Vinnumarkaður - 

06. apríl 2017

Norrænir frændur og íslenska sérstaðan

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Norrænir frændur og íslenska sérstaðan

Á föstudaginn var, þann 31. mars, var tónninn sleginn varðandi launaþróun í Svíþjóð næstu árin. Launahækkanir verða samtals 6,5% á þremur árum til loka mars 2020.

Á föstudaginn var, þann 31. mars, var tónninn sleginn varðandi launaþróun í Svíþjóð næstu árin. Launahækkanir verða samtals 6,5% á þremur árum til loka mars 2020.

Það voru samtök fyrirtækja og launafólks í iðnaði sem riðu á vaðið og gerðu fyrsta kjarasamninginn í þessari lotu. Í Svíþjóð er víðtækt samkomulag um að iðnaðarsamningurinn sé fyrstur í röðinni og sé fyrirmynd annarra kjarasamninga sem koma í kjölfarið. Samningsaðilarnir telja sig með þessu hafa axlað þá ábyrgð að ákveða launastefnuna á sænska vinnumarkaðnum en samningurinn nær til 600.000 launamanna.

Að mati þeirra rúmast umsamdar hækkanir innan þess svigrúms til hækkunar launakostnaðar sem viðheldur samkeppnisstöðu sænskra útflutningsfyrirtækja.

Kaupmáttaraukning
Talsmenn stéttarfélaganna í Svíþjóð telja samninginn góðan og að hann gefi færi á nokkurri kaupmáttaraukningu en jafnframt að hann styrki samkeppnishæfni iðnaðarins. Þeir telja einnig mikilvægt að hafa náð fram sérstakri hækkun lægstu launa.

Talsmenn atvinnulífsins hefðu viljað að launahækkanirnar hefðu verið minni en telja niðurstöðuna ásættanlega í ljósi mikilla væntinga sem stjórnmálamenn höfðu kynt undir. Þeir telja þó að sérstök, almenn hækkun lægstu launa samræmist illa þeirri stefnu að launamyndunin eigi sér stað innan fyrirtækjanna. Löng reynsla sýni að slíkar hækkanir séu skaðlegar. Að mati þeirra rúmast umsamdar hækkanir innan þess svigrúms til hækkunar launakostnaðar sem viðheldur samkeppnisstöðu sænskra útflutningsfyrirtækja.

Í þessu samhengi benda talsmenn fyrirtækjanna á að einungis útflutningsfyrirtæki finni beint fyrir því hvaða launakostnað þau geti borið í samanburði við samkeppnisaðila í öðrum ríkjum. Vegna þess að Svíþjóð byggir á miklum útflutningstekjum verði rekstrarskilyrði þessara fyrirtækja að ákvarða svigrúm til launahækkana. Sú skipan hafi verið ríkjandi í tvo áratugi og skilað mikilli kaupmáttaraukningu til sænsks launafólks, stöðugu efnahagslífi, öflugum vinnumarkaði og lágum vöxtum.

Allir fyrir einn
Í Svíþjóð hafa menn snarar hendur því strax í kjölfar þessa fyrsta samnings undirrituðu stéttarfélög og vinnuveitendur í verslun kjarasamning með sömu efnisatriðum. Stefnan á sænska vinnumarkaðnum er sú að allir kjarasamningar feli í sér að hámarki sömu kostnaðarhækkanir og iðnaðarsamningurinn. Það eru samt alltaf einhverjir sem vilja meira en það getur reynst þrautin þyngri að ná niðurstöðu í þeim samningaviðræðum. Svíar vita sem er að hóflegar launahækkanir eru almannagæði og ef einhverjir hópar geta knúið fram meiri hækkanir en almennt gerist brestur samstaðan um samningalíkanið.

Samkeppnishæfnin varin í Noregi
Í Noregi eru kjarasamningar alltaf gerðir til tveggja ára og semja heildarsamtökin á vinnumarkaðnum, norsku samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið (LO), um svigrúm til launahækkana sem útfært er úti í fyrirtækjunum. Núgildandi kjarasamningar gilda fyrir árin 2016 og 2017 og þann 14. mars sl. náðu samtökin samkomulagi um að svigrúm sé til 2,4% launahækkana á þessu ári. Almennt hækka laun um hálfa norska krónu á tímann, 1,50 á lægstu laun og það sem vantar upp á 2,4% skal útfært með samkomulagi innan fyrirtækja.

Talsmenn atvinnulífsins telja mikilvægt að greiða góð laun en jafnframt verði fyrirtækin að geta selt framleiðsluvörur sínar. Það verði sérstaklega erfitt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustunni að hækka laun þeirra sem hærri laun hafa vegna hinna sérstöku hækkana lægstu launa.

Miklu meiri launahækkanir á Íslandi en meðal samkeppnisþjóða og mikil styrking krónunnar undanfarin ár hafa stökkbreytt samkeppnisstöðunni

Fjarar undan samkeppnisstöðu Íslands
Á undanförnum misserum hefur samkeppnisstaða atvinnulífsins versnað mikið á Íslandi. Miklu meiri launahækkanir hér en meðal samkeppnisþjóða og mikil styrking krónunnar undanfarin ár hafa stökkbreytt samkeppnisstöðunni.

Raungengi á mælikvarða launa er ágætur mælikvarði á samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Raungengi á mælikvarða launa hefur hækkað um 43% á síðastliðnum tveimur árum og 64% á síðustu fjórum árum. Með öðrum orðum hefur launakostnaður á Íslandi hækkað 43% og 64% umfram erlenda keppinauta mælt í sama gjaldmiðli á þessum tímabilum.

Afleiðingar skertrar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs munu smám saman koma fram í minnkandi hlutdeild útflutningsfyrirtækja og annarra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni í atvinnulífinu, fækkunar starfa og minni fjárfestinga í þeim geirum.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 6. apríl 2017

Samtök atvinnulífsins