Efnahagsmál - 

18. september 2012

Niðurskurður til háskóla hægir á hagvexti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Niðurskurður til háskóla hægir á hagvexti

"Í október verða 4 ár liðin frá hruni íslensku bankanna og upphafi þeirrar djúpu kreppu sem því fylgdi. Strax í kjölfarið komu skýr skilaboð frá sérfræðingum í Svíþjóð og Finnlandi, sem reynslu höfðu af djúpum kreppum, um að standa skyldi vörð um menntun og þá sérstaklega háskólamenntun, enda væri öflugur menntaður mannauður grunnurinn að þeim hagvexti sem nauðsynlegur væri til að komast út úr djúpri kreppu." Á þetta er bent í yfirlýsingu Háskólans í Reykjavík en þar segir að þvert á ráðleggingar sérfræðinga hafi framlög til háskóla á Íslandi verið skorin niður þrjú ár í röð. Mest hafi verið skorið niður til tæknimenntunar á háskólastigi og sé nú ráðgert að skera þar enn frekar niður.

"Í október verða 4 ár liðin frá hruni íslensku bankanna og upphafi þeirrar djúpu kreppu sem því fylgdi. Strax í kjölfarið komu skýr skilaboð frá sérfræðingum í Svíþjóð og Finnlandi, sem reynslu höfðu af djúpum kreppum, um að standa skyldi vörð um menntun og þá sérstaklega háskólamenntun, enda væri öflugur menntaður mannauður grunnurinn að þeim hagvexti sem nauðsynlegur væri til að komast út úr djúpri kreppu." Á þetta er bent í yfirlýsingu Háskólans í Reykjavík en þar segir að þvert á ráðleggingar sérfræðinga hafi framlög til háskóla á Íslandi verið skorin niður þrjú ár í röð. Mest hafi verið skorið niður til tæknimenntunar á háskólastigi og sé nú ráðgert að skera þar enn frekar niður.

Undanfarin ár hefur viðvarandi skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi staðið í vegi fyrir vexti fyrirtækja sem hefur komið niður á verðmætasköpun og hagvexti. HR vísar til nýlegrar könnunar Samtaka iðnaðarins sem gerð var meðal 400 fyrirtækja innan SI. Samkvæmt henni þurfa fyrirtækin um 2000 tækni- og háskólamenntaða starfsmenn á næstu árum til að styðja við vöxt sinn og þróun. Langmest er þörfin fyrir raunvísinda-, tækni- eða verkfræðimenntað fólk.

Samtök atvinnulífsins taka undir áhyggjur af þessum niðurskurði en SA hafa undanfarnar vikur og mánuði ítrekað bent á að nauðsynlegt sé að efla verk- og tæknimenntun til að atvinnulífið geti sótt fram. Sýn samtakanna var m.a. sett fram í ritinu Uppfærum Ísland sem kom út á aðalfundi SA 2012 og má nálgast hér að neðan. Þar segir m.a. að mikil eftirspurn sé eftir starfsfólki með raungreina- og tæknimenntun á háskólastigi. Takist skólakerfinu ekki að svara þessari eftirspurn sé  hætta á að fyrirtæki muni enn frekar en nú byggjast upp að mestu erlendis en Ísland stendur aftarlega í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að tæknimenntun fólks á aldrinum 25-35 ára.

Í tilkynningu HR segir að til að koma Íslandi út úr kreppunni þurfi viðvarandi og öflugan hagvöxt. Öflugt háskólastarf í virkum tengslum við atvinnulífið og þá sér í lagi öflug menntun og nýsköpun á sviðum tækni, viðskipta og skyldra greina, sé forsenda þess að ný og verðmæt þekking verði til á Íslandi.

"Fjárfesting í menntun og þá sérstaklega í háskólamenntun í tæknigreinum er bein fjárfesting í hagvexti og auknum skatttekjum ríkissjóðs. Fjöldi starfa í þekkingariðnaði getur vaxið verulega og þannig aukið verðmætasköpun á Íslandi, en skortur á tæknimenntuðu fólki kemur í veg fyrir að fyrirtækjum takist að ráða fólk til starfa. Þessi staðreynd hefur neytt mörg fyrirtæki til að leita erlendis eða að takmarka mjög umsvifin á Íslandi. Sé ætlunin að snúa þessari þróun við og vinna markvisst að viðvarandi hagvexti verður að efla tæknimenntun á Íslandi fremur en að skera hana niður við trog. Hvert ár niðurskurðar til háskóla leiðir til margfalds taps í verðmætasköpun, hagvexti og skatttekjum ríkisins."

Sjá nánar:

Tilkynning HR

Stefnumörkun SA: Uppfærum Ísland (PDF)

Frétt SA 17. apríl 2012:

Atvinnulífið vantar verk- og tæknimenntað starfsfólk

Samtök atvinnulífsins