Ný kaupalög kynnt

SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu stóðu fyrir kynningarfundi á nýju kaupalögunum sem tóku gildi 1. júní sl. Á fundinum fór Álfheiður M. Sívertsen, lögfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, yfir helstu breytingar sem lagasetningin hafði í för með sér. Þar má nefna að ábyrgðartími söluhluta var almennt lengdur úr einu ári í tvö og ábyrgðartími byggingarefna var lengdur í 5 ár.  Einnig var rýmkaður réttur seljanda og kaupanda til að krefjast úrbóta á gölluðum söluhlut, sem og lögfestur réttur til handa kaupanda að setja fram kröfur vegna galla á hendur fyrri söluaðila. Erindi Álfheiðar fylgir hér að neðan. Lögin má nálgast í lagasafninu á heimasíðu Alþingis

Kynning á kaupalögunum
Álfheiður M. Sívertsen,
lögfræðingur hjá SA.

Ný lög um lausafjárkaup tóku gildi 1. júní sl. Eldri lög um sama efni voru að stofni til frá 1922, eða voru orðin tæplega 80 ára gömul. Eins og við vitum hafa þjóðfélagsaðstæður mikið breyst frá þeim tíma. Þó svo að fyrri lög um sama efni hafi verið sveigjanleg og að ákveðnu marki lagað sig að þeirri samfélagsþróun sem við búum við í dag, þá var talið nauðsynlegt að endurskoða þau með tilliti til venja sem höfðu skapast í viðskiptum manna á milli, sem og norrænna og alþjóðlegra réttarreglna um sama efni.

Lögin eru almennt frávíkjanleg.
Eins og lögin frá 1922 þá eru nýju lögin almennt frávíkjanleg. Þau víkja í fyrsta lagi fyrir því sem leiðir af samningi aðila. Hafi seljandi og kaupandi gert með sér samning um ákveðin atriði í skiptum þeirra, þá gildir það almennt þrátt fyrir að reglur laganna segi annað. Fastar venjur í skiptum einstakra seljenda og kaupenda geta einnig vikið ákvæðunum til hliðar, en þar er átt við ákveðnar samskiptavenjur sem myndast t.d. áralöngum viðskiptum. Viðskiptavenjur geta einnig gengið framar lögunum, en skilyrði þess að um viðskiptavenju sé að ræða er að hún sé almennt viðurkennd og henni sé fylgt innan viðkomandi greinar. Því má segja að lögin gefi ákveðið svigrúm og aðlagi sig að viðskiptum aðila í hvert skipti. Það er þó ein undantekning sem sérstaklega seljendur í smásöluverslunum verða að hafa í huga; það má ekki semja um lakari rétt en segir í lögunum ef kaupandi er neytandi og kaupir hlutinn til persónulegra nota sinna eða þeirra sem hann umgengst.

Hvað eru neytendakaup?
Stærsti hluti smásöluverslunar byggir á neytendakaupum. Skv. frumvarpinu er tilgangurinn með sérreglunum um neytendakaup aðallega sá að vernda kaupanda sem stendur höllum fæti í samningssambandinu. Ekki megi því víkja frá ákvæðum laganna neytanda til tjóns. Þetta kemur einnig í veg fyrir að seljandi geti byggt t.d. á viðskiptavenju sem er óhagstæðari en ákvæði frumvarpsins. Það má auðvitað semja um hagstæðari kjör við neytendur. Í lögunum er skilgreint hvaða kaup teljast til neytendakaupa. -Átt er við kaup þar sem seljandinn hefur atvinnu sína af sölu og söluhlutur er aðallega ætlaður til persónulegra nota fyrir kaupandann, fjölskyldu hans, heimilsfólk eða aðra þá sem hann umgengst, nema seljandinn hafi við samningsgerð hvorki vitað né mátt vita að hluturinn var keyptur í því skyni. Hér fellur því ekki undir sala milli neytenda, þ.e. sölustarfsemi er skilyrði, og áskilið er að um persónuleg not sé að ræða, ekki að varan sé ætluð til atvinnurekstar. Kaup á kröfum og réttindum, s.s. hlutabréfum verða t.d. ekki felld undir neytendakaup.

Helstu breytingar með lögum nr. 50/2000
Inntak margra ákvæða laganna er enn það sama og áður þó svo að þau hafi fengið ákveðna andlitslyftingu. Helstu nýjungar eru þó að 

- Aukin ábyrgð vegna aukaskyldna og úrræði aðila eru aukin vegna þeirra, en aukaskyldur eru ákveðnar aðgerðir sem geta leitt af kaupunum, t.d. að senda söluhlut og veita hlutnum viðtöku.

