Ný greining á Brexit og staðan í viðræðum Breta og ESB

Um síðustu helgi var kynnt ný skýrsla utanríkisráðuneytis þar sem lagt er mat á áhrif þess að ákvæði EES-samningsins komi ekki til með að gilda lengur í samskiptum við Breta eftir útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu (ESB). Utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að Bretland sé eitt af allra mikilvægustu samstarfsríkjum Íslands og það að tryggja náin tengsl við Breta til framtíðar sé algjört forgangsverkefni.

Samtök atvinnulífsins (SA) taka undir þá skoðun ráðherrans og fagna útkomu skýrslunnar. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf sé vel búið undir þær breytingar sem verða þegar Brexit kemur til framkvæmda þann 29. mars 2019. Nú þegar einungis 16 mánuðir eru til stefnu er ennþá óljóst á hvaða grunni samskipti ríkjanna muni byggja.

Eins og kom fram í greiningu SA sem gefin var út í júní síðastliðinn eru fjórir valkostir mögulegir þegar horft er til á hvaða grundvelli markaðsaðgangur milli ríkjanna muni ráðast. Einn valkostur er að samningur Bretlands við ESB um markaðsaðgang milli ríkjanna muni einnig ná til EES svæðisins. Annar valkostur er að samið verði við Breta af hálfu EFTA ríkjanna þriggja; Íslands, Noregs og Liechtenstein. Þriðji valkosturinn væri tvíhliða fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands. Ef ekki næðist að ganga frá samningi sem ríkin ættu aðild að þá myndu leikreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) gilda og stæðu þá Íslandi til boða sömu kjör og þeim ríkjum sem eru án samnings um markaðsaðgang.

Mat á því hvaða kostir standa til boða, og þykja ákjósanlegir fyrir íslenska hagsmuni, mun væntanlega ráðast að einhverju leyti á því fyrirkomulagi sem verður á samskiptum Bretlands og ESB. Nú er beðið niðurstöðu desemberfundar Evrópusambandsríkjanna 27 um hvort nægilegur árangur hafi náðst í viðræðum um ákveðin tæknileg atriði er varða útgöngu Breta, en það var skilyrði fyrir því að hefja viðræður um framtíðarsamband aðila. Bretar vilja tveggja ára aðlögunartímabil til að koma í veg fyrir of snarpar breytingar á viðskiptaumhverfi breskra fyrirtækja.

Fulltrúar bresks atvinnulífs hafa lýst yfir óánægju með þá óvissu sem ríkir nú þegar einungis er rúmt ár til stefnu. Slakur framgangur þeirra hefur ollið óánægju meðan fulltrúa bresks viðskiptalífs. Á aðalfundi Confederation of British Industries (CBA), breskra systursamtaka SA, kom fram að Brexit sé mest afgerandi þátturinn í efnahagshorfum Bretlands og að fyrirtæki haldi aftur af sér í fjárfestingum á meðan beðið er eftir nýjum leikreglum fyrir atvinnulífið. Samkvæmt upplýsingum úr könnun sem framkvæmd var af CBI þá hafa 10% fyrirtækja sem svöruðu könnunni hafið að innleiða áform sem gera ráð fyrir að samningur náist ekki. Gert er ráð fyrir að sú tali rísi upp í 60% í mars á næsta ári verði staðan ekki farin að skýrast fyrir þann tíma.

Eftir stirða byrjun og sex samningalotur milli samninganefnda án þess að tækist að sættast á mótaðar tillögur um þau þrjú álitamál sem sett voru á oddinn í upphafi dró til tíðanda í vikunni. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun hafa stórhækkað þá fjárhæð sem Bretar eru reiðubúnir að greiða sem hluta af uppgjöri aðila og virðast aðilar vera á góðri leið við að ná samkomulagi um þetta atriði sem hefur einn helsti ásteytingarsteinninn fram að þessu. Hér ræðir um kostnað sem ESB hafði þegar skuldbundið sig til að greiða þegar gert var ráð fyrir áframhaldandi þátttöku Bretlands í ESB. Til að mynda er átt við framlög til uppbyggingarsjóða og lífeyrisskuldbindinga starfsmanna. Umrædd greiðsla hefur verið nefnd skilnaðargreiðslan og voru margir Bretar ósáttir við að þurfa að halda áfram að greiða til sambandsins eftir útgöngu. Þótti mörgum óbilgjarnt að henni hafi verið stillt upp af ESB sem forsendu fyrir viðræðum um framtíðarviðskiptasamband ríkjanna. Sú ráðagerð virðist hinsvegar hafa borgað sig því Bretar hafa gengist við skuldbindingum sínum samkvæmt þessu að töluverðu leyti.

