Vinnumarkaður - 

22. janúar 2015

Nauðsynlegt að bæta umgjörð vinnumarkaðarins

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Nauðsynlegt að bæta umgjörð vinnumarkaðarins

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag brýnt að fara í umbætur á umgjörð vinnumarkaðarins til að koma á meira jafnvægi í launaþróun. Þorsteinn segir SA hafa horft til nágrannalandanna hvað þetta varðar og þar sé ýmislegt sem taka megi til fyrirmyndar ef horft er á umgjörðina til launahækkana.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið í dag brýnt að fara í umbætur á umgjörð vinnumarkaðarins til að koma á meira jafnvægi í launaþróun. Þorsteinn segir SA hafa horft til nágrannalandanna hvað þetta varðar og þar sé ýmislegt sem taka megi til fyrirmyndar ef horft er á umgjörðina til launahækkana.

„Þótt hvert ríki hafi sinn háttinn á er þar samkomulag milli allra stærstu aðila vinnumarkaðar og það svigrúm sem talið er vera til launahækkana á hverjum tíma, og samið er um, er í raun þakið í launaþróun allra launahópa sem á eftir koma. Um það ríkir þá sátt milli þessara hópa svo opinberir starfsmenn hafa skuldbundið sig til að fylgja því ekki síður en aðrir hópar á almennum vinnumarkaði. Þar af leiðandi fer ekki af stað þetta höfrungahlaup sem hér er landlægt,“ segir hann.

Þorsteinn segir gallann hér á landi þann að sá hópur sem hafi beittasta verkfallsvopnið hafi ávallt sigur í launaþróun, óháð því hvort kröfurnar séu sanngjarnar eða viðkomandi hópur hafi setið eftir í launaþróun eða ekki. Slíkt muni aldrei skila stöðugleika.

Hann segir heppilegustu lausnina þá að aðilar setjist niður og geri nokkurs konar rammasamning,án þess að takmarka verkfallsrétt. „Það væri ótímabundinn samningur um verkferilinn við gerð kjarasamninga. Hvernig þetta merki er mótað og hvernig það færist svo yfir á næstu hópa sem á eftirkoma.“ Hann segir það ekki vafamál að gerð slíks samkomulags myndi kosta mikla vinnu. „Við teljum afar brýnt að farið verði í þessa vinnu ef það á að takast að ná betri stöðugleika í okkar fyrirkomulagi,“segir hann.

Sögulegt tækifæri
Ítarlega er fjallað um stöðuna á vinnumarkaði í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Þorsteinn að sögulegt tækifæri sé til að byggja upp lífskjör á grundvelli stöðugleika eftir síðustu samninga við aðildarfélög ASÍ. Á undanförnum 12 mánuðum hafi verðbólga verið um 1% og kaupmáttaraukning um 5%.

„Það er einn besti árangur sem við höfum náð, án þess að það sé einhver ofþensla í samfélaginu. Við höfum aldrei upplifað slíka kaupmáttaraukningu á einu ári, að frátöldum örfáum árum með efnahagslegri ofþenslu. Það er sorglegt ef þessum einstaka árangri verður glutrað niður.“

Hann bendir hins vegar á að raunveruleg hætta sé á því að Íslendingar þurfi að kljást við óðaverðbólgu og skert lífskjör ef röng leið er farin. SA hafa t.d. bent á að ef laun á vinnumarkaði hækki jafn mikið og laun lækna næstu þrjú árin muni það valda mikilli verðbólgu, gengislækkun krónunnar og verulegri hækkun verðtryggðra skulda. Uppsöfnuð verðbólga á tímabilinu yrði 27% og verðtryggð lán heimilanna myndu hækka um 500 milljarða króna. Kaupmáttur launa myndi aðeins aukast um 2%.

Viðkvæm staða
„Við höfum miklar áhyggjur af stöðunni en vísum á bug fullyrðingum um að við séum með okkar útreikningum að ráðast sérstaklega að láglaunafólki eða leggja ábyrgðina í hendur tilteknum hópum í þjóðfélaginu.

Efnahagslegur stöðugleiki er sameiginleg ábyrgð okkar allra. Þá er mikilvægt að launaþróun allra hópa sé sambærileg. Forysta verkalýðshreyfingarinnar getur ekki gefið sig ábyrgðarleysinu algjörlega á vald, eins og virðist vera að gerast núna. Afleiðingar tuga prósenta launahækkana yrðu í okkar huga skelfilegar,“ segir framkvæmdastjóri SA í Morgunblaðinu  um gagnrýni verkalýðsleiðtoga á útreikninga SA á áhrifum þess á verðbólgu ef laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu til jafns við laun lækna.