- kaupandi er veitt heimild til að veita seljanda viðbótarfrest til afhendingar söluhlutar ef upphaflegur umsaminn frestur er liðinn. Kaupandi getur þá rift kaupunum að þeim fresti liðnum en getur ekki beitt því vanefndarúrræði meðan fresturinn er að líða.

- Einnig hafa verið sett ítarlegri ákvæði um skyldur kaupanda.

- Bótaábyrgð seljanda vegna greiðsludráttar og galla breytt að nokkru ef um er að ræða hindrun sem hann getur ekki yfirunnið.

- Ábyrgðartími var lengdur úr einu ári í tvö, og ábyrgðartími byggingarefna er lengdur í fimm ár.

- Nú er einnig rýmri réttur til handa seljanda til úrbóta á gölluðum söluhlut eða til að afhenda nýjan söluhlut og rýmri réttur kaupanda til að krefjast þess sama.

- Einnig er sett inn heimild fyrir kaupanda að beina kröfu um galla að öðrum en þeim sem seldi honum hlutinn.

Ábyrgð vegna aukaskyldna
Fyrst skulum við hér nefna aukna ábyrgð vegna aukaskyldna. Þetta hefur eflaust ekki verið vandamál hingað til, en talið var eðlilegt að tiltaka þetta sérstaklega í lögunum. Í eldri lögum voru aðeins reglur um aðalskyldur aðila og afleiðingar vanefnda þeirra. En aðalskylda seljanda er auðvitað að afhenda söluhlut í réttu ástandi, á réttum stað og réttum tíma, en aðalskylda kaupanda er að greiða umsamið kaupverð á réttum tíma. Aukaskyldur geta verið margskonar en leiða venjulega af kaupunum sjálfum. T.d. geta aukaskylda seljanda verið sú að framselja skjöl og senda söluhlut, tryggja söluhlutinn í flutningi eða tilkynna kaupanda ef hluturinn er ekki tryggður í flutning. Aukaskylda kaupanda er t.d. að taka við söluhlut. Það nýja í þessu er það að ef aukaskyldur eru vanefndar þá hefur hvor aðili fyrir sig ákveðin úrræði sem hann getur beitt vegna þess, en þau eru þau sömu og beita má vegna vanefnda á aðalskyldum, s.s. að krefjast efnda, skaðabóta, afsláttar eða rifta kaupunum.

Viðbótarfrestir
Varðandi viðbótarfresti þá eru þeir væntanlega þekktir en hafa ekki áður verið teknir með þessum hætti inn í lög. Ef söluhlutur er ekki afhentur þegar í stað, heldur samið um ákveðinn afhendingartíma þá ber seljanda að hafa hlutinn tilbúinn til afhendingar umsömdum tíma. Hins vegar getur komið upp sú staða að vegna einhverra ástæðna hafi seljandinn ekki viðkomandi hlut undir höndum þegar afhendingartíminn er upp runninn. Ef greiðsludráttur seljanda verður talinn veruleg vanefnd hefur kaupandi rétt til að rifta kaupunum þegar í stað. Sé hins vegar ekki um verulega vanefnd er ekki um slíkan rétt að ræða. Kaupandi hefur þá hins vegar heimild til að veita seljanda viðbótarfrest til að útvega hlutinn, og ef það er ekki gert áður en sá frestur er liðinn, getur kaupandi rift kaupunum, þó svo að vanefndin sjálf teljist ekki veruleg á þeim tíma. Viðbótarfresturinn verður að vera sanngjarn út frá aðstæðum hverju sinni og ekki er heimilt að rifta kaupunum fyrr en sá frestur er liðinn.

Skyldur kaupanda
Ítarlegri ákvæði hafa nú verið sett um skyldur kaupanda, en eldri lögin höfðu helst að geyma reglur um skyldur seljanda. Aðalskylda kaupanda er auðvitað að greiða kaupverðið. Ef ekki hefur verið samið um kaupverð eða ákveðið verð sett upp fyrir söluhlutinn skal miða við gangverð á sams konar hlutum, seldum við svipaðar aðstæður. Greiði kaupandi ekki kaupverðið getur seljandi krafist efnda, riftunar og skaðabóta í samræmi við ákvæði laganna.


