Núverandi kerfi í andarslitrunum

Íslenskur vinnumarkaður er í uppnámi og tími til kominn að breyta því hvernig samið er um kaup og kjör. Núverandi kerfi er í andarslitrunum enda hefur það framkallað öfgakenndar sveiflur í efnahagslífinu sem hafa takmarkað lífsgæði landsmanna. Þetta segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið í dag. Hann segir Íslendinga búa við krísuástand og líklegt að þjóðin þurfi að kljást við djúpa kreppu á ný áður en langt um líður ef ekki verður gripið í taumana.

Þorsteinn kallar í viðtalinu eftir því að aðilar vinnumarkaðarins axli efnahagslega ábyrgð. Ríflegar launahækkanir grafi undan efnahagslegum stöðugleika til lengri tíma litið, líkt og reynslan hafi kennt okkur aftur og aftur. Stéttarfélög á almennum vinnumarkaði hafi nálgast kjarasamningana 2013-14 til að verja efnahagslegan stöðugleika en opinberu stéttarfélögin hafi hins vegar gert áhlaup á hann.Enn og aftur fara opinberu félögin í hörð átök til að reyna að brjóta þessa stefnu á bak aftur. Þau voru ekki sátt við þessa aðferðafræði og töldu sig eiga inni sérstaka leiðréttingu.“

Þorsteinn segist óttast að samningar opinberra starfsmanna um tugi prósenta í launahækkanir muni draga dilk á eftir sér. „Við erum komin langt út fyrir rammann. Við sjáum að verðbólga fer vaxandi á nýjan leik og stýrivextir hafa verið hækkaðir í tvígang. Afkoma sveitarfélaga sýnir að þau ráða ekki við þessar miklu launahækkanir sem ekki sér fyrir endann á þar sem að óbreyttu eru umtalsverðar líkur á því að okkar viðsemjendur segi upp sínum kjarasamningum,“ segir hann.

„Þessi æfing hefur staðið yfir í eitt og hálft ár og vinnumarkaðurinn er í fullkomnu uppnámi. Launahækkanir fara stigvaxandi og það stefnir í algjört óefni ef ekkert verður að gert. Við erum á ögurstundu hvað þetta varðar: Annað hvort koma félögin með okkur í þessa umbótavinnu núna eða menn munu reyna að finna leið til þess að gera breytingar án þeirra.“

„Í mínum huga er ekki valkostur að halda áfram á þessari leið án umbóta á kjarasamningalíkaninu. Við getum ekki framlengt þetta ástand eitt ár enn án þess að við blasi verulegt hættuástand. Það er sorglegt til þess að hugsa, ef það verður raunin, að menn láti þetta tækifæri úr greipum sér ganga enn eina ferðina,“ bætir hann við.

Þorsteinn segir þær aðstæður sem nú blasi við séu kunnuglegar.

„Ástandið núna er tekið að minna mjög á það sem gerðist í aðdraganda þjóðarsáttar á árunum 1986 til 1989 þegar raungengi fór í hæstu hæðir og eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu varð gríðarlegur. Fjöldi 1987 árgerðar af bílum var met sem var ekki slegið fyrr en 2007 að ég held. Þetta endurspeglar þessar öfgakenndu sveiflur sem við höfum búið til.“

Þorsteinn segir að fyrir sitt leyti sé núverandi fyrirkomulag í andarslitrunum. „Þetta er einfaldlega ekki valkostur lengur. Það verður að fara í umbætur á vinnumarkaði. Að öðrum kosti gætum við verið að kalla yfir okkur enn eina holskefluna og það er ótrúlegt ef við ætlum að fara þá leiðina verandi nýstigin út úr kreppu og rétt farin að sjá fyrir endann á helstu vandamálunum og viðfangsefnunum í kjölfar hennar.“

Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaðinu 10.9. 2015. Áskrifendur geta nálgast rafræna útgáfu hér.