Kallar eftir ábyrgari umræðu
Þorsteinn telur tímabært að forystumenn í verkalýðshreyfingunni verði ábyrgari í yfirlýsingum. „Í öllum nágrannaþjóðum okkar hafa menn fyrir löngu gert sér grein fyrir mikilvægi þess að launaþróun sé í samræmi við forsendur stöðugs verðlags, ef árangur í efnahagsmálum og raunveruleg kaupmáttaraukning á að nást. Deilur um hvort hér á landi sé svigrúm til tuga prósenta launahækkana, eins og ítrekað vakna í tengslum við kjaraviðræður, er löngu búið að útkljá hjá öðrum norrænum þjóðum. Þar er rætt um að skipta svigrúmi sem liggur á bilinu 2-4% á ári. Annars staðar á Norðurlöndum dettur engum ábyrgum aðila í hug að hægt sé að hækka laun í einni svipan um tugi prósenta án þess að það hafi veruleg áhrif á verðbólgu og atvinnustig. Kröfur af því tagi eru ekkert annað en kröfur um stóraukna verðbólgu í þjóðfélaginu og hrinu gjaldþrota. Það væri óhjákvæmileg afleiðing slíkra kjarasamninga. Menn verða þá að tala um áhrif þess alla leið og reikna út afleiðingarnar fyrir allt þjóðfélagið,“ segir Þorsteinn.

SA vöruðu við kröfum lækna
Framkvæmdastjóri SA segir að með tali um tuga  prósenta launahækkanir séu endurvaktar umræður sem fóru fram áratugina fyrir þjóðarsáttina 1990. „Lærdómurinn sem dreginn var af þeirri þróun varð einmitt uppleggið að þjóðarsáttinni, þar sem menn komu einfaldlega uppgefnir eftir áratuga óðaverðbólgu og sögðu einfaldlega: Við getum þetta ekki lengur. Við verðum að ná tökum á þessu ástandi. Uppleggið í þeim samningum var að það yrði að semja um hóflegar launahækkanir til að hemja verðbólguna. Það tókst og í kjölfarið kom tímabil með stöðugu gengi, stöðugu verðlagi, auknum kaupmætti og mikilli framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Óstöðugleikinn hefur aldrei fært okkur annað en lakari frammistöðu í atvinnulífinu og þar af leiðandi minna svigrúm til raunverulegra kauphækkana. Við megum aldrei missa sjónar á þeim lærdómi sem draga má af aðdraganda þjóðarsáttarinnar. Það er í mínum huga enginn kostur að endurvekja það þjóðarástand sem þá var. Tjón í atvinnulífinu yrði mikið og væri heldur ekki uppskriftin að því að bæta samkeppnisstöðu okkar í samanburði við nágrannalöndin,“ segir Þorsteinn og bendir á að SA hafi varað við þessu fyrir nýgerða læknasamninga.

„Við stöndum áfram við þau varnaðarorð. Það er engin leið að hækka laun um tugi prósenta öðruvísi en að óðaverðbólga fylgi í kjölfarið. Með okkar útreikningum erum við ekki að ráðast á ákveðna hópa. Við sögðum fyrirfram, fyrir gerð læknasamninga, að þessar kröfur væru óraunhæfar og það væri engin leið fyrir einn hóp í samfélaginu að ætla að rífa sig svona frá heildinni án þess að þeirra kröfur eða samningar hefðu áhrif á það sem á eftir kæmi. Ólgan vegna kennarasamninga lá fyrir þegar samningur við lækna var gerður.“

Þorsteinn segist hafa skilning á því að fólki finnist það ekki réttlát skipting, að einn tekjuhæsti hópurinn fái langmestu prósentuhækkunina. „Það breytir því ekki að sömu hækkanir yfir alla aðra hópa sem á eftir koma þýðir einfaldlega verri stöðu en ella. Það mun allt glatast í óðaverðbólgu.“

Til mikils að vinna

 „Það er umhugsunarefni þegar engin krafa er um meðalhóf eða réttlætisspurningu þegar kemur að verkfallsboðun, sé það sá hópur sem valdið getur mestum skaða sem á endanum sækir hæstu launabreytingarnar. Slíkt líkan mun aldrei skila stöðugleika. Við verðum að fara í umbætur á umgjörð vinnumarkaðarins og byggja þar á þeim grunni sem við fórum af stað með í síðustu samningum,án þess að ganga á verkfallsrétt launamanna.“

Spurður hvort það takist að fara í slíkar umbætur í komandi kjaraviðræðum segir Þorsteinn:

„Við erum með mjög alvarlega stöðu fyrir komandi viðræður. Sú staða fer ekki frá okkur. Mikil tortryggni ríkir gagnvart stjórnvöldum og misræmi er í launaþróun einstakra hópa, þar sem opinberi markaðurinn hefur farið langt út fyrir þann ramma sem mótaður var í síðustu samningum SA og aðildarfélaga ASÍ. Það er erfitt að kljást við þetta en við verðum að finna lausnina. Hinn valkosturinn, að velta miklum hækkunum yfir á vinnumarkaðinn, er ekki kostur í mínum huga og leiðir til mikils tjóns í okkar umhverfi og myndi afmá þann árangur sem náðist í kjölfar síðasta hruns. Það er til mikils að vinna að forðast þann skaða. Að öðrum kosti erum við að kalla yfir okkur kollsteypu eins og varð hér 2008 og 2009.“

Sjá nánar í Morgunblaðinu 22. janúar 2015

Samtök atvinnulífsins