Efnahagsmál - 

27. júní 2003

Náið verði fylgst með áhrifum á EES-samninginn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Náið verði fylgst með áhrifum á EES-samninginn

Ráðgjafarnefnd EFTA hefur samþykkt álit til ráðherraráðs samtakanna um hagsmunagæslu og undirbúning EFTA vegna áhrifa væntanlegrar stjórnarskrár ESB á EES-samninginn. Almennt leggur nefndin höfuðáherslu á að EFTA fylgist grannt með þessari þróun og áhrifum hennar á EES-samninginn og hefji sem fyrst undirbúning viðbragða, m.a. í formi fræðslu, til að sem best verði áfram staðinn vörður um hagsmuni EFTA-ríkjanna þegar við á.

Ráðgjafarnefnd EFTA hefur samþykkt álit til ráðherraráðs samtakanna um hagsmunagæslu og undirbúning EFTA vegna áhrifa væntanlegrar stjórnarskrár ESB á EES-samninginn. Almennt leggur nefndin höfuðáherslu á að EFTA fylgist grannt með þessari þróun og áhrifum hennar á EES-samninginn og hefji sem fyrst undirbúning viðbragða, m.a. í formi fræðslu, til að sem best verði áfram staðinn vörður um hagsmuni EFTA-ríkjanna þegar við á.

Breytt ferli laga- og reglusetningar
Í stjórnarskrárdrögum svokallaðrar framtíðarráðstefnu ESB eru m.a. gerðar tillögur um breytingar á stjórnkerfi sambandsins. Þetta kann m.a. að kalla á tæknilega aðlögun EES-samningsins, en aðildarríkin eru nú hinir formlegu samningsaðilar. Þá er mikið rætt um framtíðarfyrirkomulag samskipta ESB við nágrannaríki á borð við Rússland og ýmis ríki Norðurafríku, en á framtíðarráðstefnunni (sem samdi stjórnarskrárdrögin) var EES-samningurinn m.a. til umræðu sem möguleg fyrirmynd. Nefndin leggur áherslu á að EFTA fylgist náið með slíkri samningagerð og mögulegum áhrifum slíkra samninga á fjórfrelsið. Loks telur nefndin brýnt að EFTA-ríkin meti áhrif þeirra breytinga sem lagðar eru til á stjórnkerfi ESB, m.a. á laga- og reglusetningarferlum sambandsins, á möguleika EFTA-ríkjanna til áhrifa á mótun reglna og á möguleg viðbrögð við slíkum breytingum.

Aðilar vinnumarkaðarins með aukið formlegt hlutverk
Ennfremur telur nefndin mikilvægt að aukið formlegt hlutverk aðila vinnumarkaðarins innan ESB, sem fjallað er um í stjórnarskrárdrögunum, verði skoðað í EES-samhengi. Þá telur nefndin ástæðu til að samið verði um aukið vægi þessara aðila innan EFTA-samstarfsins.

Sjá álit nefndarinnar á heimasíðu EFTA.

Ráðgjafarnefnd EFTA er skipuð fulltrúum aðila vinnumarkaðarins o.fl. aðila í aðildarríkjum samtakanna.

 

Samtök atvinnulífsins