Efnahagsmál - 

17. Febrúar 2008

Nauðsynlegt að framkvæma samningana rétt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nauðsynlegt að framkvæma samningana rétt

Í kjarasamningunum sem undirritaðir voru 17. febrúar hækkuðu kauptaxtar verkafólks um 18 þúsund krónur á mánuði og iðnaðarmanna um 21 þúsund krónur á mánuði. Samningarnir fela í sér launaþróunartryggingu sem er 5,5% sem virkar þannig að hafi laun ekki hækkað sem því nemur frá 2. janúar 2007 hækka þau nú um það sem á vantar hjá þeim sem hafa verið í starfi þennan tíma. Laun sem hafa hækkað um 5,5% eða meira hækka ekki nú. Í samningunum felast engar almennar flatar launahækkanir.

Í kjarasamningunum sem undirritaðir voru 17. febrúar hækkuðu kauptaxtar verkafólks um 18 þúsund krónur á mánuði og iðnaðarmanna um 21 þúsund krónur á mánuði. Samningarnir fela í sér launaþróunartryggingu sem er 5,5% sem virkar þannig að hafi laun ekki hækkað sem því nemur frá 2. janúar 2007 hækka þau nú um það sem á vantar hjá þeim sem hafa verið í starfi þennan tíma. Laun sem hafa hækkað um 5,5% eða meira hækka ekki nú. Í samningunum felast engar almennar flatar launahækkanir.

Meginatriði þessara samninga er að forgangsraða því svigrúmi sem atvinnulífið hefur til launahækkana til þeirra sem greidd eru laun samkvæmt lægstu kauptöxtum og til þeirra sem setið hafa eftir í launaskriði. Með samningunum skapast raunhæfur möguleiki á að ná niður verðbólgu og að launa- og verðbreytingar verði almennt í sama farvegi og í nágrannalöndum okkar.

Mikilvægt er að fyrirtæki geri ekki aðrar launabreytingar nú en þær sem ákveðnar eru með samningunum og bíði þangað til áhrif samninganna hafa komið fram. Fyrirsjáanlegt er að það hægir á efnahagslífinu og fyrirtæki verða að vanda vel til ákvarðana sem hafa áhrif á rekstrarlega stöðu þeirra. Með réttri framkvæmd kjarasamninganna og framlagi stjórnvalda eru góðar horfur á að starfsskilyrði atvinnulífsins batni, vextir lækki, verðbólga minnki og raunverulegar kjarabætur verði tryggðar.

Sú ákvörðun að hækka laun þeirra lægst launuðu þýðir að hækkanir til starfsmanna og aukning á launakostnaði fyrirtækja verður mjög mismunandi. Breytingarnar eru allt frá því að verða litlar sem engar í að mælast í drjúgum hækkunum þegar allra lægstu hugsanlegu laun eru skoðuð. En forgangsröðunin skapar grunn að nýju jafnvægi á vinnumarkaðnum og í atvinnulífinu sem er forsenda stöðugleika og hjöðnun verðbólgunnar.

Umsamdar hækkanir eru mjög sambærilegar við niðurstöður samninganna 22. júní 2006. Verðbólgan á síðari hluta árs 2006 lækkaði mjög í kjölfar þeirra samninga og á síðari árshelmingi var hraði verðbólgunnar kominn niður fyrir 3%. Verðbólgan fór svo vaxandi á nýjan leik þegar kom fram á árið 2007 fyrst og fremst vegna hækkunar íbúðaverðs. Engin ástæða er til annars en álykta að verðbólguhjöðnun í framhaldi af samningunum núna verði svipuð og á síðari hluta árs 2006.

Samtök atvinnulífsins