en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn tæplega 50%.

Tekjur fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við sama fjórðung 2019
Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir um mat þeirra á breytingu tekna fyrirtækjanna milli annars ársfjórðungs, frá apríl fram til júní, 2019 og sama fjórðungs 2020. Niðurstaðan er sú að 90 prósent þeirra telja að tekjur minnki, 6 prósent að þær standi í stað og 4 prósent að þær aukist. Minnkun tekna er að rúmlega 40 prósent að meðaltali en hjá þeim sem svara að hún minnki nemur samdrátturinn 50 prósent.

Hagræðingaraðgerðir vegna áhrifa faraldursins
Forsvarsmenn voru spurðir um hvort fyrirtæki þeirra hefði gripið til hagræðingaraðgerða, eða komi til með að grípa til hagræðingaraðgerða, vegna COVID-19.  Ef svo er hvers konar aðgerða hefur verið, eða verður, gripið til. Gefnir voru sjö svarmöguleikar; Ekki gripið til hagræðingaraðgerða, skert starfshlutfall starfsmanna, uppsagnir starfsmanna, skert þjónusta, styttur þjónustu- eða rekstrartími, dregið úr öðrum rekstrarkostnaði eða annað. Niðurstaðan er sú að tæplega 80 prósent höfðu gripið til hagræðingaraðgerða og var skert starfshlutfall starfsmanna algengasta aðgerðin en þar á eftir kom niðurskurður annars rekstrarkostnaðar en launakostnaðar.

Áætlaður fjöldi uppsagna
Forsvarsmenn voru spurðir um áætlaðan fjölda uppsagna starfsmanna vegna COVID-19. Heildarniðurstaðan var sú að áætlaður fjöldi uppsagna nam 2,6 prósent af starfsmannafjöldanum. Sú niðurstaða samsvarar 5.700 störfum og er langstærstur hluti þeirra í ferðaþjónustu og flutningum.

Áætlanir um minnkað starfshlutfall
Forsvarsmenn voru spurðir um áætlanir um fjölda þeirra sem yrði boðið lægra starfshlutfall í fyrirtækinu. Heildarniðurstaðan fyrir atvinnulífið í heild er 24.000 starfsmenn. Sú tala er nokkuð lægri en fjöldi umsókna um hlutabætur hjá Vinnumálastofnun föstudaginn 3. apríl, en þær nema um 30 þúsund. Sá mismunur sýnir vel hversu hratt forsendur breytast frá degi til dags, en könnunin var gerð á tímabilinu 26. til 31. mars.

Mest notkun hlutabótaúrræðisins er í flutningum og ferðaþjónustu, eða helmingur áformaðra skertra starfshlutfalla, en þar á eftir kemur verslun og önnur þjónusta.

Varanleiki efnahagslegra áhrifa faraldursins
Forsvarsmenn voru spurðir um hversu lengi þeir teldu að áhrif COVID-19 muni vara á rekstur fyrirtækjanna. Flestir, eða 30 prósent, töldu áhrifin vara í 3-4 mánuði og fjórðungur taldi áhrifin standa í 5-7 mánuði. Allmargir, eða 29 prósent, töldu áhrifin vara lengur en 10 mánuði og meðaltími áhrifanna er áætlaður 8 mánuðir.

Markmið og úrvinnsla könnunarinnar
Könnunin var gerð til að meta efnahagsleg áhrif Covid-19 faraldursins á fyrirtæki og starfsmenn þeirra. Hún fór fram 26. – 31. mars 2020 og var lögð fyrir 1.803 forsvarsmenn fyrirtækja sem eiga aðild að SA. 674 svöruðu, sem gerir 37 prósent svarhlutfall.

Heildarniðurstöður voru fengnar með því að nota upplýsingar Hagstofunnar um fjölda starfandi samkvæmt skráargögnum árið 2019 og skiptingu þeirra á atvinnugreinar. Auk þess er stærðardreifing fyrirtækjanna sem svöruðu könnuninni notuð til að áætla fjölda uppsagna og fjölda starfsfólks í skertu starfshlutfalli.

Fjöldi starfandi árið 2019 samkvæmt skráargögnum Hagstofunnar var 201.400. Þar af störfuðu 142.700 í atvinnulífinu, sem könnunin tekur til, en 58.700 störfuðu hjá hinu opinbera og í landbúnaði. Starfsmannafjöldi fyrirtækjanna sem þátt tóku í könnuninni var 41.000. Neðangreind tafla sýnir vægi svarenda í könnuninni skipt eftir atvinnugreinum samanborið við skiptingu Hagstofunnar. stærsta breytingin í úrvinnslunni felst í því að vægi byggingariðnaðar er minnkað og vægi verslunar er aukið.

Samtök atvinnulífsins