Niður með múrana

Það er segin saga að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna. Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóðaviðskiptum. Hér sannast hið fornkveðna að verðmætasköpunin er mest þegar ríki sérhæfa sig í því sem þau gera best og versla það sem þau vanhagar um erlendis.

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.

Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun. Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess að verkefni sem áður borguðu sig ekki verða arðbær sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri sem fyrir eru í landinu og skapa önnur sem eru heimamönnum hulin.

Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.

  • Í fyrsta lagi þá eru íslenska þjóðin ung í alþjóðlegum samanburði en ungar þjóðir njóta góðs af erlendu fjármagni þar sem að einstaklingar skuldsetja sig yfirleitt snemma á lífsleiðinni og byggja upp sparnað eftir því sem þeir eldast. Þá skapar hátt hlutfall fólks á vinnufærum aldri einnig tækifæri til atvinnuuppbyggingar sem auðveldara er að nýta með aðgangi að erlendu fjármagni.

  • Í öðru lagi þá erum við fámenn þjóð í víðfeðmu landi. Ísland er eitt strjálbýlasta land veraldar en ríkt af náttúruauðlindum. Í fámenninu felast mikil tækifæri en um leið takmarkanir. Erlendir fjárfestar geta aðstoðað heimamenn við að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og að sama skapi komið með ný verkefni og með því stuðlað að fjölbreyttara og öflugra hagkerfi.

  • Í þriðja lagi þá er menntunarstig hátt á Íslandi sem gerir vinnumarkaðinn móttækilegri fyrir tækninýjungum og skapar svigrúm fyrir verðmætari störf.

Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu. Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu. Sláandi var hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting. Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins.

Hagkerfið hefur sjaldan staðið styrkari fótum, skuldir hafa verið greiddar, viðskiptaafgangur er viðvarandi og hrein erlend eignastaða er jákvæð.

Tortryggni Íslendinga gagnvart erlendu fjármagni má líklega að hluta til rekja til þeirra sveiflna sem urðu árin fyrir og eftir 2008 þegar fjárfestingar erlendra aðila leiddu til verulegs ójafnvægis í þjóðarbúinu. Afleiðingarnar þekkja allir. Þar var þó ekki við fjárfestingar erlendra aðila að sakast því umgjörð vandans var heimatilbúin. Á árunum 2005-2007 varð Seðlabankinn fangi eigin vaxtastefnu. Háir vextir löðuðu hingað til landsins fjárfesta sem vildu fjárfesta í íslensku vöxtum á sama tíma juku heimili og fyrirtæki skuldsetningu sína í erlendum lágvaxtamyntum. Seðlabanki Íslands gerði þau afdrífaríku mistök að safna ekki í gjaldeyrisvarasjóð til að mæta innflæðinu og því styrktist krónan samfleytt yfir langt tímabil. Það innflæði magnaði upp ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Eftirleikinn er óþarfi að rekja hér.

Seðlabankinn má eiga það að hann dró lærdóm af fyrri mistökum. Um þessar mundir á Seðlabankinn ríflegan gjaldeyrisforða sem dregur verulega úr líkum á því að ójafnvægi geti myndast á gjaldeyrismarkaði. Skuldsetning heimila og fyrirtæki hefur minnkað verulega undanfarinn hálfan áratug. Skuldir heimila og fyrirtækja eru auk þess í innlendri mynt að undanskyldum  útflutningsfyrirtækjum sem hafa tekjur í erlendri mynt.

Margt hefur áunnist síðustu ár. Hagkerfið hefur sjaldan staðið styrkari fótum, skuldir hafa verið greiddar, viðskiptaafgangur er viðvarandi og hrein erlend eignastaða er jákvæð. Þá hafa útflæðishöftin verið afnuminn og í framhaldinu hefur lánshæfi ríkisins styrkst. Eftir standa hins vegar innflæðishöft, eða fjárstreymistæki eins og Seðlabankinn vill kalla þau, sem sett voru hér á um mitt árið 2016. Svo virðist sem þau séu komin til að vera í bili enda herti Seðlabankinn höftin þann 26.júní sl. þvert á ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Höft sama í hvaða formi þau eru loka fyrir ákveðna tegund af viðskiptum milli landa og brengla verðmyndum á mörkuðum. Lokaðir fjármagnsmarkaðir leiða til hærra vaxtastigs en ella.

Í nýútkominni skýrslu AGS áréttar sjóðurinn að það hafi verið misráðið að koma hér á innflæðishöftum enda séu þau einungis réttlætanleg sem neyðarúrræði. Þá bendir sjóðurinn á að samfara lækkandi nafnavöxtum hér heima og hækkandi raunvöxtum erlendis séu varla nokkur rök til að viðhalda innflæðishöftum. Höft eigi ekki að leika lykilhlutverki í íslenskri hagstjórn líkt og þau því miður gera í dag.

Í því samhengi er vert að hafa í huga að fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum ríkisskuldabréfum námu um þriðjungi af landsframleiðslu þegar mest lét á árunum fyrir 2008, í dag mælist eignarhlutur þeirra 4% af landsframleiðslu. Erfitt er því að sjá að innkoma erlendra aðila hafi á undanförnum árum raskað verulega miðlun peningastefnunnar, hvorki út frá umfangi né út frá þróun verðólguálags fyrir og eftir tilkomu innflæðishafta. Það er þörf á betri rökstuðningi frá Seðlabankanum fyrir því að hér þurfi að vera innflæðishöft við lýði.

Höft sama í hvaða formi þau eru loka fyrir ákveðna tegund af viðskiptum milli landa og brengla verðmyndum á mörkuðum. Lokaðir fjármagnsmarkaðir leiða til hærra vaxtastigs en ella, enda er með slíkum höftum verið að takmarka aðgengi ríkissjóðs og innlendra fyrirtækja að erlendri lánsfjármögnun.

Opið hagkerfi stuðlar að aukinni samkeppni eftir bæði vörum og fjármagni, lægri vöxtum, aukinni fjárfestingu og verðmætasköpun. Það styrkir hagkerfið og bætir lífskjör landsmanna. Íslendingar eru skólabókardæmi um þjóð sem hefur not fyrir erlent fjármagn. Það á við um allar fjárfestingar, hvort sem það eru fjárfestingar í íslenskum skuldabréfum eða hlutabréfum. Betur má ef duga skal.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. júlí 2017.