04. nóvember 2025

Neikvæð áhrif kílómetragjalds og kolefnisgjalds

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Neikvæð áhrif kílómetragjalds og kolefnisgjalds

Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki sem nú er endurflutt á Alþingi að mestu óbreytt frá fyrri þingum. Samtökin vara við því að svo umfangsmiklar breytingar á gjaldtöku verði samþykktar án ítarlegrar greiningar og samráðs við hagsmunaaðila.

Víðtæk áhrif á ferðaþjónustu
SA taka undir áhyggjur Samtaka ferðaþjónustunnar og benda á að nýtt gjaldakerfi muni hafa víðtæk áhrif á ferðaþjónustu, einkum bílaleigur, sem þurfi svigrúm til að aðlaga sig. Verði farið of geyst í innleiðingu gæti það skaðað samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands.

Fiskiskip undanskilin kolefnisgjaldi í nágrannalöndum
Í umsögninni gagnrýna SA einnig fyrirhugaða 32% hækkun kolefnisgjalds á dísel og gasolíu, sem komi ofan á 60% hækkun á þessu ári. Þannig muni gjaldið hækka um meira en 110% á einu ári. Að mati samtakanna leiðir þetta til verulegrar kostnaðaraukningar, meðal annars í sjávarútvegi, þar sem gjaldið nemur 2,6 milljörðum króna árlega.

SA minna á að í nágrannalöndum, líkt og í Danmörku og Noregi, hafi fiskiskip verið undanskilin kolefnisgjaldi þar sem orkuskiptalausnir eru ekki tilbúnar. Hærri gjöld hér á landi muni veikja samkeppnisstöðu, draga úr fjárfestingum og þannig jafnvel aukið losun til lengri tíma.

Að lágmarki frestað til 1. júlí 2026
Að lokum leggja SA áherslu á að tekjur af kílómetragjaldi renni til viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins. Þá sé mikilvægt að kostir og gallar ólíkra rekstrarforma verði skoðaðir við viðhald vegakerfisins. SA telja jafnframt eðlilegt að gildistöku laganna verði að frestað til 1. janúar 2027 en að lágmarki til 1. júlí 2026 svo fyrirtæki og stjórnvöld hafi nægan tíma til undirbúnings og aðlögunar.

Samtök atvinnulífsins