Nauðsynlegt að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað lýst vonbrigðum sínum með að Ísland skipar sér í hóp þeirra ríkja sem skemmst vilja ganga í átt til aukins viðskiptafrelsis með landbúnaðarvörur. Samtökin leggja ekki til að núverandi kerfi styrkja og innflutningsverndar í landbúnaði verði kollvarpað á einu bretti, en telja nauðsynlegt að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur og auka þannig fjölbreytni í vöruframboði, samkeppni og aðhald markaðarins. Með þessu yrði stuðlað að lækkun á matvælaverði til neytenda sem er alltof hátt hér á landi. Draga þarf úr opinberum stuðningi við greinina, gera hann gagnsærri og draga úr markaðstruflandi áhrifum hans. Samtök atvinnulífsins hvetja íslensk stjórnvöld eindregið til þess að endurskoða stefnu sína á þessu sviði.

Neysluskattar og vörugjöld

Stjórnvöld hafa það á stefnuskrá sinni að draga úr skattlagningu á matvæli. Samtök atvinnulífsins styðja þau áform og hafa ásamt aðildarfélögum samtakanna bent á skynsamlega leið í þeim efnum. Sú leið felst í því að setja öll matvæli í sama þrep virðisaukaskatts og fella af þeim vörugjöld, samtímis því sem ákvörðun yrði tekin um  lækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts í 12%. Þau matvæli sem bera vörugjöld og skattlögð eru í hærra þrepi virðisaukaskatts bera stjórnlyndri neyslustýringu vitni. Þessi neyslustýring verður til dæmis ekki réttlætt með skírskotun til manneldisstefnu, eins og stundum er haldið fram, þar sem til dæmis vörur með mikið sykurinnihald eru ýmist í lægra eða hærra skattþrepinu og ýmis matvæli sem flokkast sem hollustuvörur eru skattlögð í hærra þrepinu. Rökin fyrir tillögu atvinnuvegasamtakanna eru einkum þau að með slíkum breytingum yrðu alvarlegir agnúar sniðnir af skattkerfinu og það fært nær því sem tíðkast hjá þjóðum sem við berum okkur saman við.

Sjá nánar um áherslur SA í alþjóðamálum, þar með talið fríverslunarmálum.

Sjá nánar um áherslur SA í skattamálum.