05. október 2022

Norðurál er Umhverfisfyrirtæki ársins 2022

Sjálfbærni

Umhverfismál

Sjálfbærni

Umhverfismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Norðurál er Umhverfisfyrirtæki ársins 2022

Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Norðurál en framtak ársins á sviði umhverfismála á Sjóvá.

Norðurál

Kolefnisspor áls frá Norðuráli er með því lægsta sem gerist í heiminum og hefur fyrirtækið sett sér það markmið að ná fullu kolefnishlutleysi. Norðurál er þátttakandi í þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem miða að því að þróa tæknilega lausnir sem gera það mögulegt.

Norðurál býður viðskiptavinum sínum umhverfisvænt ál undir vöruheitinu Natur-Al™. Það er markaðssett sem íslenskt ál, er rekjanlegt frá upphafi til enda framleiðsluferilsins og vottað af óháðum aðilum. Þegar litið er á ferlið í heild, frá vinnslu hráefna til afhendingar fullunninnar vöru, nemur kolefnisspor Natur-Al™ einungis fjórðungi af heimsmeðaltalinu.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson afhenti forsvarsmönnum Norðuráls umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2022

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands veitir forsvarsfólki umhverfismála Norðuráls verðlaunin. F.v. Sólveig Kr. Bergmann, yfirmaður samskipta, Steinunn Dögg Steinsen, yfirmaður umhverfis- og öryggismála og Gunnar Guðlaugsson, forstjóri.

Í umsögn valnefndar segir meðal annars að markmið fyrirtækisins séu skýr og aðgengileg en aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af vel skilgreindum aðgerðum sem er leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki.

„Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur í rekstri Norðuráls og þakklát fyrir þann heiður sem fyrirtækinu er sýndur með því að vera útnefnt umhverfisfyrirtæki ársins 2022. Það er áhugaverð staðreynd að ef öll álver í heiminum framleiddu ál með sama hætti og Norðurál myndi losun CO2 á heimsvísu minnka um 550 milljón tonna á ári. Til samanburðar nemur heildarlosun Íslands 4,5 milljónum tonna á ári.

Við hjá Norðuráli vinnum stöðugt að lágmörkun umhverfisáhrifa og ábyrgri nýtingu orku og hráefna. Í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamningnum höfum við sett okkur markmið um að árið 2030 verði losun gróðurhúsalofttegunda (utan viðskiptakerfis ESB) um að minnsta kosti 40% minni en hún var árið 2015. Nú þegar hefur losun gróðurhúsalofttegunda dregist saman um 27% og úrgangsmagn um 8%. Þessi góði árangur hefði aldrei náðst nema fyrir elju og áhuga starfsfólksins okkar.” - Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja Gréta María Grétarsdóttir, formaður, Brynjólfur Bjarnason og Sandra Rán Ásgrímsdóttir.

Meðfylgjandi er verðlaunamyndbandið sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2022 er Guðni Th. Jóhannesson veitti Norðuráli verðlaunin.

Samtök atvinnulífsins