Norðmenn með stórhuga áform á sviði orkunýtingar og útflutnings orku um nýja rafstrengi

Á ársfundi NHO, norsku samtaka atvinnulífsins,  voru orkumálin í brennidepli en fundurinn var haldinn 9. janúar sl. Þar fluttu ávörp meðal annara Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, og Ola Borten Moe olíu- og orkumálaráðherra. Í máli þeirra komu fram umfangsmikil áform um aukna orkuvinnslu, nýtingu og útflutning. Svo virðist sem mikil pólitísk samstaða ríki um þróun orkugeirans í Noregi.

Jens Stoltenberg á ársfundi NHO 2013

Bæði Jens Stoltenberg og Ola Borten Moe sögðu frá áformum um frekari nýtingu endurnýjanlegrar orku í Noregi og vísuðu til nýtingar vatnsafls, vinds og lífmassa. Jafnframt væri fyrirhugað að bjóða út ný svæði til olíuleitar á Barentshafi og við Jan Mayen. Það yrði í fyrsta sinn frá 1994 sem boðin yrðu út leyfi til olíuleitar á nýjum svæðum. Tillaga þess efnis verður væntanlega lögð fyrir Stórþingið fyrir páska og samþykkt fyrir vorið. Fram kom á fundinum að norsk olíu- og gasvinnsla væri hluti af lausn loftslagsvandans þar sem þessir orkugjafar komi í stað kola. Mikilvægt væri einnig að styðja við tækniþróun til að draga úr útstreymi og var þar vísað til tilraunaverkefnis í Mongstad sem felst í að hreinsa koldíoxíð úr útblæstri orkuversins.

Stoltenberg sagðist hafa mikla ánægju af því að sitja ársfundi NHO og að honum fyndist hann vera þar á heimavelli. Hann sagði orku vera sérstaka vöru og það stafi af þrennu. Í fyrsta lagi hafi orkuframleiðsla og nýting áhrif á umhverfið meðal annars á loftslagið. Stór hluti mannkyns búi hins vegar við mikinn orkuskort. Þess vegna verði bæði að auka orkuframleiðslu og einnig að minnka áhrifin á loftslagið. Í öðru lagi sé arðsemi orkugeirans meiri en í annari starfsemi og því eðlilegt að samfélagið njóti góðs af arðinum. Í þriðja lagi sé norska ríkið ráðandi í orkuframleiðslunni og þær ákvarðanir sem hafi verið teknar í upphafi um ráðstöfun arðs af olíuvinnslunni hafi reynst farsælar. Eftirlaunasjóðurinn hafi vaxið og einungis hreyft við ávöxtun hans. Fjármunir sjóðsins séu allt of miklir til þess að unnt sé  að treysta stjórnmálamönnum fyrir ráðstöfun þeirra.

Ola Borten Moe á ársfundi NHO 2013

Ráðherrarnir fjölluðu báðir um útflutning raforku frá Noregi og sögðu að verið væri að leggja nýjan rafstreng frá Noregi til Danmerkur og að í undirbúningi væru strengir til Þýsklands og Bretlands sem áformað er að taka í notkun 2018 og 2020. Samhliða þessum framkvæmdum yrði að styrkja orkudreifikerfið í Noregi og tryggja samkeppnisstöðu orkufreks iðnaðar. Fyrirtæki í þeirri grein þurfi að geta gert langtímasamninga um orkukaup en í framleiðslu þeirra felist útflutningur á orku í föstu formi.

Sjá nánar:

Allt efni fundarins er að finna á vef NHO

Upptökur frá fundinum má nálgast hér 

Horfa á erindi Jens Stoltenberg

Horfa á erindi Ola Borten Moe