Kaupanda er einnig skylt skv. lögunum að ljá atbeina sinna að efndum að því marki sem sanngjarnt er, svo seljandi geti efnt skyldur sínar. Hér er í fyrsta lagi um að ræða t.d. upplýsingar frá kaupanda til seljanda sem eru forsenda þess að seljandinn geti fullnægt skyldum sínum, t.d. þegar um pöntunarkaup eru að ræða. Í öðru lagi er kaupandi skyldur til að taka við hlut með því að sækja hann eða veita honum viðtöku. Ef kaupandi uppfyllir ekki þessar skyldur sínar getur seljandi krafist efnda, hann getur rift kaupunum ef vanefnd kaupanda er veruleg svo og krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna vanefnda kaupanda.


Á kaupanda hvílir einnig tilkynningarskylda til seljanda t.d. vegna hindrana sem gera það að verkum að hann getur ekki uppfyllt skyldur sínar. Geri hann það ekki getur seljandi eftir atvikum gert kröfu um skaðabætur vegna tjóns sem hann verður þess. Ennfremur getur skortur á tilkynningu um galla til seljanda orðið til þess að kaupandi missi rétt til að bera fyrir sig að söluhlutur hafi verið gallaður.

Réttur til skaðabóta
Í gömlu lögunum var réttur til skaðabóta vegna afhendingardráttar og galla mismunandi eftir því hvort um var að ræða hlut sem var framleiddur í fjölda eintaka eða hlut sem aðeins var eitt eintak til af. Nú er búið að samræma þetta.
Ákveðið var að fylgja svokallaðri stjórnunarábyrgð, en í henni felst að samningsaðili beri ábyrgð á efndum kaupsamningsins, nema því aðeins að einhver sú hindrun standi efndum í vegi sem hann getur ekki yfirunnið.


Til þess að seljandinn losni undan skaðabótaábyrgð þarf fjórum skilyrðum að vera fullnægt, en þetta verður venjulega að skoða í hverju tilviki fyrir sig. Í fyrsta lagi þarf að vera fyrir hendi hindrun, sem veldur seinkun á afhendingu og stendur umsömdum efndum í vegi. Hér er ekki fortakslaust krafist að afhending á réttum tíma sé útilokuð fyrir hvaða seljanda sem er. Það eru ekki gerðar svo strangar kröfur. Atvik geta verið til staðar sem ekki gera efndir algerlega ómögulegar en gera þær eigi að síður svo einstaklega torveldar að atvikin á grundvelli hlutlægs mats koma í veg fyrir efndir. Ávallt er skilyrði að hindrun valdi því í raun og veru að seljandinn geti ekki efnt kaupin.

Í öðru lagi þarf hindrunin að vera seljandanum ofviða. Seljandinn er t.d. ávallt ábyrgur vegna atvika og aðstæða er falla innan þeirra marka sem hann fær ráðið við, t.d. með skipulagningu, stjórnun eða eftirliti í viðkomandi fyrirtæki. Dæmigerð slík tilvik eru öll atvik sem rekja má til seljandans sjálfs, starfsmanna hans eða manna sem hann skv. almennum reglum ber ábyrgð á.

Í þriðja lagi þarf hindrunin að vera þess eðlis að ekki sé með sanngirni hægt að ætlast til þess að seljandinn hafi átt að hafa hana í huga við samningsgerðina. Þetta byggist á mati á aðstæðum í hverju tilviki fyrir sig. Dæmi um þetta er að hafi seljandi getað séð fyrir hugsanlegt verkfall sem kynni að seinka afhendingu og þar með getað tekið tillit til þess við samningsgerðina getur hann ekki borið slíka hindrun fyrir sig.

Í fjórða lagi er það skilyrði að ekki sé hægt að ætlast til þess að seljandinn geti komist hjá eða yfirunnið hindrunina. Þetta á m.a. við þegar hindrun verður á tímabilinu frá því að kaup gerðust og fram að afhendingartíma. Seljanda er þá skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að afstýra afleiðingum hindrunarinnar. Það getur t.d. þýtt að heildsali verði að velja annan framleiðanda en hann hafði ákveðið ef augljóst er að sá framleiðandi muni ekki geta efnt skyldur sína vegna verkfalla eða annarra ástæðna. Seljandi á því að reyna að útvega aðra hluti í staðinn og sú skylda verður þyngri eftir því sem söluhluturinn er algengari og auðveldara að nálgast.


Sem dæmi um atvik sem geta leitt til efndahindrana eru stríð, náttúruhamfarir eða alvarlegur bruni, verkföll eða útflutnings- eða innflutningsbönn. Það verður þó að benda á að sé hindrun fyrir hendi þá leysir hún ekki undan bótaábyrgð í lengri tíma en hún varir. Skortur á fjármagni leysir ekki undan bótaskyldu.

