Fréttir - 

12. maí 2020

Norska ríkisstjórnin framlengir tímabil launalauss leyfis

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Norska ríkisstjórnin framlengir tímabil launalauss leyfis

Norska ríkisstjórnin ákvað í dag, 12. maí, að framlengja tímabundin lagaákvæði um greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna í launalausu leyfi út októbermánuð. Jafnframt verður samsvarandi lenging á tímabili sem fyrirtækjum er heimilt að hafa starfsmenn í launalausu leyfi.

Norska ríkisstjórnin ákvað í dag, 12. maí, að framlengja tímabundin lagaákvæði um greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna í launalausu leyfi út októbermánuð. Jafnframt verður samsvarandi lenging á tímabili sem fyrirtækjum er heimilt að hafa starfsmenn í launalausu leyfi.

Samkvæmt lögum frá 20. mars gilda bráðabirgðaákvæði um launalaus leyfi út júnímánuð og þar var greiðsluskylda fyrirtækis stytt úr 15 dögum í 2 frá dagsetningu tilkynningar um tímabundið launalaust leyfi. Nýjustu breytingarnar á lögunum eru þær að launafólk sem hefur fullnýtt rétt til bótagreiðslna í launalausu leyfi, sem er 26 vikur, getur fengið bætur út októbermánuð. Að afloknu tímabili launalauss leyfis tekur greiðsluskylda vinnuveitanda við á ný. Aðilar vinnumarkaðarins í Noregi hafa kallað eftir þessari breytingu.

90% fjölgunar atvinnulausra er vegna launalausra leyfa

Kórónukreppan hefur stuðlað að mikilli aukningu atvinnuleysis í Noregi. Frá 12. mars hafa 430 þúsund launamenn sótt um atvinnuleysisbætur og 90% þeirra eru í launalausu leyfi. 40% fyrirtækja með fleiri en 50 starfsmenn hafa nýtt sér úrræðið um tímabundið, launalaust leyfi.

Norskir kjarasamningar kveða á um tímabundið, launalaust leyfi starfsfólks, permittering á norsku. Launalaust leyfi að hluta (delvis permittering) er heimilt niður í 40% starfshlutfall. Fyrirtækjum er heimilt að fella starfsfólk tímabundið af launaskrá í allt að 6 mánuði ef þau sýna fram á verulegt tekjufall og metur norska vinnumálastofnunin (NAV) umsóknir þeirra. Lög tryggja starfsfólki bætur eftir að greiðsluskyldu vinnuveitenda líkur.

Starfsmenn í launalausu leyfi halda ráðningarsambandi við fyrirtæki og eiga rétt á áframhaldandi starfi að leyfinu loknu. Að afloknu tímabili launalauss leyfis tekur uppsagnarfrestur við, ef áframhaldandi starf er ekki í boði.

Tímabundinn verkefnaskortur er skilyrði

Aðstæður sem heimila fyrirtækjum að setja starfsmenn í launalaust leyfi verða að vera tímabundnar.  Slíkar aðstæður eru t.d. náttúruhamfarir og aðrir ófyrirséðir atburðir sem stöðva rekstur fyrirtækja að hluta eða öllu leyti. Áföll fyrirtækja vegna kórónukreppunnar eru talin falla þar undir.

Að loknu tímabili launalauss leyfis er starfsmanni skylt að mæta aftur til vinnu. Skilyrði fyrir því að úrræðið sé heimilt er að metið sé líklegt að verkefnaskortur fyrirtækis sé tímabundinn. Fyrirtæki verður að sýna fram á líkur þess að tekjur aukist á ný sem tryggi verkefni og laun fyrir starfsmennina sem settir voru í launalaust leyfi. Ef það er ekki talið líklegt ber fyrirtækinu að segja starfsfólki upp störfum.

Samtök atvinnulífsins