Ný handbók um ábyrgð og skyldur stjórnarmanna

KPMG, í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands, hefur gefið út Handbók stjórnarmanna en þar er að finna ítarlegt yfirlit yfir hlutverk, ábyrgð og skyldur stjórnarmanna í íslensku atvinnulífi. Handbókin tekur m.a. mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtök atvinnulífsins gáfu út árið 2009. KPMG mun kynna bókina 8. október og 15. október á opnum fundum.

Góð yfirsýn nauðsynleg

Stjórnarmenn þurfa að hafa góða yfirsýn yfir starfsemi viðkomandi félags og tekur uppbygging handbókarinnar mið af því. Í henni er m.a. umfjöllun um atriði sem huga þarf að áður en einstaklingur tekur að sér stjórnarsetu, hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna og stjórnarinnar í heild, árangursríka stjórnarfundi, hlutverk framkvæmdastjóra og undirnefnda, innra eftirlit, stefnumótun, ársreikninga og viðskiptasiðferði. Í viðaukum er síðan fjallað um auknar kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga, lífeyrissjóða og félaga með skráð hlutabréf eða skuldabréf.

Í handbókinni er að finna umfjöllun um atriði sem geta haft slæm áhrif á starfshætti og/eða starfsemi félagsins og stjórnarmenn ættu ekki að leiða slíkt hjá sér heldur staldra við, meta áhrifin og bregðast við.

Opin kynning KPMG

KPMG mun halda kynningar á Handbók stjórnarmanna föstudagana 8. október og 15. október kl. 8:30 til 9:00 (húsið opnar kl. 8:15). Kynningarnar fara fram í húsakynnum KPMG í Borgartúni 27 á 8. hæð. Handbókin verður seld á sérstöku tilboðsverði á kynningunum.

Skráning er án endurgjalds en vinsamlegast tilkynnið komu ykkar hérna (handbokstjornarmanna@kpmg.is).