Ábyrgðarreglur
Ábyrgðarreglur laganna voru lengdar úr árs ábyrgð í tveggja ára ábyrgð á söluhlut vegna galla, nema á byggingarefni, en þar var ábyrgðin lengd í fimm ár. Þetta telst vera hámarkstilkynningarfrestur vegna galla og gilda þeir í öllum tegundum kaupa, nema um lengri eða styttri frest hafi verið samið. Þá verður að athuga að í neytendakaupum má ekki semja um styttri tíma.


Það er þó möguleiki að ábyrgðin falli úr gildi fyrir lok tveggja ára frestsins. Í lögunum er tekið fram að kaupandi glati rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda í hverju gallinn er fólginn, án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var.


Það getur auðvitað verið mjög misjafnt eftir söluhlutum hvenær galli uppgötvast. Oft uppgötvast hann fljótt eftir kaupin en leyndir gallar koma oft ekki í ljós fyrr hlutur hefur verið notaður í ákveðinn tíma. Tilkynningarfrestur byrjar þá að líða þegar galla verður vart með þeim hætti að kaupandinn á að verða hans var. Seljandi getur þá borið fyrir sig tilkynningarskort ef tilkynningin berst ekki til hans innan hæfilegs tíma. Sá tími getur hins vegar verið mismunandi eftir því hvers konar vöru er um að ræða og hver kaupandinn er.
Þegar um er að ræða hluti sem hafa stuttan endingartíma er tilkynningarfrestur styttri en ella og neytandi hefur t.d. rýmri tíma til að tilkynna galla en atvinnurekandi. Þetta fer því eftir atvikum hverju sinni. Réttur kaupanda til að bera fyrir sig galla fellur brott í síðasta lagi tveimur árum eftir að kaupandi tók við hlutnum án tillits til annarra atriða. Hafi seljandi nýtt sér það úrræði að afhenda nýjan hlut í stað hins gallaða, þá hefur sá hlutur sjálfstæðan rétt til tveggja ára ábyrgðartíma. 


Við sölu á byggingarefni, sem ætlaður er verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti, er frestur til að bera fyrir sig galla fimm ár frá því að efninu var veitt viðtaka.

Réttur til úrbóta á gölluðum hlut
Með lögunum voru settar inn reglur um rétt seljanda til að framkvæma úrbætur vegna galla og hvenær kaupandi geti krafist nýrrar afhendingar. Seljandi hefur í dag rétt á að bæta úr galla ef það getur gerst án verulegs óhagræðis fyrir kaupanda og án þess að kaupandi sé settur í þá áhættu að fá ekki kostnað sinn greiddan hjá seljanda. Ef hægt er að bæta úr galla án ósanngjarns kostnaðar eða óhagræðist fyrir seljanda þá er það skylda hans að gera það.


Skilyrði þess að seljandi hafi rétt til að bæta úr galla eða afhenda nýjan hlut er í fyrsta lagi að það sér gert á kostnað seljanda. Þá á seljandi að bæta allan þann kostnað sem úrbætur hafa í för með sér, s.s. flutningskostnað. Í öðru lagi er það skilyrði að úrbætur geti átt sér stað án þess að kaupandi bíði verulegt óhagræði af. Það getur lýst sér í því að kaupandi geti ekki án hlutarins verið meðan útbætur eiga sér stað og þess sé ekki sanngjarn kostur að útvega annan hlut á meðan. Þótt seljandinn hafi áður bætt úr göllum á söluhlut veitir það ekki kaupandanum heimild til þess að hafna úrbótum á göllum sem síðar koma í ljós. Ef hins vegar um mjög mörg tilvik er að ræða þar sem úrbætur hafa verið nauðsynlegar getur óhagræði kaupandans á heildina litið verið svo mikið að hann hafi réttmæta ástæðu til að hafa frekari úrbótum. Þriðja skilyrðið er það að kaupandi eigi ekki á hættu að fá ekki bætt útgjöld sín hjá seljandanum. Það getur reynt á þetta þegar kaupandi þarf að leggja út fjármuni vegna fyrirhugaðra úrbóta eða nýrrar afhendingar. Á kaupandanum hvílir ákveðin skylda til að veita seljandanum aðstoð, en í því getur t.d. falist að hann verði að leggja út fjármuni. Hér verður t.d. að líta til fjarlægðar milli aðila, tegundar hlutarins og þess kostnaðar sem um er að ræða.


Ef fullnægt er þessum skilyrðum þá getur seljandinn valið um hvort hann bætir úr galla, t.d. með viðgerð, eða afhendir annan hlut ógallaðan í stað söluhlutar. Kaupandinn getur því ekki mótmælt úrbótum og krafist afhendingar að nýju í þeirra stað, nema því aðeins að útbætur hafi verulegt óhagræði í för með sér fyrir hann. 


Kaupandi getur almennt einnig krafist þess að seljandi bæti úr göllum, t.d. með viðgerð. Kaupandi getur krafist úrbóta án tillits til þess hvers eðlis gallinn er eða hvort hann er verulegur eða ekki, og þá á kostnað seljanda. Þó er talið sanngjarnt að krafa um úrbætur geti ekki náð fram að ganga þegar slíkt hefur í för með sér óhæfilegan kostnað eða óhagræði fyrir seljanda, miðað við aðstæður hverju sinni. Það gæti t.d. átt við þegar kaupandinn er búsettur erlendis og seljandinn yrði að senda starfsmenn sína þangað til viðgerðar. Viðgerð á hlut getur ennfremur orðið óhóflega kostnaðarsöm miðað við verð nýs hlutar af sömu tegund. Seljandi getur þá boðið fram nýja greiðslu.
Forsenda þess fyrir kaupanda að krefjast nýrrar afhendingar er sú að gallinn sé verulegur. Seljandi getur þó ávallt valið þá leið að afhenda nýjan hlut í stað þess að gera við þann gallaða. Forsenda nýrrar afhendingar að kaupandi skili gallaða hlutnum.
Ef seljandi fullnægir ekki þeirri skyldu sinni að bæta úr galla eða afhenda nýjan hlut getur kaupandi krafist skaðabóta fyrir eðlileg útgjöld við að fá bætt úr galla.  Hér er átt við kostnað við sjálfar úrbæturnar og t.d. kostnað við nauðsynlega flutninga.

Krafa vegna galla beitt að fyrri söluaðila
Með nýju lögunum getur kaupandi nú beint kröfu sinni vegna galla að fyrri söluaðila. Rök þessarar reglu er sú að sá aðili sem seljandi keypti af, ætti ekki að geta losnað undan galla sem rekja má til hans þótt kaupandinn geti af einhverri ástæðu ekki komið fram kröfu sinni á hendur seljandanum. Galla í söluhlut má oft rekja til fyrri söluaðila, t.d. framleiðanda. Það má semja um að þessi regla gildi ekki í samskiptum aðila, nema þó í neytendakaupum.


Ef erfitt er fyrir kaupanda að koma fram kröfum sínum að sínum viðsemjanda, t.d. vegna greiðsluerfiðleika seljandans, þá er hagkvæmt fyrir hann að beina kröfum sínum beint að fyrri söluaðila. Heimildin er þó takmörkuð við kröfu vegna galla á söluhlut. Það er einnig skilyrði að annað leiði ekki af samningi, þá í öðrum kaupum en neytendakaupum. Þetta þýðir þá að allir nema neytendur geta samið sig undan þessum rétti. Seljandi í neytendakaupum getur ekki sett fyrirvara um slíkt í samninga þeirra aðila og neytandi getur heldur ekki afsalað sér slíkum rétti. Í þriðja lagi er skilyrði að seljandi sjálfur geti gert samskonar kröfu vegna gallans. Réttur kaupanda getur því verið minni á hendur fyrri söluaðila en gagnvart seljandanum, t.d. á grundvelli söluskilmála þeirra á milli. Með orðalaginu "sams konar kröfu" er átt við að krafa á hendur fyrri söluaðila verður aðeins borin fram að því marki sem fyrri söluaðili ber ábyrgð á galla gagnvart seljanda. Samningur seljanda við fyrri seljanda mun þó ekki geta takmarkað rétt kaupanda í neytendakaupum til að halda fram rétti sínum, nema þá seljandi hefði getað haldið fram þeirri takmörkun gegn neytandanum sjálfur.


Kaupandi skal setja kröfu sína á hendur fyrri söluaðila fram án ástæðulauss dráttar og gilda þar sömu ábyrgðarreglur og hér var áður lýst.


Hér hef ég farið yfir helstu breytingar á kaupalögunum sem tóku gildi um síðustu mánaðarmót. Lögin eru mjög viðamikil og erfitt að taka út ákveðin atriði í þeim. Flest ákvæði laganna breyttust eitthvað til samræmis við önnur ákvæði, sem og norrænan rétt, þó svo að efnislega hafi þau átt að vera eins. Við munum þó ekki sjá fyrr en fram í sækir um heildaráhrif þessarar löggjafar.

Takk fyrir