Annað álitamálið, um hvernig megi tryggja réttindi evrópskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborara á meginlandi Evrópu, hefur ekki skapað sömu togstreitu milli aðila. Bretar buðu í upphafi viðræðna upp á að ríkisborgarar ESB sem komu til Bretland áður en Bretar lýstu formlega yfir útgöngu muni njóta sömu réttinda til starfa og þjónustu, og breskir þegnar, gegn því að sama myndi gilda fyrir breska þegna búsetta í ríkjum ESB. Angela Merkel, kanslari Þýskaland, var jákvæð í garð tillögunnar og lýsti henni sem góðum byrjunarreit. Af átakalínum um þetta málefni stendur helst eftir að ESB hefur viljað að Evrópudómstóllinn hafi það hlutverk að tryggja réttindi þegna Evrópusambandsríkja í Bretlandi. Bretar hafa hins vegar andmælt lögsögu dómstólsins um málefni Bretlands eftir útgöngu úr ESB.

Athyglin beinis því í auknum mæli að þriðja og síðasta atriðinu, málefni landamæra Norður-Írlands. Margt bendir til þess að það eiga eftir að vera erfitt úrlausnarefni reynist aðilar ekki tilbúnir til að hvika frá þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið. Norður-Írland er hluti af Bretlandi og deilir þar 500 kílómetra löngum landamærum með Írlandi. Forsætisráðherra Írlands hefur greint frá því að Írar séu reiðubúnir til að beita neitunarvaldi um frekari framgang Brexit-viðræðnanna ef Bretar fallast ekki á lausn um að landamæri Írlands og Norður-Írlands haldist áfram opin eftir Brexit. Írar hafa bent á að það að halda opnum landamærum snúist ekki einungis um viðskiptalíf landsins heldur um klofning á eyjunni og að tryggja áframhaldandi frið sem tekist hefur að varðveita undanfarna tvo áratugi eftir langvarandi átök.

Margir íbúar beggja vegna landamæranna eru þeirrar skoðunar að eina hagkvæma lausnin sé að Norður Írland tilheyri áfram innri markaðnum óháð stöðu Bretlands. Því eru sambandssinnar hins vegar ekki sammála. Þrátt fyrir að þeir séu ekki við stjórn á Norður-Írlandi, sem hefur verið án ríkisstjórnar síðan í janúar á þessu ári, þá gegna þeir veigamiklu hlutverki á breska þinginu. Þar er DUP flokkurinn í meirihluta með Íhaldsflokknum sem tapaði meirihluta sínum í kosningunum sem May boðaði í júní s.l. Flokkurinn vil ekki að Norður-Írland njóti sérstöðu sem sé ólík þeirra sem gildi en önnur svæði landsins. Næstu dagar munu leiða í ljós hvort sú frumlega lausn sem May hefur kallað eftir birtist í viðræðum um málefni landamæra Norður-Írlands en mikilvægi þess að hefja viðræður um framtíðarsamband ríkjanna fljótlega setur mikinn þrýsting á aðila.

Samtök atvinnulífsins munu halda áfram að fylgjast náið með framgangi mála og eiga samstarf við stjórnvöld um hvernig best megi tryggja hagsmuni íslensks atvinnulífs um framtíðarfyrirkomulag viðskiptasambands ríkjanna. Félagsmenn eru hvattir til að koma á framfæri sjónarmiðum sem hafa þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf og upplýsingum um þau raunhæfu úrlausnarefni sem einstök fyrirtæki standa frammi fyrir.

Sjá nánar:

Ísland og Brexit Greining hagsmuna vegna útgöngu Bretlands úr EES (PDF)

Skráðu þig á Brexit-póstlista SA: